Akureyrarvaka og forsetinn – MYNDIR
Opinber heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar hófst í gærmorgun og stendur yfir þar síðdegis í dag. Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid flugu norður með Icelandair snemma morguns, komu víða við í bænum og dagskránni lauk seint í gærkvöldi með heimsókn á tónleika söngkonunnar GDRN og píanóleikarans Magnis Jóhanni í Hofi.
Fjölmenni var samankomið í Lystigarðinum í gærkvöldi þar sem forsetinn setti árlega bæjarhátíð, Akureyrarvöku, og þar var síðan boðið upp á tónlistaratriði og dans.
Óhætt er að segja að bæjarbúar hafi tekið vel á móti forsetahjónunum og ekki síður veðurguðirnir; þeir buðu upp á eitt allra besta veður sumarsins – hitinn á Akureyri fór mest í 23,9 gráður og sólin skein skært allan daginn.
Akureyri.net fylgdist grannt með forsetahjónunum í gær. Hér má sjá nokkrar myndir og mun fleiri birtast síðar.
Forsetinn verður snemma á fótum í dag. Hann ætlar út að skokka og er öllum velkomið að hlaupa með honum. Guðni leggur af stað frá Hótel KEA klukkan 8.00
- Frétt Akureyri.net í gærmorgun: Sungið í sólinni og fáni dreginn að húni
Forsetahjónin ásamt Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra og Höllu Björk Reynisdóttur, lengst til hægri, við setningu Akureyrarvöku í Lystigarðinum í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Rökkurró í Lystigarðinum - Akureyrarvaka sett í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Forseti lýðveldisins brá á leik eftir að hafa vígt leikskólann Klappir. Stóðst ekki mátið þegar hann sá þessa flottu rennibraut milli hæða í byggingunni glæsilegu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Nemendur Naustaskóla ásamt forsetahjónunum. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.
Forsetahjónin sóttu sameiginlegan kynningarfund nokkurra fyrirtækja sem haldinn var í Slippnum; á hæð sem verið er að gera upp fyrir sjávarútvegsklasa. Reynir Bjarnar Eiríksson, framkvæmdastjóri Vélfags, segir hér frá fyrirtækinu. Til hægri standa stofnendur þess, Bjarmi Sigurgarðarsson og Ólöf Ýr Lárusdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Rökkurró í Lystigarðinum - Akureyrarvaka sett í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Tríó Kristjáns Edelstein lék á LYST í Lystigarðinum eftir setningu bæjarhátíðarinnar. Hér er hljómsveitarstjórinn í miklu stuði. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ekki beint frýnilegur, þessi – á Draugaslóð á Hamarkotstúni seint í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson