Handboltadrengurinn sem varð formaður ÍBA
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – XXV
Geir Kristinn Aðalsteinsson lét af formennsku í Íþróttabandalagi Akureyrar á dögunum eftir áratug í embætti. Vegna tímamótanna er tilvalið að gamla íþróttamyndin þessa vikuna sé af þessum unga handboltastrák – sem er auðvitað Geir Kristinn. Þarna stekkur hann inn í vítateiginn í íþróttahúsi Glerárskóla, í 4. eða 5. aldursflokki Þórs, og ekki er ólíklegt að boltinn hafi sungið í netinu andartaki síðar.
Geir Kristinn var góður handboltmaður og átti ekki langt að sækja hæfileikana. Móðir hans, Anna Gréta Halldórsdóttir, var stórskytta í handboltaliði Þórs í den tid og valin í landslið, og faðir hans, Aðalsteinn Sigurgeirsson lék bæði handbolta með Þór og fótbolta með ÍBA og Þór. Aðalsteinn var Þórsliðinu sem lék í 1. deild í handbolta veturinn 1973 - 1974 sem fjallað var um hér.
Bræður Geirs Kristins, Sigurpáll Árni og Heiðar Þór, voru líka mjög góðir handboltamenn og svo skemmtilega vill til að allir bræðurnir þrír léku í vinstra horninu. Geir Kristinn, Sigurpáll Árni og Heiðar Þór hófu ferilinn í Þór – eins og fjölskyldan öll, og vert að nefna að faðir þeirra var formaður félagsins í mörg ár – en Geir og Sigurpáll léku einnig með KA um tíma og Heiðar Þór með Akureyri - handbolta, sameiginlegu liði Akureyrarfélaganna. Bræðurnir komu reyndar víðar við á handboltaferlinum.
Eins og sjá má prýðir merki Herradeildar JMJ búning unga handboltamannsins. Þar er enn ein tengingin; kaupmaður þar til áratuga er Ragnar Sverrisson, félagi Aðalsteins Sigurgeirssonar í Þórsliðinu sem áður var nefnt.