Glaðir göngugarpar í skóginum – MYNDIR
Skíðaganga fór í fyrsta skipti fram í gær í nafni Súlur Vertical, í fallegu veðri í Kjarnaskógi. Frá og með þeirri stundu gengst félagsskapurinn sá arna ekki einungis fyrir samnefndu, mjög vinsælu fjallahlaupi ár hvert. Skíðaganga er orðinn hluti af vörumerkinu og keppni í malarhjólreiðum bætist við í sumar.
Vel viðraði til skíðagöngu í dásamlegri útivistarparadís Akureyringa þegar Hermann Sigtryggsson veifaði flaggi sínu til merkis um að gengið skyldi af stað. Göngukeppni kennd við þann gamalkunna íþróttafrömuð hefur verið haldin í fjöldamörg ár en frá og með gærdeginum verður Hermannsgangan þreytt undir merkjum Súlur Vertical.
Þrjár vegalengdir stóðu keppendum til boða, 24 kílómetrar, 12 og 4 km.
64 tóku þátt í 24 km göngunni sem kallast Bylur, 35 karlar og 29 konur. Einar Árni Gíslason sigraði í karlaflokki á 1 klukkustund og 21 mínútu, var fimm mínútum á undan næsta manni í marki, föður sínum, Gísla Einari Árnasyni. Í kvennaflokki bar Edda Vésteinsdóttir sigur úr býtum; gekk vegalengdina á 1 klukkustund á 49 mínútum og önnur varð Magnea Guðbjörnsdóttir, fimm mín. á eftir Eddu.
47 spreyttu sig í 12 km göngunni – Mjöll – 28 konur og 19 karlar. Róbert Bragi Kárason og Guðrún Baldvinsdóttir sigruðu, Atli Sveinbjörnsson og Hilda Steinunn Egilsdóttir urðu í öðru sæti.
31 keppandi tók þátt í 4 km göngu – Fönn. Viktoría Rós Guseva var fljótust allra í mark á 15 mín. og 23 sek. en fyrstu í karlaflokki varð Arnar Gauti Gíslason á 17 mín.