Fara í efni
Íþróttir

Fyrsta skíðagangan í nafni Súlur Vertical

Stefán Jónasson og Hermann Sigtryggsson, sem í áratugi hafa starfað að íþróttamálum á Akureyri, fylgdust með í Kjarnaskógi í dag þegar lokahönd var lögð á undirbúning göngunnar á morgun. Gangan, sem nú er kennd við Súlur Vertical, var áður nefnd eftir Hermanni. Myndir af Facebook síðu Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Súlur Vertical skíðagangan fer fram í fyrsta sinn í Kjarnaskógi á morgun. Þessi árlega keppni var áður kennd við íþróttafrömuðinn Hermann Sigtryggsson – kölluð Hermannsgangan – en markar frá og með morgundeginum upphafið að Súlur Vertical þríleik sem samanstendur af þremur ólíkum íþróttagreinum og „veitir þátttakendum tækifæri til að upplifa fjölbreyttar áskoranir á hinni stórbrotnu Norðurlands náttúru. Þeir sem ljúka öllum viðburðum þríleiksins fá sérstaka viðurkenningu sem afhend verður í miðbæ Akureyrar að loknum síðasta viðburðinum,“ eins og það er orðað í tilkynningu.

Gangan á morgun hentar öllum, hvort sem er byrjendum eða þeim sem lengra eru komnir í skíðagöngu. „Hvort sem þú ert ... hraður eða hægur, ungur eða aldinn, þá er þessi keppni vettvangur fyrir þig!“ og „er einstakt tækifæri fyrir áhugafólk á öllum aldri og getustigum til að taka þátt í skíðagöngukeppni.“

Dagskrá þríleiksins í ár er þessi:

1. Skíðagöngukeppni Súlur Vertical – 25. janúar

  • Keppnin á rætur sínar að rekja til Hermannsgöngunnar, sem hefur verið fastur liður í íþróttalífi Akureyrar í mörg ár.
  • Keppnin Mjöll (12 km) og Bylur (24 km) eru hluti af skíðagöngunni, þar sem Bylur er einnig hluti af Íslandsgöngunni.
  • Keppni hefst kl. 12.00 á morgun í Kjarnaskógi. Enn er hægt að skrá sig til keppni í skíðagöngunni – SKRÁNING HÉR
  • Frekari upplýsingar má finna á www.sulurvertical.is

2. Malarhjólreiðar Súlur Vertical – 8. júní

  • „Spennandi ný keppni þar sem rásmarkið er í Kjarnaskógi og hjólað verður um falleg svæði á borð við Vaðlaheiði og Fnjóskadal,“ segir í tilkynningu. „Þessi viðburður er tilvalinn fyrir hjólreiðafólk sem sækist eftir nýrri og krefjandi reynslu.“

3. Fjallahlaup Súlur Vertical – 2. og 3. ágúst

  • Fjallahlaupið er nú þegar vel þekkt meðal hlaupara um land allt. Boðið er upp á fjórar vegalengdir fyrir fullorðna, auk krakkahlaups fyrir yngstu kynslóðina.