Niðurrif stýrishúss í fjöru í leyfisleysi

Hringrás ehf. fór ekki eftir starfsleyfisskilyrðum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra (HNE) við niðurrif Ölvers ÞH, að mati Leifs Þorkelssonar, heilbrigðisfulltrúa á mengunarsviði HNE.
Þetta kemur fram í svari Leifs við fyrirspurn frá akureyri.net eftir ábendingu þess efnis að verið væri að rífa stýrishúsið af bátnum í flæðarmáli við Krossanes. Leifur hafði samband við fyrirtækið um hádegisbil í dag eftir að hafa frétt af málinu og fór fram á að báturinn yrði fluttur á starfssvæði Hringrásar í Ægisnesi 1 og niðurrifi hans lokið þar.
Ekki merki um olíuleka við fyrstu skoðun
Samkvæmt starfsleyfi hafði Hringrás heimild til að rífa af bátnum stýrishúsið og annan búnað ofan þilfars við bryggju í Krossanesi til að auðvelda flutning skrokksins á athafnasvæði fyrirtækisins við Ægisnes.
Ákvæði starfsleyfisins kveða meðal annars á um að niðurrif bátsins skuli fara fram í starfsstöð starfsleyfishafa (Hringrásar ehf.) að Ægisnesi 1 á Akureyri. Þar segir þó einnig: „Heimilt er fjarlægja stýrishús og annan búnað ofan þilfars við bryggju í Krossanesi áður (en) báturinn verður fluttur í Ægisnes. Við vinnu í höfn þarf að tryggja að olía og önnur mengandi efni berist ekki út í umhverfið.“
Ekki sáust ummerki um olíumengun á staðnum að sögn heilbrigðisfulltrúa þegar svæðið var kannað í dag, en það verður skoðað betur eftir helgina. Mynd: Þorgeir Baldursson
Leifur fór á staðinn þar sem unnið var að niðurrifinu og kveðst ekki hafa séð nein ummerki um olíuleka á svæðinu við fyrstu skoðun, en segir að svæðið verði kannað betur eftir helgina.
Fyrrum netabátur – farþegaskip í skipaskrá
Ölver ÞH er (var) farþegaskip með skráningarnúmerið 2101 samkvæmt skipaskrá Samgöngustofu, 77 brúttótonna bátur og 17,28 metrar að lengd, smíðaður af Skipabrautinni h/f í Njarðvík 1990, í eigu Vaðkots ehf. Báturinn virðist þó hafa verið smíðaður sem netabátur samkvæmt eldri skráningum í skipaskrá.
Reyndar er misræmi í útgefnu starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra til Hringrásar ehf. vegna niðurrifs bátsins því í leyfinu er nafnið „Ölver ÍS“, en undir sama skipanúmeri, 2101, í skipaskrá heitir báturinn „Ölver ÞH“. Báturinn hefur reyndar bæði borið einkennisstafina „ÍS“ og „GK“ á einhverjum tímabilum í sögu hans sem netabáts.
Starfsleyfið var gefið út 30. janúar 2025, en þar virðist svo einnig vera villa því tímabil starfsleyfisins er frá 30. janúar 2026 til 30. janúar 2026.
Krossanes í kvöld – Búið er að færa skipið spottakorn norðar, úr flæðarmálinu og nær bryggjunni í Krossanesi.