Fara í efni
Tré vikunnar

Ættkvísl þalla

TRÉ VIKUNNAR - XLIX

Einu sinni, fyrir langa löngu, ákvað skapari allra hluta að verðlauna sígrænu trén í skóginum í Bresku Kólumbíu með því að gefa þeim stóra og fallega köngla sem gætu skreytt þau. Marþallirnar, sem þarna vaxa, töldu sig vera bestu og glæsilegustu trén og ættu því rétt á að fá stærstu og flottustu könglana. Þær vildu því troða sér fremst í röðina til að velja heppilega köngla fyrir sig. Skaparinn mikli sagði að það væri frekja að haga sér svona og samræmdist hvorki góðum siðum né þeim reglum sem hann hafi af visku sinni sett öllum trjám. Til að refsa þeim setti hann þær aftast í röðina. Þegar loks kom að þeim voru eingöngu litlir könglar eftir. Þess vegna bera þallir minni köngla en önnur barrtré á þessum slóðum. Ekki nóg með það. Aumingja þallirnar skömmuðust sín svo mikið að enn þann dag í dag drúpa þær höfði eins og sjá má á toppsprotunum. Skömm þeirra varir að eilífu.

Þessi saga er frá þjóð sem kallast Squamish og er frumbyggjaþjóð í Bresku Kólumbíu. Nánar má lesa um sagnaarf þjóðarinnar hér.

 

Þessi fjallaþöll, í garði við Markarflöt 15 í Garðabæ, er mikið augnayndi. Mynd: Sigurður Þórðarson. 

Í þessum pistli beinum við sjónum okkar að þessari ættkvísl trjáa sem ættuð eru frá Norður-Ameríku og Austur-Asíu. Að minnsta kosti tvær tegundir ættkvíslarinnar þrífast ágætlega á Íslandi og hafa prýtt hér garða og skóga um langt skeið. Sá kostur fylgir þessari auðmýkt hinna skömmustulegu þalla að toppar þeirra brotna mun síður en toppar annarra barrtrjáa í stórviðrum og snjóþyngslum. Í pistlinum segjum við frá þessum trjám. Við lýsum þeim, segjum frá tegundum innan ættkvíslarinnar, og ýmsu er tengist þessum tegundum. Við endum svo á annarri sögu frá frumbyggjum Norður-Ameríku.

 

Þallir eru auðþekktar frá ættingjum sínum á toppsprotanum. Myndin fengin héðan. 

Nafnið

Á latínu kallast þessi ættkvísl Tsuga. Nafnið er úr japönsku og samkvæmt sumum heimildum er það sett saman úr orðunum tsu og ga sem geta merkt tré og móðir. Það er reyndar furðu algengt að kalla tré „móðurtré“ í heiminum. Mismunandi þjóðir nota heitið yfir mismunandi tré en vegna skorts á kunnáttu í austurlandamálum getum við ekki staðfest þessa merkingu. Því spurðum við þýðingarvél frá Google en hún er þessari merkingu algerlega ósammála.

Þallir eru auðþekktar á toppsprotanum. Ekki er auðvelt að sjá hann á stórum trjám í útlöndum. Hér á landi er það ekki enn orðið vandamál. Myndirnar eru fengnar úr þessum hlaðvarpsþætti og eru af marþöllum í regnskógum í norð-vesturhluta Bandaríkjanna. 

Lýsing

Almennt má segja um allar tegundir þalla að þær eru oftast einstofna, beinvaxin tré með keilulaga krónu og slútandi toppsprota. Greinarnar slúta einnig, en aðeins í endann.

Þallir eru af þallarætt (Pinaceae). Öll ættin á ákveðin einkenni sameiginleg og má lesa um þau hér. Að auki hefur hver ættkvísl ákveðin einkenni. Til að greina í sundur hinar ólíku ættkvíslir þallarættarinnar getur verið gagnlegt að skoða hvernig nálarnar eru fastar við greinarnar. Við höfum áður sagt frá því að furur hafa 2,3 eða 5 nálar í knippum á meðan hver nál á greni vex stök á einskonar vörtu sem verður eftir þegar nálarnar falla af. Því verða greinarnar dálítið hrjúfar viðkomu. Þinur er líkur greni en hefur ekki þessar vörtur og greinarnar verða alveg sléttar þegar nálarnar falla. Nálarnar á þöllum eru fastar við greinarnar á litlum, grönnum stilk eða þykkum þræði, ef svo má segja. Nálarnar sjálfar eru flatar og minna á margar aðrar nálar ættarinnar. Er þær falla af minna sprotarnir á greni, enda er talið að þallirnar séu skyldastar greni af öllum ættkvíslum ættarinnar.

 

Eitt af einkennum þalla er hvernig nálarnar vaxa úr sprotunum. Þessi mynd sýnir það ágætlega. Í hvítu rákunum eru loftaugu. Um hlutverkt þeirra má lesa hér. Lögun og fjöldi ráka getur hjálpað til við að greina í sundur tegundir. Myndin fengin úr þessum hlaðvarpsþætti.

Rétt er að taka það fram að af barrnálum þalla er sérstök lykt en erfitt er að lýsa henni á prenti. Sumir segja að hún minni á lykt af eitraðri plöntu sem kallast óðjurt eða Conium maculatum. Á ensku kallast sú jurt Poison Hemlock. Á ensku hafa þallir verið kallaðar Hemlock og má vera að það tengist lyktinni. Aðrir, sem lyktað hafa af bæði þöllum og óðjurt, draga það mjög í efa. Við þurfum samt ekki að hafa áhyggjur af þessu vandamáli því á íslensku kallast tegundirnar þallir.

Önnur einkenni eru meira áberandi en þessar nálar. Það eru þau einkenni sem sagan, fremst í pistlinum, er ætlað að útskýra. Könglarnir eru áberandi minni en hjá öðrum sígrænum ættkvíslum ættarinnar. Svo eru það hinir skömmustulegu toppar sem slúta alltaf. Þegar þeir fara að tréna á haustin dregur mjög úr skömminni og þá rísa þær aðeins. Þegar nýjir sprotar birtast á vori komanda hafa gömlu sprotarnir reist sig töluvert.

 

Könglar á helstu trjám sem finna má á heimaslóðum Squamish fólksins. Frá vinstri: Sitkagreni, marþöll og degli. Myndin fengin af heimasíðu sem tengist þessum hlaðvarpsþætti. 

Greinar og toppur

Bæði greinar og þó enn frekar topparnir eru óvenju sveigjanlegar á þöllum. Þeir láta auðveldlega eftir og svigna og bogna ef reynir á og í stað þess að sperrast upp í loftið þá sveigjast þeir auðmjúkir niður á við. Því verða þeir síður fyrir skaða af völdum vinda, snjóþyngsla eða fugla sem gjarnan setjast á hæsta punkt. Ef þallirnar eru ekki orðnar þeim mun stærri er þægilegast að þekkja þær frá öðrum ættkvíslum ættarinnar á toppsprotunum. Þetta er ekki eins áberandi á stórum, gömlum þöllum í útlöndum því þá er toppurinn svo hátt uppi að við sjáum hann ekki. Þá dugar að skoða nálarnar. Þessir toppar gerir það að verkum að það þekkist varla í heiminum að nota tréð sem jólatré. Hver vill jólatré sem ekki stendur undir almennilegum toppi?

 

Fjallaþöll í Hallormsstað. Myndin tekin í júní 2023 og á henni sjást könglar frá árinu áður. Eins árs könglar eru brúnir á litinn. Mynd: Helgi Þórsson. 

Uppvöxtur litla trés

Eitt af því sem allar þallir eiga sameiginlegt er hversu skuggþolnar þær eru. Villtar þallir vaxa tíðum upp í þéttum barrskógum þar sem litla birtu er að fá og það hentar þeim prýðilega. Gott er að hafa þetta í huga þegar þöllum er plantað. Það má vel planta þeim á skuggsæla staði í görðum eða í þéttum skógum þar sem fátt annað vex. Þar vaxa þær hægt og rólega en uppvöxtur lítilla trjáa af ættkvísl þalla er oftast öruggur í þéttum skógum, enda er þar mjög gott skjól. Sá galli getur fylgt slíkri staðsetningu að í skugganum er svalara en í sólinni. Því getur verið heppilegra á okkar ísakalda landi að planta þeim frekar í hálfskugga en í algeran skugga. Skjólið er lykilatriði fyrir ungar plöntur.

 

Norrænir skógfræðingar í koldimmum marþallarskógi í trjásafninu í Skorradal sumarið 2018. Þetta er einhver myrkasti trjálundur sem eigandi myndarinnar, Helgi Þórsson, hefur komið í. 

Þetta atriði skiptir þallirnar miklu máli. Flestar þeirra eru fyrst og fremst undirgróður í öðrum skógum framan af ævi. Ef hvorki eldur né járn fella skógana þá munu þallirnar að lokum skyggja nánast allar aðrar trjáplöntur út. Þegar stærri trén í skógunum falla úr elli eða sjúkdómum taka þallirnar við. Sums staðar, einkum nálægt vesturströnd Norður-Ameríku, má því finna forna skóga þar sem marþöll er ríkjandi tegund og jafnvel nær einráð á stórum svæðum. Önnur tré, svo sem sitkagreni og degli, verða þarna mun stærri en þallirnar en keppa ekki við þær í tíma nema eitthvað utan að komandi komi til. David Attenborough (1995) segir frá því að á þessum slóðum, þar sem þallir, sitkagreni og degli eru aðal tegundir, sé það stundum þannig að burknar skyggi út það litla ljósmagn sem kemst niður í gegnum trjákrónurnar þannig að jafnvel þallir eigi erfitt með að vaxa upp. Þá kemur sér vel hversu sverir stofnarnir geta orðið á skógartrjánum. Þegar trén að lokum falla standa þeir upp úr burknastóðinu og þar geta trjáfræin spírað.

Myndir úr bókinni Einkalíf plantna. Sú fyrsta sýnir barrtré, þar á meðal marþöll, sem spírað hafa á föllnum trjábol. Miðmyndin sýnir ung sitkagreni og marþallir að vaxa upp af trjábolnum sem gaf þeim líf. Lokamyndin sýnir röð af trjám en trjábolurinn sem fóstraði þau er löngu horfinn. Stækka má myndirnar með því að smella á þær. 

Í Kjarnaskógi eru aðeins fáeinar þallir. Ef við gætum skroppið í burtu í eins og eitt til tvö þúsund ár og látið skóginn algerlega í friði á meðan er ekki ólíklegt að við okkur tæki þallarskógur þegar við kæmum til baka. Það er auðvitað háð því að ekki verði teljandi rask á meðan.

 

Marþöll í Kjarnaskógi. Hún er á skjólsælum stað og dálitlum skugga. Mynd: Sig.A. 

Almennt má þó segja að þallir vaxa fremur hægt og verða ekkert sérstaklega háar miðað við aðrar tegundir ættarinnar. Með tíð og tíma geta þær þó orðið nokkuð stórar en það er misjafnt eftir tegundum og hér á landi stefnir ekki í það að þessi tré verði tiltakanlega hávaxin nema þá helst marþöllin. Þessi hægi vöxtur gerir það að verkum að þær geta verið hentugar í skjólgóða garða, einkum á þeim svæðum þar sem skortur á ljósi gerir öðrum tegundum erfitt fyrir. Rétt er þó að muna það sem við nefndum hér að ofan. Lofthiti á Íslandi verður sjaldan jafn hár á skuggsælum stöðum og á sólríkum stöðum ef báðir staðirnir njóta skjóls. Gott er að hafa í huga að það er hitinn í laufunum (barrinun) sem skiptir máli fyrir ljóstillífun. Barr sem sólin skín á hitnar meira en barr í skugga. Meiri hiti getur skilað meiri vexti. Því geta þallir vaxið hraðar og betur ef þær eru ekki í of miklum skugga.

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Rúbínreynir

Sigurður Arnarson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 10:00

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Gífurrunnar

Sigurður Arnarson skrifar
31. október 2024 | kl. 09:00

Korkeik

Sigurður Arnarson skrifar
23. október 2024 | kl. 10:00