500 taka þátt í Súlur Vertical fjallahlaupinu
Fjallahlaupið Súlur Vertical fer fram á Akureyri um helgina og er metþátttaka að þessu sinni – 497 hlauparar eru skráðir til leiks, þar á meðal margir sterkustu utanvegahlauparar landsins.
Langflestir hlaupa á morgun en þeir sem fara nýjustu og lengstu leiðina – hvorki meira né minna en 100 kílómetra – leggja af stað í kvöld, rásmarkið er við Goðafoss og keppendur linna ekki látum fyrr en um hádegisbil á morgun. Reyndar verður ræst í tveimur hópum: Hægari hlauparar fara af stað kl. 20.00 í kvöld og þeir hraðari klukkan eitt eftir miðnætti.
Hátíðin hefst raunar á Krakkahlaupi sem fer fram í Kjarnaskógi kl. 16 í dag, föstudag, þar sem börn 12 ára og yngri spreyta sig í utanvegahlaupi og þar stefnir í metþátttöku.
Annars eru þessar vegalendir í boði:
- FÁLKINN – 19 KM
„Stígahlaup með 530 m hækkun. Skemmtileg leið sem flestir ráða við,“ segir á vef Súlur Vertical. - SÚLUR – 29 KM
„Fjallahlaup með 1410 m hækkun. Krefjandi hlaup en á flestra færi með góðum undirbúningi.“ - TRÖLLIÐ – 43 KM
„Fjallahlaup með 1870 metra hækkun þar sem hlaupið er upp á bæjarfjallið Súlur og þaðan eftir fjallshryggnum inn á Glerárdal. Krefjandi leið í stórbrotnu umhverfi.“
- GYÐJAN – 100 KM
„Fjallahlaup með 3580 m hækkun. Hlaupið hefst við Goðafoss og þaðan er hlaupið yfir Belgsárfjall og Vaðlaheiði til Akureyrar, upp á bæjarfjallið Súlur, inn á Glerárdal og að lokum niður í miðbæ Akureyrar.“
Allir keppendur koma í mark á sama stað, í göngugötunni í miðbæ Akureyrar, þeir fyrstu um hádegi. Miðbærinn iðaði af lífi við endamarkið í fyrra og búast má við að það sama verði upp á teningnum að þessu sinni. Fjöldi fólks er í bænum vegna fjölskylduhátíðarinnar Einnar með öllu, bæði heimamenn og gestir.
Þorbergur Ingi Jónsson og Rannveig Oddsdóttir eftir sigur í lengstu vegalengd hlaupsins á síðasta ári. Þau hlupu þá 55 km en nú er lengsta hlaupaleiðin 100 kílómetrar.
Forráðamenn Súlur Vertical hvetja bæjarbúa og gesti til að sýna hlaupurunum tillitssemi og gleði í umferðinni þegar þeir fara að tínast inn í bæinn. Nokkuð verður um lokanir og takmarkanir á umferð á meðan á hlaupinu stendur og má lesa nánar um hér.
Einnig er skorað á bæjarbúa að láta sjá sig við hlaupaleiðir og hvetja keppendur áfram og ekki síður fagna þeim þegar í mark verður komið.
Hægt verður að fylgjast með tímum og ferðum allra keppenda á vefnum timataka.net.