Súlur Vertical verður þríleikur
Þau sem eru að leita að skemmtilegri áskorun í hreyfingu og útivist á nýju ári ættu að kynna sér nýjan þríleik Súlur Vertical. Auk fjallahlaupsins um verslunarmannahelgina sem flestir Akureyringar eru farnir að þekkja verður nú keppt í skíðagöngu í janúar og malarhjólreiðum í júní.
Fjallahlaupið Súlur Vertical var fyrst haldið árið 2016 og hefur fest sig í sessi sem eitt vinsælasta fjallahlaup landsins. Viðburðurinn hefur stækkað undanfarin ár og í fyrra kepptu 500 hlauparar í fjórum mismunandi vegalengdum, auk þess sem 300 börn tóku þátt í krakkahlaupi Súlur Vertical. Það eru félagasamtökin Súlur Vertical sem halda hlaupið.
„Okkur hefur lengi langað til að bæta við fleiri greinum og nýta þannig betur vörumerkið, þann búnað og þá þekkingu sem hefur orðið til á síðustu árum,“ segir Birkir Baldvinsson mótsstjóri Súlur Vertical. „Umhverfið hér í kringum Akureyri hentar ekki bara frábærlega til utanvegahlaupa. Hér er hægt að gera svo margt annað líka og þess vegna bætum við núna við keppni í skíðagöngu og malarhjólreiðum.“
Ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson bregður á leik rétt áður en hann kom fyrstur í mark í lengstu vegalengd Súlur Vertical hlaupsins sumarið 2022. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Skíðagöngukeppnin verður 25. janúar og byggir á Hermannsgöngunni, sem haldin hefur verið árlega í langan tíma, kennd við þann mikla íþróttafrömuð, Hermann Sigtryggsson.
Gangan fer fram í Kjarnaskógi og hægt er að velja um þrjár vegalengdir. Sú stysta, 4 km, telur þó ekki til þríleiksins. Lengsta vegalengdin, Bylur, er 24 km og hluti af Íslandsgöngu-mótaröðinni.
Hjólreiðakeppnin fer fram um hvítasunnuhelgina, sunnudaginn 8. júní. Þar verða einnig þrjár vegalengdir í boði þar sem hjólað verður úr Kjarnaskógi, upp á Vaðlaheiði og eftir skemmtilegum slóðum í Fnjóskadal, að sögn Birkis Baldvinssonar.
„Undanfarin ár höfum við átt frábært samstarf við Skíðafélagið sem hefur séð um framkvæmd krakkahlaups Súlur Vertical í Kjarnaskógi og komið að brautavörslu. Okkur langaði að efla það samstarf enn frekar. Skíðafélagið mun sjá um skíðagöngukeppnina og hjólreiðakeppnin er haldin í samvinnu við öfluga félaga í Hjólreiðafélagi Akureyrar,“ segir Birkir.
Allir viðburðirnir hefjast í útivistarparadísinni Kjarnaskógi, fyrir utan 100 kílómetra hlaupið þar sem hlaupið er frá Goðafossi, yfir fjöll og firnindi og endað í frábærri stemningu í miðbæ Akureyrar.
Að sjálfsögðu verður eins og áður hægt að taka þátt í einstökum viðburðum en þau sem klára allar þrjár greinarnar innan ársins verða heiðruð sérstaklega í miðbænum að hlaupi loknu, að sögn Birkis.
Upphaf Hermannsgöngu í Kjarnaskógi. Hermann Sigtryggsson er dökkklæddur hægra megin við skíðamennina.
Hann segir að markmiðið með þessu öllu saman sé fyrst og fremst að hvetja fólk til hreyfingar og útiveru og að nýta alla þá fjölbreyttu útivistarmöguleika sem svæðið býður upp á.
„Flestir ættu að geta fundið sér viðburð við hæfi. Þú þarft ekki að vera í ofurformi til að taka þátt. Það er gaman að setja sér markmið og taka þátt í skemmtilegum viðburðum,“ segir Birkir og bætir því við að stemningin sem hafi myndast í kringum Súlur Vertical sé engu lík. „Stemningin í brautinni og í markinu í miðbænum er ólýsanleg. Að fylgjast með öllu þessu fólki ná markmiðum sínum, hvort sem það var bara að komast á leiðarenda eða að setja brautarmet en ótrúlega gefandi.“
Opnað hefur verið fyrir skráningu í alla viðburði Súlur Vertical. Við skráningu fá keppendur sendan afsláttarpassa frá 66°Norður sem veitir 20% afslátt í verslunum þeirra til 3. ágúst 2025.
Þau sem skrá sig í alla þrjá viðburðina í einu fá 20% afslátt af skráningargjöldum.
Nánari upplýsingar á www.sulurvertical.is og skráning www.netskraning.is/sulurvertical