Fara í efni
Fréttir

Varað við mikilli svifryksmengun

Mynd tekin í Þórunnarstrætinu kl. 9:40 þegar tankbíll hafði nýlega farið þar um og úðað á götuna. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Varað var við mikilli svifryksmengun í morgun og má sjá á tölum úr mengunarmæli Umhverfisstofnunar við Strandgötu að upp úr kl. 7 í morgun rauk svifryksmengunin upp, en þegar þetta er skrifað er hún á niðurleið aftur. 

Í tilkynningu frá Akureyrarbæ voru íbúar hvattir til þess að draga úr akstri eða nota vistvæna samgöngumáta. Bent er á að aldraðir, börn og aðrir sem þola illa álag á öndunarfæri ættu jafnframt að forðast útivist í lengri tíma við slíkar aðstæður sem voru í morgun og fram undir hádegið, takmarka áreynslu í nágrenni fjölfarinna umferðargatna.  

Unnið var að því að rykbinda á götum bæjarins í morgun, tankbílar sem fóru um og bleyttu helstu umferðargötur, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Þar sem ekki er spáð úrkomu næstu daga er eina ráðið að rykbinda og þvo göturnar að því er fram kemur í tilkynningu bæjarins. 

Fylgjast má með mengunarmælingum á vef Umhverfisstofnunar. Smellið á myndirnar hér að neðan til að skoða mælingar. Eins og sjá má á myndunum ruku gildin upp í morgunsárið, náðu hámarki kl. 9 og hafa verið að lækka aftur síðan. 

Úr Þórunnarstrætinu kl. 9:40. Rákirnar sem sjá má á myndinni eru eftir tankbílinn sem þarna fór um í því skyni að rykbinda og halda aftur af svifryksmengun. Mynd: Haraldur Ingólfsson.