Fara í efni
Fréttir

Akureyringur hannaði kjól forseta Íslands

Halla Tómasdóttir forseti Íslands í Alþingihúsinu þar sem hún und­ir­ritaði dreng­skap­ar­heit að stjórnarskrá lýðveldisins. Skjáskot af RÚV

Halla Tómasdóttir var formlega sett í embætti forseta Íslands í dag. Hún er sjöundi forsetinn í 80 ára sögu lýðveldisins. Halla var hin glæsilegasta við innsetningarathöfnina en hún klæddist ljósum kjól sem Akureyringurinn og fatahönnuðurinn Björg Ingadóttir hannaði.

„Í byrjun júní hafði Halla Tómasdóttir samband við mig og óskaði eftir að ég myndi hanna kjól fyrir innsetningu sína til forseta Íslands. Hún vildi vera í íslenskri hönnun í sínum anda. Að sjálfsögðu tók ég þessari áskorun opnum örmum og þetta verkefni var bæði áhugavert og skemmtilegt, segir Björg við Akureyri.net og bætir við að almenningur hafi oft miklar skoðanir á því hverju áberandi konur klæðist. Þetta á sérstaklega við um konur í áhrifastöðum eða þær sem eru i sviðsljósinu, sem gerði þetta tiltekna verkefni bara enn meira spennandi.

Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Björn Skúlason eiginmaður hennar í Dómkirkjunni, þar sem fyrri hluti embættistökunnar fór fram í dag. Skjáskot af RÚV

Bjó til þrívíddar líkan af Höllu

Björg Ingadóttir er einn reyndasti fatahönnuður landsins en hún hefur rekið verslunina og hönnunarstúdíóið Spaksmannsspjarir síðan 1993. Undanfarin ár hefur hún lagt áherslu á nýsköpun og sjálfbærar aðferðir í fatahönnun og tileinkað sér stafrænar hönnunaraðferðir. Hún er frumkvöðull hér á landi í stafrænni fatahönnun og hefur verið að kenna fagið m.a. í háskólanum á Bifröst. Kjóll Höllu var allur hannaður og saumaður með þessari aðferð; sniðið var gert stafrænt, flíkin mátuð á „avatar“ af Höllu, þ.e.a.s. á þrívíddarlíkan af líkama hennar, og kjóllinn var saumaður með stafrænum fataefnum áður en hann var endanlega saumaður í raunverulegt efni. Þetta hentaði líka einstaklega vel því tíminn var knappur og Halla var mikið erlendis í júlí. Halla er framsýn kona með sterka sýn á nýsköpun, sjálfbærni og framþróun. Hún treysti mér því að sjálfsögðu til að nýta nýjar 3D aðferðir við framkvæmd verkefnisins. Við tókum líkamsmál af henni áður en hún fór erlendis og út frá þeim var gerður avatar. Ég gat því hannað og útfært margskonar útfærslur og mátað á avatarinn hennar Höllu, segir Björg.

Ég vildi hafa kjólinn einfaldan og tímalausan en leggja sérstaka áherslu á hálsmálið og að það myndi vinna vel með forsetakeðjunni.“ 

 

Björg Ingadóttir er einn af færustu fatahönnuðum landsins. Hún er fædd og uppalin á Akureyri en hefur rekið fyrirtækið Spaksmannsspjarir í Reykjavík í 31 ár. Mynd tekin af Facebooksíðu Spaksmannsspjara

Halla falleg í ljósu

Björg hannaði þó ekki aðeins innsetningarkjólinn sjálfan heldur einnig kvöldkjól sem Halla mun nota í veislu á Bessastöðum í kvöld. Ég lagði áherslu á að hanna flíkur sem hæfa styrkleikum Höllu og tilefninu. Ég vildi að Höllu liði vel í fötunum og að þau færu henni vel. Þetta er hennar stóri dagur og auðvitað vil ég að hún sé sem glæsilegust en á sama tíma vil ég að kjóllinn eldist fallega og henti tilefninu og þeirri umgjörð sem embættinu fylgir. Forsetakeðjan og orðan þurfa til dæmis að njóta sín á kjólnum. Ég vildi því hafa kjólinn einfaldan og tímalausan en leggja sérstaka áherslu á hálsmálið og að það myndi vinna vel með forsetakeðjunni. Síðan er tenging við formin í hálsmáli og framan á ermunum. Höllu fer vel að vera í ljósu og finnst mér það bæði hátíðlegt og glæsilegur litur á henni. Ég valdi að hafa bæði innsetningarkjólinn og kjólinn fyrir kvöldið tvískipta til að skapa möguleika á frekari nýtingu og samsetningum seinna meir,“ segir Björg Ingadóttir.

Halla Tómasdóttir og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, ganga frá Alþingi að Dómkirkjunni þar sem fyrri hluti embættistökunnar fór fram. Skjáskot af Vísi.

Flíkur í anda forsetans

Björg segir að hönnunarverkefnið hafi sameinað nýsköpun, tækni og handverk á einstakan hátt. Það var óviðjafnanleg upplifun að sjá stafrænt handverk og hefðbundið handverk vinna fullkomlega saman og ég er virkilega ánægð með útkomuna,segir Björg sem fékk klæðskerann Lilju Björgu Rúnarsdóttur til að sauma flíkurnar í efni. Mér finnst flíkurnar fagurfræðilega sterkar og fullkomlega í anda frú Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá vefsíðunni forseti.is en þar er að finna skemmtilega myndasyrpu frá deginum