Fara í efni
Íþróttir

Gamla íþróttamyndin – bikarmeistarar ÍBA

Bikarmeistarar ÍBA 1969. Aftasta röð frá vinstri, Sævar Jónatansson, Valsteinn Jónsson, Eyjólfur Ágústsson, Skúli Ágústson og Gunnar Austfjörð. Miðröð frá vinstri, Númi Friðriksson, Þormóður Einarsson, Pétur Sigurðsson, Viðar Þorsteinsson og Gunnlaugur Björnsson. Fremsta röð frá vinstri, Kári Árnason, Samúel Jóhannsson, Magnús Jónatansson og Einar Helgason þjálfari.

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – V

Fimmta gamla íþróttamyndin birtist á Akureyri.net í dag, lesendum til skemmtunar og í þeirri von að fá frekari upplýsingar eða sögur af þessum köppum.

Akureyringar hafa einu sinni orðið bikarmeistarar karla í knattspyrnu. Það var árið 1969 sem Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA), sameiginlegt lið Þórs og KA, hampaði bikarnum eftir tvo úrslitaleiki við Íþróttabandalag Akraness (ÍA) við aðstæður sem þættu einkennilegar í dag. Úrslitaleikurinn fór fram á gamla, góða Melavellinum í  Reykjavík, malarvelli þar sem Þjóðarbókhlaðan stendur nú.

Fyrsta bikarkeppnin fór fram 1960, hófst ekki fyrr en að Íslandsmótinu loknu og var sá háttur hafður á í rúman áratug. 

Það var orðið jólalegt þegar bikarkeppninni lauk loks árið 1969. Jólaljós í Austurstræti prýddu baksíðu Morgunblaðsins þriðjudaginn 2.  desember, þegar fjallað var um fyrri úrslitaleik Akureyringa og Akurnesinga sem fram fór á sunnudeginum. Leiknum lauk með jafntefli, 1:1, og liðin þurftu því að mætast aftur. Þá unnu norðanmenn 3:2 – sunnudaginn 7. desember.

Hið besta jólaveður!

Hvorki fyrr né síðar hafa úrslit keppninnar ráðist jafn seint. Vert er að geta þess að sama dag og seinni úrslitaleikurinn fór fram var árleg samkoma á Austurvelli þar sem sendiherra Norðmanna afhenti borgarstjóranum í Reykjavík jólatréð frá Oslóarborg. „Létt snjókoma var þegar tréð var afhent og því hið besta jólaveður,“ sagði í dagblaðinu Tímanum!

Frammistaða Íþróttabandalags Akureyrar á Íslandsmótinu um sumarið var ekki til að hrópa húrra fyrir. Meiðsli lykilmanna settu strik í reikninginn og Akureyringarnir urðu neðstir í A-deildinni en vegna þess að fjölga átti um eitt lið árið eftir – úr sjö í átta – mætti liðið Breiðabliki í aukaleikjum og hafði betur.

Í fyrri úrslitaleiknum gerði Guðjón Guðmundsson mark ÍA úr vítaspyrnu seint í fyrri hálfleik en fljótlega eftir leikhléð jafnaði Valsteinn Jónsson eftir aukaspyrnu Magnúsar Jónatanssonar. 

Brjálað veður – leikmenn hlupu í skjól

Aðstæður voru afleitar þegar úrslitaleikirnir fóru fram, sérstaklega sá fyrri. „Aldrei hefur mótaleikur í knattspyrnu farið fram við aðrar eins aðstæður … Völlurinn var forarsvað, svo að aurinn flaut yfir rist, þegar stigið var niður. Rokið var 7-8 vindstig og gekk á haglhryðjum, svo miklum í síðari hálfeik, að dómarinn sá þann kost vænstan að gera hlé á leiknum og gefa leikmönnum kost á að komast í skjól,“ sagði Sigurdór Sigurdórsson blaðamaður í Þjóðviljanum eftir fyrri leikinn.

Tæplega stundarfjórðungur var eftir af leiknum þegar Guðmundur Haraldsson dómari ákvað að gera hlé vegna hagléls, og voru leikmenn og dómarar í skjóli í um það bil 10 mínútur. Var þá ekki hundi út sigandi, hvað þá berleggjuðum knattspyrnumönnum, sagði Alþýðublaðið. „Þetta var skelfilegt; það var kalsaveður, stíf norðanátt og eins og nálum væri stungið í fæturna á mönnum þegar haglélið skall á,“  sagði dómari leiksins, Guðmundur Haraldsson, í samtali við ofanritaðan við gerð bókarinnar Bikardraumar – Saga bikarkeppninnar í knattspyrnu í hálfa öld, sem kom út eftir að 50. keppnin fór fram árið 2009. „Þrátt fyrir kuldann voru allir á stuttbuxum, meira að segja dómaratríóið og ekkert vit í öðru en gera hlé á leiknum. Þegar élið hafði staðið í um það bil mínútu sagði ég mönnum að drífa sig inn í vallarhús og þá var ekki skokkað; menn tóku á sprett og einhverjir hafa eflaust hlaupið á mettíma!“ sagði Guðmundur.

Línuvörður í stígvélum

Rúmlega 2.000 áhorfendum er leikurinn án efa minniststæður, m.a. vegna haglélsins. Margir muna líka að annar línuvörðurinn, Eysteinn Guðmundsson, mætti í stígvélum til seinnihálfleiksins. Svo mikið var svaðið við hliðarlínuna að hann sá þann kost vænstan!

Útilokað var að framlengja fyrri úrslitaleikinn vegna myrkurs og nýr leikur því boðaður viku seinna. Þegar hann fór fram var milt veður, ákjósanlegt til knattspyrnuleiks, en völlurinn aftur á móti glerháll. Morgunblaðið og Þjóðviljinn voru ekki sammála um margt á sínum tíma, en voru á einu máli um að sigur Akureyringa í seinni úrslitaleiknum hefði verið sanngjarn.

„Akureyringar voru vel að sigri yfir Skagamönnum komnir. Lengst af höfðu þeir undirtökin í viðureigninni. En málið horfði þó oft illa við, því þrátt fyrir mun betra og meira spil, fundu Akureyringar ekki leiðina í mark Akraness, en eldsnöggar sóknaraðgerðir Skagamanna færðu liðinu forystu þegar eftir 10 mín. leik og öðru marki bættu Skagamenn við snemma í síðari hálfleik,“ sagði Atli Steinarsson í Morgunblaðinu.

Fyrra markið gerði Matthías Hallgrímsson, „brauzt einn í gegn af eigin rammleik og sparaði ekki kraftinn. Hið síðara skoraði Teitur Þórðarson. Náði hann að beina aðvífandi sendingu að markinu og inn fyrir línu fór skotið, þó laust væri, enda flughált í markinu.“ Teitur var 17 ára og þótti bráðefnilegur. Kjartan L. Pálsson segir í Tímanum að Matthías hafi hrint varnarmanni ÍBA frá sér og vippað knettinum yfir Samúel Jóhannsson markvörð. „Akureyringar voru hættulegri í fyrri hálfleik og tvívegis björguðu varnarmenn ÍA marki, í annað sinn föstum skallabolta frá Magnúsi  Jónatanssyni á línu,“ sagði Kjartan.

... á glerhálum svellglotta

Útlitið virtist dökkt hjá Akureyringum, en nokkrum mínútum eftir mark Teits „eygðu Akureyringar vonina. Magnús Jónatansson minnkaði þá bilið með fallegu, viðstöðulausu skoti,“ eins og það var orðað í Morgunblaðinu. Fjórum mínútum síðan jafnaði svo Eyjólfur Ágústsson eftir fallega sókn. Haraldur M. Sigurðsson íþróttakennari lýsti því svo í samtali við Akureyrarblað Dag að Kári Árnason hafi náð boltanum „og setti á fulla ferð í átt að marki Akurnesinga, með tvo fótfráa Skagamenn á hælunum, og á glerhálum svellglotta gaf hann boltann nú allt í einu aftur fyrir sig til Valsteins [Jónssonar], sem þegar sendi hann til Eyjólfs [Ágústssonar], er skallaði með ágætum í vinstra horn marksins. Þessi samleikur þriggja manna var alveg meistaralegur og svo hnitmiðaður, að hvergi skeikaði, þótt aðstæður væru erfiðar.“

Kári Árnason gerði sigurmark ÍBA snemma í framlengingu. Hann fékk sendingu inn fyrir vörnina frá Sævari Jónatanssyni, hljóp af sér varnarmenn og skaut í stöngina og inn. „Þetta mark kom vegna hálkunnar, þar sem varnarmenn ÍA runnu afturfyrir Kára þegar þeir fóru á móti,“ sagði Þjóðviljinn. „Eins og í upphafi segir var sigur Akureyringa fyllilega verðskuldaður og hann er þeim mikil uppreisn eftir allt mótlætið í sumar. Þeir voru fullir af sigurvilja og krafti í þessum leik og kunnu að leika miðað við aðstæður. Bestu menn liðsins í leiknum voru Magnús Jónatansson, Kári Árnason og Skúli Ágústsson og var Magnús að mínum dómi bezti maður vallarins.“

Kjartan L. Pálsson hreifst af leik fyrirliða ÍBA-liðsins, og sagði í Tímanum að ef Akureyringar ættu að þakka einhverjum einstökum leikmanni sigurinn, væri það Magnús fyrirliði: „Hann var áberandi bezti maður liðsins og vallarins, sívinnandi og ódrepandi í dugnaði sínum, leikmaður, sem hefði átt að fá tvo verðlaunapeninga fyrir sinn leik.“