Hermann Stefánsson og Skíðalandsgangan
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 63
Skíðaganga kennd við íþróttafrömuðinn Hermann Sigtryggsson hefur verið árlegur viðburður á Akureyri í fjöldamörg ár. Félagasamtökin Súlur Vertical hafa nú tekið við framkvæmdinni og mótið fór í fyrsta skipti fram í dag í nafni þeirra, í Kjarnaskógi.
Í tilefni dagsins er kjörið að gamla íþróttamyndin þennan laugardag sé frá skíðagöngukeppni á Akureyri fyrir tæpum sjö áratugum, þar sem annar Hermann var í forsvari; Grenvíkingurinn Hermann Stefánsson, lengi íþróttakennari við Menntskólann á Akureyri, sem á þessum tíma var formaður Skíðasambands Íslands.
Myndin er tekin sunnudaginn 3. mars árið 1957, við upphaf fyrstu landsgöngunnar, svo var kölluð. Hún fór fram um allt land á vegum Skíðasambandsins og lauk í apríl. Ekki verður betur séð en Hermann Stefánsson gangi þarna sjálfur af stað, fyrir miðri mynd.
„Skíðalandsgangan var landskeppni, þar sem keppendur eru allir rólfærir Íslendingar, er á skíðum geta gengið 4 kílómetra. Virðuleg verðlaun fær það hérað eða kaupstaður, sem hæsta hlutfallstölu fær, og er þá eingöngu miðað við þátttöku en ekki flýti hvers og eins,“ sagði í Akureyrarblaðinu Degi vikunni fyrir keppnina.
Gengu í sólarátt
Til gamans skal hér vitnað í óborganlega umfjöllun Dags eftir gönguna. Þar segir meðal annars:
„Fánar blöktu við hún hjá íþróttahúsinu [við Laugargötu] og hópur manna beið þess að hefja gönguna. Lúðrasveitin gat ekki leikið, svo sem þó hafði verið ráðgert, vegna frostsins. En formaður Skíðasambands Íslands, Hermann Stefánsson, mælti nokkur hvatningarorð. Hin 4 km. leið var merkt með flöggum og lá í stórum hring í ofanverðum bænum og var endamarkið við íþróttahúsið. Keppendurnir lögðu svo af stað og gengu í sólarátt við síðasta skin vestansólarinnar. Hér var ekki um kappgöngu að ræða, heldur mikið fremur skemmtigöngu, þar sem ungir og aldnir nutu útivistar á hreinhvítu nýsnævinu, en lögðu um leið þegnlega hlutdeild til sigurs fyrir bæ sinn.“
Síðan segir í Degi:
„Eftir hina miklu þjóðflutninga á Íslandi frá sveit að sjó, lifir nú meirihluti landsmanna í þéttbýli. Sú hætta vofir yfir að 1000 ára aðlöðun landsins barna við móður náttúru sé innan stundar aðeins fölnað blað. Innistörfin krefjast ekki hinna daglegu samskipta við náttúru landsins og þeim tengslum er hætta búin er voru sköp þjóðarinnar og hinn mikli skóli gegnum aldirnar. En þetta samband má aldrei rofna og til þess eru skíðaferðir og hvers konar útilíf og íþróttir hinar nauðsynlegustu.“