Norðurorka: 782ja milljóna hagnaður

Rekstur Norðurorkusamstæðunnar gekk vel á árinu 2024 að því er fram kemur í ársskýrslu fyrirtækisins, sem birt var í gær fyrir aðalfund og ársfund fyrirtækisins.
Eigendur Norðurorku eru sex sveitarfélög, Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit. Aðalfundurinn (eigendafundur) var haldinn fyrr um daginn og svo ársfundurinn síðdegis í gær þar sem áherslan var á fræðsluerindi um starfsemi fyrirtækisins ásamt því að fjórir starfsmenn sem hættu störfum á árinu voru heiðraðir.
Í ávarpi í ársskýrslunni fer Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, yfir helstu tölur úr rekstri samstæðunnar á liðnu ári. Þar segir meðal annars:
- Rekstrarhagnaður samstæðunnar var 782 milljónir króna eftir skatta.
- Fjárfestingar voru 2,1 milljarður króna og jukust um 38 milljónir frá fyrra ári.
- Líkt og fyrri ár var nokkuð um að verkefni flyttust milli ára og ný verkefni bættust við.
- Veltufé frá rekstri er góður mælikvarði á afkomu og þar með möguleika veitnanna á að fjármagna framkvæmdir með eigin fé. Veltufé frá rekstri var 1,8 milljarðar króna á árinu 2024 og lækkaði um níu milljónir frá fyrra ári.
- Miðað við fjárfestingar upp á ríflega 2,1 milljarð þá vantar 288 milljónir til þess að veltufé frá rekstri standi undir fjárfestingum. Það bil, og meira til, þarf að brúa með lánsfé.
Mörg viðamikil verkefni
Eyþór fer í ávarpi sínu yfir helstu verkefni samstæðunnar á liðnu ári, svo sem við jarðhitaleit og rannsóknir sem mikið hefur verið lagt í að undanförnu. Þá má einnig nefna nýjan samning milli Norðurorku og aflþynnuverksmiðju TDK við Krossanes um nýtingu glatvarma frá verksmiðjunni. Eyþór segir samstarfið við TDK mikilvægan þátt í öflun á heitu vatni og þar sé um að ræða mikla lyftistöng í rekstri hitaveitunnar.
Meðal annarra umfangsmikilla verkefna má nefna að markvisst hefur verið unnið að spennubreytingum í dreifikerfi rafmagns í þeim tilgangi að styrkja dreifikerfið enn frekar til að mæta áformum stjórnvalda um orkuskipti og til að taka við aukinni notkun, meðal annars hleðslu rafbíla. Aukin notkun á heitu vatni hefur einnig verið áskorun fyrir fyrirtækið hvað varðar rannsóknir, leit og fjárfestingar, en aukningin hefur verið langt umfram fólksfjölgun. Boranir munu hefjast í landi Ytri-Haga í sumar og stefnt að því að ný hola verði tekin í notkun 2026.
Framþungar fjárfestingar
Eyþór bendir meðal annars á í ávarpi sínu að eðli starfsemi veitufyrirtækja sé þannig að fjárfestingar séu ekki mjög sýnilegar þar sem veitukerfin séu að stærstum hluta grafin í jörðu. Fjárfestingar í lagnakerfum við uppbyggingu nýrra hverfa hlaupi yfirleitt á hundruðum milljóna, jafnvel milljörðum.
„Fjárfestingar veitukerfa eru mjög framþungar, þ.e. tekjur til að mæta þeim fjárfestingum koma á áratugum. Ef farið er af stað með lagnavinnu fyrir nýtt hverfi en tafir verða á frekari uppbyggingu þá frestast tekjustreymið að sama skapi,“ segir Eyþór meðal annars og nefnir einnig að efniskostnaður og annar framkvæmdakostnaður hafi hækkað verulega á undanförnum árum.
„Það er ljóst að fjárfestingarþörf verður áfram mikil á næstu árum. Áfram erum við að glíma við þá staðreynd að veltufé frá rekstri stendur ekki undir fjárfestingum og því þarf Norðurorka að brúa bilið með lánsfé. En við sjáum batamerki í rekstrinum og staðan til lengri tíma litið er jákvæð. Höfum það í huga að Norðurorka er öflugt fyrirtæki sem stendur styrkum fótum með sterka eiginfjárstöðu. Það er engin ástæða til að örvænta þrátt fyrir krefjandi úrlausnarefni sem við okkur blasir, það að snúa þróuninni við svo tekjur veitnanna standi undir fjárfestingum.“