Fara í efni
Fréttir

„Engum hollt að hafa áhyggjur“

Eyjafjörðurinn á sólríku sumarkvöldi. Starfsemi Norðurorku í hita- og vatnsveitumálum teygir sig út fjörðinn beggja megin með borholum á Hjalteyri og Ytri-Haga og Reykjaveitunni frá Fnjóskadal út til Grenivíkur. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson.

VATN – IV 

Akureyri.net hefur undanfarna daga fjallað um heita vatnið okkar og áskoranir sem Norðurorka stendur frammi fyrir, meðal annars vegna innstreymis sjávar og hugsanlega styttri líftíma lághitasvæðisins við Hjalteyri en gert var ráð fyrir í áætlunum.

Hvernig er þá staðan varðandi heita vatnið ef við horfum á málið frá sjónarhóli hins almenna notanda á Akureyri og í Eyjafirði. Er ástæða til þess að fólk hafi áhyggjur af stöðunni?

„Það er engum hollt að hafa áhyggjur, en það er kominn sá tímapunktur að við þurfum að huga að því hvernig við viljum nota hitaveituna,“ segir Hjalti Steinn sviðsstjóri framkvæmdasviðs hjá Norðurorku. Hann bendir á að nýting Íslendinga á hitaveitu hafi verið þannig í gegnum tíðina að við lítum á hana eins og sjóinn, það sé nóg til og ekkert vandamál. Öðrum finnist þetta galin notkun og þurfum við ekki að leita lengra en til hinna Norðurlandanna til að finna fólk með þá skoðun. „Fólki virðist stundum finnast eðlilegt að sturta niður tveimur tonnum af heitu vatni fyrir huggulega stemningu í heita pottinum og það kostar ekki nema 350 krónur,“ segir Hjalti Steinn.

Í upphafi var hlutverk hitaveitna að hita upp húsnæði en ekki að bræða snjó af mörg þúsund fermetrum af bílaplönum og ekki að gera okkur kleift að vera með heita potta, sundlaugar og baðstaði út um allt.

„Já, það var grunnurinn og það eru lífsgæðin sem við verðum eiginlega að einblína á,“ segir Hjalti Steinn. „Þegar kreppir að núna, er ástæða til að huga að því hvernig við nýtum þessa auðlind sem heita vatnið er. Það geta allir litið í eigin barm og nýtt hitaveituna með skynsamlegri hætti.“

Ný svæði verða dýrari

Eftir því sem tíminn líður og við fullnýtum einstök vinnslusvæði, þarf jafnóðum að leita nýrra svæða til að taka við. Eðli málsins samkvæmt þurfum við þá að leita lengra eftir nýjum svæðum, lagnirnar verða lengri, dælustöðvum fjölgar og vatnið kólnar meira á leiðinni.

„Það verður alltaf dýrara og dýrara að ná í meira vegna þess að við erum búin með bestu svæðin í kringum okkur og þá þarf að sækja vatnið lengra,“ segir Hörður Hafliði Tryggvason, fagstjóri hita- og vatnsveitu hjá Norðurorku. „Við höfum ekki endalausa möguleika. Lagnir og dælustöðvar verða dýrari eftir því sem fara þarf lengra frá þéttbýlinu og þá verður dýrara að koma vatninu á staðinn.“

Hver einstaklingur farinn að nota meira heitt vatn en áður

Hjalti Steinn bendir á að fram undan séu mjög miklar fjárfestingar hjá Norðurorku, þá sérstaklega þær sem snúa að hitaveitunni og aukinni orkuöflun. Hann segir að heitavatnsnotkun Akureyringa og nærsveitunga hafi um það bil tvöfaldast frá árinu 2002 og hefur Hjalteyrarsvæðið náð að standa undir þeirri aukningu. Íbúum á svæðinu hefur ekki fjölgað að sama skapi og því ljóst að hver einstaklingur er að nota meira heitt vatn en hann gerði áður. Þessi staðreynd er ekki bundin við Akureyri eða Eyjafjörð heldur hefur komið fram að aðrar hitaveitur á landinu finna einnig vel fyrir þessari miklu aukningu.