Fara í efni
Tré vikunnar

Fágætur heggur: Næfurheggur

TRÉ VIKUNNAR - LXXV

Ein af þeim ættkvíslum trjáa sem eru ræktaðar á Íslandi kallast Prunus L. á latínu en er kölluð kirsuberjaættkvísl á íslensku. Í pistli vikunnar fjöllum við um eina tegund af þessari ættkvísl sem enn er fágæt á landinu en mætti að ósekju sjást mun víðar. Þetta er hinn snotri næfurheggur eða Prunus maackii Rupr.

 

Næfurheggur í Kjarnaskógi. Er þetta sá eini í Eyjafirði? Mynd: Sig.A.

Nánustu ættingjar
 

Þessi ættkvísl, Prunus, hefur lengi verið í ræktun, bæði erlendis og hér á landi. Meðal frægra ættingja eru kirsuber sem ættkvíslin er kennd við á íslensku. Til eru bæði sætkirsuber, P. avium og súrkirsuber, P. cerasus. Svo má nefna ýmiss tré sem bera ljúffenga ávexti en þrífast varla á Íslandi nema í gróðurhúsum. Þetta eru tegundir eins og plóma, P. domestica, möndlutré, P. dulcis, apríkósa, P. armeniaca og ferskja, P. persica. Hér á landi eru tré af þessari ættkvísl gjarnan ræktuð til skrauts. Mest ber á hegg, P. padus og rauðblaða yrki af honum sem kallast blóðheggur. Einnig hafa virginíuheggur, P. virginiana og skrautkirsi, sem fólk er ekki sammála um hvort heiti P. nipponica eða P. kurilensis, þrifist með ágætum á landinu. Um þessi tré höfum við áður fjallað og má sjá krækjur á þá pistla undir undirstrikuðu orðunum.

Hin síðari ár hafa fleiri tegundir verið reyndar eins og hinn sígræni og lágvaxni lárheggur, P. laurocerasus. Kemur á óvart hversu vel hann þrífst hér á landi.

Við þessa upptalningu viljum við nú bæta einni heggtegund í viðbót sem heitir næfurheggur eða Prunus maackii Rupr. Við vitum bara um eina núlifandi plöntu á Akureyri af þessari tegund. Hún er í Kjarnaskógi og líður ljómandi vel í skóginum. Tegundin var lengi til í Lystigarðinum (sjá hér neðar) og vel má vera að hún finnist í görðum í bænum þótt við vitum ekki af því.

 

Næfurheggur vex ljómandi vel í konungdæminu Svíþjóð. Þessi er norður í Umeå. Mynd: Helgi Þórsson. 

Uppruni
 

Næfurheggur vex villtur í Kóreu og í Mansjúríu í norðaustur Kína. Þar vex hann beggja vegna við stórfljótið Amur. Stundum er tegundin kennd við fljótið á erlendum tungumálum. Þannig heitir tréð Amur-Traubenkirsche á þýsku og er stundum nefnt Amur cherry á ensku. Aðrir kenna tegundina við Mansjúríu í heild. Þannig þekkist franska heitið cerisier de Mandchourie og enska heitið Manchurian cherry ef marka má íðorðabanka Árnastofnunar.

Landamæri Kína og Rússlands eru að hluta til við Amurfljót. Fljótið rennur einnig innan landamæra suðaustur hluta hins stóra Rússlands á landsvæði sem kallast Amurfylki eftir fljótinu. Eins og vænta má vex tegundin þar líka. Þar var henni fyrst lýst af grasafræðingi eins og fjallað er um hér neðar. Næfurheggur er ræktaður í norðurhluta Evrópu og Norður-Ameríku sem skrautrunni eða skrauttré og getur vel vaxið á Íslandi eins og dæmin sanna.

 

Heimkynni næfurheggs eru við fljótið Amur sem merkt er á þetta kort sem fengið er frá vefsíðu alfræðibókarinnar Britannica.

Vist
 

Þar sem næfurheggur er enn fremur sjaldgæfur á Íslandi er ekki úr vegi að velta því fyrir sér í hvers konar umhverfi hann vex í heimkynnum sínum. Þar hjálpar Britannica okkur. Í netútgáfu alfræðiorðabókarinnar má lesa um Amurfljót og umhverfi þess. Eins og áður segir vex tegundin á því svæði. Amur á upptök sín í háfjöllum og rennur langa leið til sjávar við Okotskhaf. Því er umhverfi fljótsins fjölbreytilegt. Fljótið rennur milli 45° og 55° norðlægrar breiddar. Það er dálítið sunnar en Ísland en ljóslotan hér á landi virðist ekki trufla næfurhegginn. Monsúnvindar blása um svæðið og færa úrkomu inn yfir ströndina en veturnir eru þurrir og kaldir. Ekki er óalgengt að frost fari niður fyrir -20 til -30°C meðan meðalhiti sumarsins er gjarnan um 18 til 22°C. Þetta merkir að vetrarkuldinn á Íslandi er ekkert til að hafa áhyggjur af fyrir næfurhegg en sumarhitinn er í það lægsta hér á landi. Það lítur samt ekki út fyrir að svöl, íslensk sumur séu vandamál miðað við útlit þeirra planta sem hér vaxa. Þegar þetta er haft í huga getur verið heppilegt að planta trjánum á sólríka, hlýja staði.

Frostlaust tímabil á heimaslóðum heggsins er að jafnaði frá því að vera um 90 til 130 dagar eftir því hvar borið er niður. Það passar ágætlega fyrir okkar aðstæður.

Amurfljót rennur um fjölbreytt svæði og úrkomu er þar mjög misskipt. Næst hafi er um 600-900 mm úrkoma á ári en nær upptökunum aðeins 300-400 mm. Mest er úrkoman á sumrin. Vatnasvæði árinnar er mjög stórt og flóð eru algeng frá tímabilinu frá maí til október. Þessar aðstæður geta passað prýðilega við það sem við höfum upp á að bjóða. Stærstur hluti Amursvæðisins tilheyrir barrskógabeltinu. Lerki er algengasta tegundin á stórum svæðum en einnig vaxa þarna furur, greni og þinur þar sem aðstæður henta. Þessar ættkvíslir trjáa eru allar ræktaðar hér á landi. Á láglendi við Amurfljótið má finna meira af lauftrjám, meðal annars eikartegund, Quercus mongolica, og korktré, Phellodendron amurense, innan um barrtrén. Þessi lýsing, sem byggir á lýsingum í Britannicu, fyllir okkur bjartsýni með að tréð eigi vel heima á Íslandi. Sérstaklega ef kvæmin koma úr fjalllendi.

Amurfljót rennur um mjög fjölbreytt landslag enda tíunda lengsta fljót í heimi og það þriðja lengsta í Kína. Fyrri myndin fengin héðan en sú seinni héðan.
Ræktun
 

Best kann næfurheggur við sig í góðri birtu en hann þolir alveg að standa í hálfskugga. Eins og hjá mörgum ættingjum blómstrar tréð minna ef sól er af skornum skammti. Blómin eru til mikillar prýði, hvít að lit og lík blómum á venjulegum hegg. Hér á landi má búast við að tréð verði um 4-10 metrar á hæð. Erlendis hafa ræktuð tré náð allt að 17 metra hæð en vanalega eru þau töluvert lægri. Annars má segja að næfurheggur geri svipaðar kröfur og venjulegur heggur. Hann vill sæmilega rakan en vel framræstan jarðveg og lætur ekki hörð vetrarfrost fara í taugarnar á sér. Ef til vill geta umhleypingar á vetrum verið tegundinni til vandræða. Í erlendum heimildum er varað við því að gróðursetja næfurhegg þar sem of hlýtt er en hér á landi þurfum við varla að hafa áhyggjur af því.

Þrjár myndir af næfurhegg í Meltungu í Kópavogi. Myndir: Sig.A.
Börkurinn 
 

Meginástæðan fyrir ræktun næfurheggs er börkurinn á stofninum. Framan af ævinni er hann bronsgulur og gljáandi svo hann minnir á raf. Sum ræktuð yrki í útlöndum eru sérstaklega valin vegna litar á berki. Má þar nefna hollenska yrkið 'Amber Beauty' sem er töluvert ræktað í útlöndum. Ef það tíðkaðist að nefna erlend yrki upp á íslensku héti þetta yrki 'Raffegurð' en hefðin mælir gegn því. Litið er á yrkisheiti sem sérnöfn sem óþarfi er að þýða. Á eldri trjám verður börkurinn grábrúnn en ungar greinar eru dúnhærðar

Það sem einkennir börkinn á þessum trjám er að hann hefur mjóar gagnsæjar og þunnar næfrar (sjá nánar í næsta kafla) og dregur tegundin af því nafn sitt á mörgum tungumálum, þar á meðal á íslensku. Samkvæmt orðabankanum nota Svíar orðið näverhägg og sjálfsagt nota fleiri þjóðir eitthvað svipað.

Næfur og næfrar 

Á íslensku kallast tréð næfurheggur. Því er rétt að skoða fyrri lið orðsins aðeins nánar áður en við höldum áfram að skoða tegundina. Orðið er ekki mjög algengt í daglegu tali nema í samsetningunni „næfurþunnt“. Ysta lagið á berki trjáa á það til að flysjast af í þynnum eða flögum sem stundum rúllast upp. Það eru þessar þynnur sem kallast næfrar í fleirtölu en næfur í eintölu. Næfurþunnt merkir því „þunnt eins og næfur“. Í íslenskri náttúru er þetta mest áberandi hjá birki en margar aðrar tegundir mynda næfrar. Má nefna að hinn vinsæli blátoppur, Lonicera caerulea, myndar áberandi næfrar. Áður fyrr voru næfrar nýttar með ýmsum hætti. Þær voru meðal annars nýttar til uppkveikju, einnig sem einangrun í húsum og í sumum tilfellum til skógerðar. Í fornum sögum er talað um birkibeina sem hóp manna í Noregi. Nafnið er dregið af skófatnaði þeirra sem búinn var til úr birkiberki, þá væntanlega næfrunum. Það má heita merkilegt að þetta er eitt þeirra orða sem til er í fleiri en einu kyni. Árnastofnun gefur upp bæði karlkyn og kvenkyn og fer þá beygingin eftir því hvaða kyn er valið. Því fer þó fjærri að þetta sé einsdæmi. Má nefna sem dæmi að flest notum við orðið foreldri í hvorugkyni í eintölu en karlkyni í fleirtölu. Við segjum það foreldrið (hvk.) en þeir foreldrarnir (kk.). En nú erum við komin út fyrir efnið.

Næfur á mismunandi tegundum. Fyrst er það næfurhlynur, Acer griseum, í miðið er snæbjörk, Betula utilis en síðasta myndin sýnir næfurhegg. Á þessum myndum eru næfrarnar mest áberandi hjá trénu sem ekki er kennt við næfur. Myndir: Sig.A.
Fræðiheitið
 

Á latínu er næfurheggur kenndur við náttúrufræðing að nafni Richard Karlovich Maack (1825-1886) ef marka má Wikipediu. Hann uppgötvaði tegundina og var fyrstur grasafræðinga til að segja frá henni árið 1857 er hann rannsakaði Amurdalinn en eftir honum rennur áðurnefnt Amurfljót. Hann fann fleiri tegundir sem í dag eru kenndar við hann og finnast þær flestar við fljótið Amur. Almennt er Maack talinn rússneskur, en hann var af þýskum ættum og ólst upp í Eistlandi sem þá tilheyrði keisaraveldi Rússlands. Flestar hans rannsóknir fóru fram austast í Asíu og í Síberíu og hann starfaði sem kennari í Irkutsk í Síberíu. Herra Maack var víðförull maður eins og sjá má. Sá sem gaf tegundinni þetta nafn var grasafræðingurinn Franz Josef Ruprecht (1814 – 1870) sem lengst af starfaði innan rússneska keisaradæmisins en fæddist í Austurríki. Honum til heiðurs stendur Rupr. á eftir latínuheitinu í inngangskaflanum. Ef farið er eftir alþjóðlegum grasafræðireglum á það alltaf að vera þannig þegar fræðiheitið er fyrst birt í grein eins og þessari. Við játum fúslega að við gleymum því oft.

Fyrsta myndin er af Richard Karlovich Maack sem kynnti tegundina fyrir Evrópubúum. Önnur er af Franz Josef Ruprecht sem gaf tegundinni nafn. Báðar myndirnar eru fengnar af Wikipediusíðum sem tileinkaðar eru þeim. Þriðja myndin er af Amurfljóti. Á bökkum þess eru náttúruleg heimkynni næfurheggs. Mynd: Alexander Liskin.
Vaxtarlag
 

Ef næfurheggur hefur nægilegt pláss verður hann krónumikill. Það má rækta hann hvort heldur sem er sem margstofna, stórvaxinn runna eða sem einstofna tré. Sennilega er honum eðlilegra að vaxa sem stór runni en stofnarnir verða meira áberandi á einstofna trjám. Vanalega vaxa nokkrar sverar greinar út frá stofni sem allar sveigjast út og upp á við.

 

Næfurheggur að hausti í Lystigarðinum. Því miður drapst þessi planta og er tegundina ekki lengur að finna í garðinum. Myndin fengin af heimasíðu Lystigarðsins en hana tók Björgvin Steindórsson.

Lauf 
 

Laufin eru aflöng um 4-10 cm löng en ekki nema 2,5 til 5 cm breið. Grunnur þeirra er bogadreginn og þau vaxa á 1-1,5 cm stilk. Efra borðið er dökkgrænt en neðra borðið ljósara og dálítið hært, einkum eru það æðarnar sem eru hærðar. Allt ætti þetta að hjálpa til við að greina tegundina ef þið sjáið hana á förnum vegi. Laufin fá fallega, gula haustliti.

 

Lauf að fá haustliti. Myndin fengin af heimasíðu Lystigarðsins en hana tók Björgvin Steindórsson.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn
 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Um mórber og óvænt heimsmet

Sigurður Arnarson skrifar
08. janúar 2025 | kl. 09:30

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00

Jólatré við JMJ og Joe's

Sigurður Arnarson skrifar
04. desember 2024 | kl. 10:30