Fara í efni
Fréttir

Riddarakross: Sigrún, Ómar, Stefán og Margrét

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, lengst til vinstri, ásamt 14 af 16 orðuhöfum dagsins. Ómar Einarsson er þriðji frá hægri, Margrét Tómasdóttir fjórða frá hægri, Stefán B. Sigurðsson fimmti frá hægri og Sigrún Steinarsdóttir fyrir miðri mynd í bleikri skyrtu. Mynd: Forsetaembættið

Forseti Íslands sæmdi 16 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, riddarakrossi, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. 

Fjögur þeirra sem heiðruð voru í dag tengjast Akureyri sterkum böndum: Sigrún Steinarsdóttir Ellertsen, umsjónarmaður Matargjafa Akureyri og nágrenni, Stefán B. Sigurðsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, Ómar Einarsson, fyrrverandi sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, og Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi skátahöfðingi. Margrét var fyrsti námsbrautarstjóri við hjúkrunarbraut Háskólans á Akureyri og einn fjögurra fastráðinna starfsmanna skólans við stofnun hans árið 1987.

Eftirtalin voru sæmdi riddarakrossi fálkaorðunnar í dag:

  • Dísella Lárusdóttir óperusöngkona, riddarakross fyrir framlag til sönglistar.
  • Eiríkur Jónsson yfirlæknir, riddarakross fyrir framlag til þvagfæraskurðlækninga og heilbrigðisþjónustu.
  • Fannar Jónasson bæjarstjóri, riddarakross fyrir þjónustu í þágu samfélagsins á tímum hamfara.
  • Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og sagnfræðingur, riddarakross fyrir rannsóknir, miðlun og varðveislu menningar tengda íslenskum þjóðbúningum.
  • Jóna Dóra Karlsdóttir, stofnandi og fyrrverandi formaður Nýrrar dögunar, riddarakross fyrir frumkvöðlastarf til stuðnings syrgjendum og fyrir að stuðla að opinni umræðu um sorg og sorgarviðbrögð.
  • Margrét Vilborg Bjarnadóttir, verkfræðingur og stofnandi PayAnalytics, riddarakross fyrir framlag til nýsköpunar á sviði hugbúnaðar í þágu jafnlaunastefnu.
  • Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi skátahöfðingi, riddarakross fyrir störf í þágu skátahreyfingarinnar.
  • Ómar Einarsson, fyrrverandi sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, riddarakross fyrir framlag og frumkvæði í íþrótta-, tómstunda- og velferðarmálum.
  • Rósa Björk Barkardóttir sameindalíffræðingur, riddarakross fyrir framlag til vísinda og krabbameinsrannsókna.
  • Sigrún Steinarsdóttir Ellertsen, umsjónarmaður Matargjafa, riddarakross fyrir framlag til mannúðarmála í heimabyggð.
  • Stefán Baldvin Sigurðsson, fyrrverandi háskólarektor, riddarakross fyrir störf í þágu menntunar, vísinda og félagsmála.
  • Svanur Ingvarsson, kennari og húsasmíðameistari, riddarakross fyrir framlag í þágu íþróttastarfs fatlaðra.
  • Þorvaldur Jónsson bóndi, riddarakross fyrir félags- og menningarstörf í héraði.
  • Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, riddarakross fyrir frumkvöðlastarf og nýsköpun á vettvangi sjávarútvegs.
  • Þórey S. Kemp Guðmundsdóttir íþróttakennari, riddarakross fyrir framlag til íþróttaiðkunar kvenna og heilsueflingar aldraðra.
  • Þórhallur Sigurðsson, leikari og leikstjóri, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar leiklistar og brautryðjendastarf í barnaleikhúsi.

Tveir orðuhafar voru staddir erlendis, þær Dísella Lárusdóttir og Margrét Vilborg Bjarnadóttir, og verða þær sæmdar orðunni við fyrsta tækifæri, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

ATHUGIÐ –

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var nefnt að þrír orðuhafanna tengust Akureyri sterkum böndum en þeir eru sannarlega fjórir. Höfundur fréttarinnar vissi það mætavel, gleymdi samt að nefna Ómar Einarsson sérstaklega og biðst hér með afsökunar á því.

Ómar, lengi starfsmaður Reykjavíkurborgar, er Akureyringur í húð og hár, „ólst upp í Holtagötunni og síðar Álfabyggð þar sem foreldrar hans reistu hús. Faðir hans var lengi verkstjóri hjá Eyþóri í Lindu,“ sagði lesandi sem sendi Akureyri.net línu.

Lesandinn sagði ennfremur: „Ómar var mjög virkur í félagsmálum unglinga á Akureyri á árununum í kring um 1970 þegar hann var nemandi í Gagnfræðaskólanum. Hann, ásamt fleirum, barðist ötullega fyrir því að unglingar á Akureyri fengju hús fyrir æskulýðsstarfsemi í bænum. Vissulega fékk Ómar fálkaorðuna fyrir störf sín hjá Reykjavíkurborg en Akureyringur er hann.“

Rétt skal vera rétt. Innilega til hamingju, Ómar, Sigrún, Stefán og Margrét – og öll hin!

Smellið hér til að sjá myndir af öllum orðuhöfum með forseta Íslands