Fara í efni
Íþróttir

Bættu brautarmetin um nokkrar klukkustundir

Þrjú efstu í karla- og kvennaflokki í 100 kílómetra löngu Gyðjuhlaupinu í Súlur vertical 2024.

Andrea Kolbeinsdóttir og Þorbergur Ingi Jónsson eru sigurvegarar í Gyðjuhlaupi Súlna vertical, 100 kílómetra fjallahlaupi með 3.580 metra hækkun. Árangur beggja er magnaður og bættu þau brautarmetin frá því í fyrra um nokkrar klukkustundir. Þorbergur Ingi var hátt í þremur klukkustundum á undan næsta keppanda í karlaflokki og Andrea næstum klukkutíma á undan næstu konum.

Metþátttaka var í hlaupinu sem heitir fullu nafni 66°Norður Súlur vertical. Alls voru 520 þátttakendur skráðir en um fjögur mismunandi hlaup er að ræða, frá 19 kílómetra stígahlaupi upp í 100 kílómetra hlaup með 3.580 metra hækkun! Þrjú af hlaupunum fjórum hófust í Kjarnaskógi, en þau sem lengst hlupu byrjuðu við Goðafoss á föstudagskvöld og aðfararnótt laugardags.

Fjöldi fólks og góð stemning

Keppendur í Gyðjunni, lengsta hlaupinu, voru ferjaðir með rútum að Goðafossi á föstudagskvöld og lögðu þaðan af stað í tveimur hópum, kl. 21 og klukkan tvö eftir miðnætti. Þá höfðu skömmu áður um 300 krakkar tekið þátt í fimmtu grein hlaupsins, Krakkahlaupi Súlna vertical, sem Akureyri.net gerði skil í myndum í sama mund og fyrstu ofurhlaupararnir lögðu í hann frá Goðafossi. 

Fjöldi fólks var í miðbæ Akureyrar um og upp úr hádegi í gær þegar fyrstu keppendur komu á spretti í endamarkið og skapaðist þannig góð stemning meðal þátttakenda, aðstandenda þeirra og annarra gesta. Alls tóku um 100 sjálfboðaliðar þátt í undirbúningi og framkvæmd hlaupsins.

Andrea Kolbeinsdóttir kom fyrst kvenna í mark í Gyðjunni (100 km) og Þorbergur Ingi Jónsson fyrstur karla, eins og áður sagði. Í Tröllinu (43 km) sigraði Anna Berglind Pálmadóttir í kvennaflokki og Sigurjón Sturluson í karlaflokki. Í Súlum (29 km) sigraði Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir í kvennaflokki og Jörundur Frímann Jónasson í karlaflokki. Í Fálkanum (19 km) sigraði Elín Edda Sigurðardóttir í kvennaflokki og Egill Gunnarsson í karlaflokki.

Fálkinn – 19 km stígahlaup

Byrjað í Kjarnaskógi, 19 kílómetra stígahlaup með 530 metra hækkun. Hlaupið upp á hamrana ofan við skóginn, í Fálkafell, niður á Súlubílastæði, yfir Glerá og niður í bæ.

  • Konur
    1. Elín Edda Sigurðardóttir – 1:28:06 
    2. Íris Anna Skúladóttir – 1:28:15 
    3. Arna Sól Sævarsdóttir – 1:40:43 

  • Karlar
    1. Egill Gunnarsson – 1:21:06
    2. Ásgeir Daði Þórisson – 1:21:10
    3. Sigurgísli Gíslason – 1:21:51

Súlur – 29 km fjallahlaup

Byrjað í Kjarnaskógi, 29 km fjallahlaup með 1.410 metra hækkun. Hlaupið er upp á hamrana fyrir ofan skóginn, þaðan að Súlubílastæði, farið stikaða leið upp á Súlur og aftur niður, yfir Gler á og niður í bæ. 

  • Konur
    1. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir – 2:51:31
    2. Birna María Másdóttir – 3:19:39 
    3. Eva Birgisdóttir – 3:25:34 

  • Karlar
    1. Jörundur Frímann Jónasson – 2:34:02
    2. Grétar Örn Guðmundsson – 2:36:44
    3. Guðlaugur Ari Jónsson – 2:41:10

Tröllið – 43ja km fjallahlaup

Byrjað í Kjarnaskógi, 43ja km fjallahlaup með 1.870 metra hækkun. Hlaupið er upp á hamrana ofan við skóginn, upp á Súlur og áfram suður fjallgarðinn á Syðri-Súlur, framhjá Krumma og að Litla-Krumma, niður í Lambárdal, yfir Lambárjökul og upp á Lambáröxl. Þaðan er farið niður í Glerárdal að gönguskálanum Lamba, niður Glerárdalinn, yfir Glerá og áfram niður í bæ.

  • Konur
    1. Anna Berglind Pálmadóttir – 4:49:13 
    2. Hildur Aðalsteinsdóttir – 5:03:11 
    3. Guðfinna Kristín Björnsdóttir – 5:08:49 

  • Karlar
    1. Sigurjón Sturluson – 4:13:27
    2. Baldvin Ólafsson – 4:29:23
    3. Victor Aubin – 4:32:28

Gyðjan - 100 km fjallahlaup

Byrjað við Goðafoss, 100 km fjallahlaup með 3.580 metra hækkun. Hlaupið er frá Goðafossi, yfir Belgsárfjall og Vaðlaheiði til Akureyrar, upp á Súlur, inn Glerárdal og að lokum niður í bæ.

  • Konur
    1. Andrea Kolbeinsdóttir – 12:14:33
    2. Elísa Kristinsdóttir – 13:12:44
    3. Rannveig Oddsdóttir – 13:12:45 

  • Karlar
    1. Þorbergur Ingi Jónsson – 9:48:39
    2. Hlynur Guðmundsson – 12:34:57
    3. Sigfinnur Björnsson – 12:35:34