Fara í efni
Fréttir

Sungið í sólinni og fáni dreginn að húni

Forsetahjónin, Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, hlýða á söng leikskólabarnanna í morgun. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Opinber heimsókn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar og eiginkonu hans, Elizu Reid, til Akureyrar hófst í morgun. Fyrst var fundað með forráðamönnum bæjarins í Ráðhúsinu og þaðan gengu hjónin, bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar, formaður bæjarráðs og fleiri í gegnum miðbæinn og upp Listagilið þar sem börn úr elstu deildum leikskólanna Hólmasólar og Iðavallar biðu í veðurblíðunni.

Börnin sungu nokkur lög  við undirleik Ívars Helgasonar og Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, dró fána Akureyrarvöku að húni. Bæjarhátíðin góða hefst einmitt í dag og forsetinn mun setja hana í Lystigarðinum í kvöld.

Barnahópurinn söng meðal annars afmælissönginn en hún Akureyri á afmæli næsta þriðjudag – verður 161 árs. Að loknum fallegum söng og spjalli barnanna og hinna fullorðnu héldu gestirnir sína leið enda stíf dagskrá framundan í allan dag.

Veðrið leikur við bæjarbúa og gesti þeirra. Boðið er upp á heiðríkju í tilefni dagsins þannig að blessuð sólin skín og stafalogn var í morgun. Enda sagði forsetinn við börnin: Ef þið væru á Álftanesi sæuð þið fánann miklu betur. Sumir skildu grínið en sennilega ekki allir!

Barnahópurinn æfði nokkur lög með Ívari Helgasyni áður en forsetahjónin komu.

Forsetahjónin, Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson, mæta á staðinn í góða veðrinu.

Eliza Reid, Heimir Örn Árnason, Guðni Th. Jóhannesson og Ásthildur Sturludóttir.

„Ef sólin væri á bragðið eins og sleikjó ...“ Ívar Helgason og börnin bregða á leik.

Forsetinn tók auðvitað þátt í sprellinu!

Heimir Örn Árnason og Almar Alfreðsson, verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ, sáu um að flagga fána Akureyrarvöku.