Vín- og kóralrautt klæðir Höllu mjög vel
Eins og Akureyri.net greindi frá í gær var Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, stórglæsileg í sérhönnuðum ljósum kjól þegar hún var sett í embætti. Kjólinn hannaði Akureyringurinn Björg Ingadóttir en hún sá líka um hönnun á kjólnum sem Halla klæddist í gærkvöldi í veislu á Bessastöðum. Björg sagði í samtali við Akureyri.net í gær að fólk hefði alltaf miklar skoðanir á klæðnaði frægra og áberandi kvenna, yfirleitt mun meiri en á klæðnaði karlmanna, en ef nýr forseti hefði verið karlmaður hefði hann að öllum líkindum klæðst klassískum kjólfötum við tilefnið.
Halla Tómasdóttir er önnur konan til að gegna embætti forseta Íslands. Hér er hún með Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands 1980 - 1996, eftir athöfnina í Alþingishúsinu í gær. Mynd: forseti.is
Klúturinn á kjólnum minnti á framboð Höllu
Kjóllinn sem Björg hannaði á Höllu fyrir kvöldið á Bessastöðum var í sama stíl og ljósi kjóllinn sem Halla klæddist við innsetningarathöfnina. „Ég vildi að Halla væri í svipuðum stíl allan daginn þannig að ákveðið jafnvægi myndaðist á milli dags og kvölds. Vínrauður litur varð fyrir valinu á hinum kjólnum. Höllu klæðir mjög vel vínrautt og kóralrautt, sem er svolítið sérstök litasamsetning sem mér fannst gaman að blanda saman: vínrauði liturinn í ullarefninu og kóralrauði liturinn í miðseymi á kraga og ermalíningu - litasamsetningin gengur fullkomlega upp. Þar er einnig unnið með tengingu á milli hálsmáls og fremst á ermum en á sígildari hátt. Og þar sem forsetaorðan er ekki notuð um kvöldið var gaman að bæta við klút sem minnti á framboð Höllu og gerir pínu meiri partý stemningu,“ segir Björg þegar hún er beðin um að útskýra betur hugsunina á bak við kvöldkjólinn.
Ég vildi að Halla væri í svipuðum stíl allan daginn þannig að ákveðið jafnvægi myndast á milli dags og kvölds. Vínrauður litur varð fyrir valinu á hinum kjólnum. Höllu klæðir mjög vel vínrautt og kóralrautt, sem er svolítið sérstök litasamsetning sem mér fannst gaman að blanda saman
Halla Tómasdóttir og Akureyringurinn og hönnuðurinn Björg Ingadóttir, sem hannaði kjólana tvo sem nýkjörinn forseti klæddist í gær.
Aðspurð hvort framhald verði á því að hún hanni fatnað á nýja forsetann segir Björg að það væri gaman ef svo yrði en hún sé fyrst og fremst þakklát fyrir að Halla hafi treyst henni fyrir þessu verkefni. Björg er einn reyndasti fatahönnuður landsins og hefur rekið hönnunarfyrirtækið Spaksmannsspjarir í meira en 30 ár.