Fara í efni
Fréttir

Friðsæld er í boði í öðrum hverfum

Nonnahús, lengst til vinstri á myndinni, og Minjasafnið á Akureyri, eiga væntanlega stærstan þátt í aukinni umferð rútubifreiða um innbæinn. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Þórhallur Jónsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skipulagsráði, segir í bókun við umfjöllun ráðsins um umferð hópferðabíla í Innbæ Akureyrar að glórulaust sé að hefta umferð ferðamanna um Innbæinn og kjósi fólk að búa við meiri friðsæld og minni umferð séu hverfi í bænum sem klárlega uppfylli þau skilyrði. 

Á fundi skipulagsráðs fyrr í mánuðinum var lagt fram erindi Jóhanns Garðars Þorbjörnssonar um umferð hópferðabíla um Innbæinn. Skipulagsráð samþykkti að fela skipulagsfulltrúa að leita eftir upplýsingum um fjölda ferða hópferðabíla um Innbæinn yfir sumartímann og jafnframt að skoðað verði að hluti götunnar – væntanlega átt við Aðalstræti þó það komi ekki fram í bókuninni – verði gerður að einstefnu. 

Akureyri.net er kunnugt um að sumir íbúar í Innbænum séu orðnir langþreyttir á mikilli umferð rútubifreiða um þetta hverfi og hafa íbúar meðal annars spurt hvort ekki væri best að á góðviðrisdögum verði ferðamönnum hleypt út úr rútunum á bílastæði við Skautahöllina eða nyrst í Aðalstræti, í grennd við Hoepfners-bryggju, þannig að þeim verði þá gert að skoða Fjöruna, elsta hluta bæjarins, á tveimur jafnfljótum. 

Þórhallur Jónsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í skipulagsráði lagði fram bókun um þetta mál á fundi skipulagsráðs þar sem hann segir glórulaust að ætla að hefta umferð ferðamanna um þetta svæði og að umferð um elsta hluta Akureyrar hljóti að teljast hluti af afleiðingu markaðssetningar Akureyrarbæjar sem ferðamannabæjar og teljist því eðlileg.

Bókun Þórhalls er í heild eftirfarandi:  

Umferð um elsta hluta Akureyrar með ferðamenn hlýtur að teljast hluti af afleiðingu markaðssetningar Akureyrarbæjar sem ferðamannabæjar og teljist því eðlileg.

Kjósi fólk að búa við meiri friðsæld og minni umferð eru hverfi hér í bæ sem uppfylla klárlega þau skilyrði. Tel ég því glórulaust að fara að hefta umferð ferðamanna um innbæinn þó á rútum séu, það mætti hins vegar bæta umferðina um innbæinn með því að gera Aðalstræti að einstefnu (nema fyrir strætó) frá húsi nr. 13 til 21. Ég tel því að það sé bruðl á almannafé að fara í aðar aðgerðir að svo stöddu.