Fara í efni
Orri Páll

Úrgangi hellt yfir árganginn

ORRABLÓT - XV

Busavígslurnar í Menntaskólanum á Akureyri voru alræmdar á níunda áratugnum. Raunar svo alræmdar að margir hættu við að skrá sig í nám við skólann. Svo segir alltént lífseig flökkusaga.

Sjálfur tók ég áhættuna og hóf nám í MA haustið 1986. Verð samt að viðurkenna að ég svaf illa fyrstu næturnar eftir að skólaárið hófst á grjótharða beddanum mínum heima í Smárahlíðinni. Hræðsla sótti að manni.

Til allrar hamingju gat ég sótt styrk og almennan undirbúning fyrir gjörninginn í tímamótaverkið Reign in Blood með þrassgoðunum í Slayer en það var þá nýkomið út. Þar er að finna gersemar á borð við Postmortem, Angel of Death, sem fjallar um dr. Josef Mengele og voðaverk hans, og síðast en ekki síst Raining Blood, þar sem himnarnir opnast og blóði Guðs engla rignir yfir dauðlegan mann í hreinsunareldinum sem hefur uppi áform um að hrifsa til sín öll völd á himnum. En nú erum við mögulega komin út í aðeins of mikla heimspeki.

Ekkert gerðist fyrstu tvær vikurnar eða svo og maður var hreinlega farinn að velta fyrir sér hvort þetta væri bara þjóðsaga með busavígsluna í MA. En þá voru ljósin skyndilega slökkt og böðlarnir gengu kuflklæddir í salinn. Og fyrir þeim fóru engin smámenni. Við erum að tala um Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrnuhetju og Sovíetbana, Guðlaug Þór Þórðarson, síðar ráðherra, og Ármann Kr. Ólafsson, síðar þingmann og bæjarstjóra í Kópavogi. Tóku þeir okkur busana miðaldatökum og Ármann bliknaði hvurgi enda þótt litli bróðir hans, Árni, væri í röðum okkar busanna. Enda er enginn annars bróðir í leik.

Við busarnir reyndum að vonum að hlaupa eins og fætur toguðu fram á gang en vorum handsamaðir, einn af öðrum, eins og hver annar strokuminkur. Að því búnu vorum við færðir í járnum (OK, það voru kannski engin járn en sagan er betri þannig) niður í kjallara þar sem við vorum látnir skríða gegnum niðdimm göng út í skólaportið. Þar tóku böðlarnir við okkur og sulluðu yfir okkur fiskúrgangi úr Krossanesverksmiðjunni en Dóri hafði þar ítök, að mig minnir. Upp gaus ægilegasti óþefur sem ég hef á ævinni fundið. Mér rennur ennþá kalt vatn milli skinns og hörunds bara þegar ég hugsa um þetta. Ég fékk sullið upp í annað augað og sá ekki hálfa sjón í marga daga á eftir, jafnvel vikur.

Böðlarnir þrír sem Orri Páll nefnir, Guðlaugur Þór, Ármann Kr. og Halldór Ómar - Jón Már Héðinsson kennari - Krossanesverksmiðjan - Halldór skorar frægt mark gegn Sovétríkjunum í Moskvu - hópur MA-busa haustið 1986. Ekki frýnilegir að sjá!

Því næst vorum við tolleruð, að hætti hússins. Svo sem allt í lagi með það. Að athöfn lokinni slógu kennararnir, með heljarmennið Jón Má Héðinsson í broddi fylkingar, skjaldborg um útidyr skólans enda kom ekki til álita að við kæmumst aftur þangað inn, svona lyktandi. Ekki var því um annað að ræða en að halda niður Eyrarlandsveginn, kirkjutröppurnar, göngugötuna og inn á ráðhústorg, þar sem strætó beið eftir okkur. Með mér í för voru Karlarnir Jónsson og Gústafsson, Árni böðulsbróðir Ólafsson og gott ef Garðar Jónsson frá Miðhúsum var ekki með okkur. Hann leigði í næstu blokk við mig.

Strætóbílstjórinn rak upp stór augu þegar hann sá okkur og harðneitaði að hleypa okkur inn í vagninn svona til fara. Sem var svo sem alveg skiljanlegt. Við erfðum það ekki við hann enda átti hann litla þríbura heima og ugglaust sjaldan útsofinn í vinnunni.

Við mættum sama viðmóti á BSO. Sveinbjörn gamli, faðir Bjarna stormsenters úr Þór, tók okkur að vísu vel en gat þess jafnframt að fyrr myndi frjósa í helvíti en að við settumst inn í bílana hans.

Þá var aðeins eitt úrræði eftir, að ganga heim í Þorpið. Og það gerðum við. Býsna rösklega. Við skulum nefnilega hafa í huga að skólaárið í MA hófst ekki fyrr en í október á þessum árum og það var hryssingur í lofti þennan dag. Þegar ég loksins skilaði mér heim var ég eins og frostpinni - með gúanóbragði.

Ég er að segja ykkur það!

Margreynt var að þvo nýju skólafötin sem keypt höfðu verið hjá Ragga í JMJ en allt kom fyrir ekki, daunninn vék hvurgi. Ekki var því um annað að ræða en að láta Ella Færeying, sem bjó í Smárahlíðinni, hafa fötin í innsigluðum poka, en hann vann á öskuhaugunum. Þegar eldur var lagður að fötunum þar efra varð úr mikið viðhafnarbál, að sögn Ella. Sjálfur hafði ég ekki kjark til að kveðja fötin hinstu kveðju.

Mamma og pabbi eru seinþreytt til vandræða en einhverjir aðrir foreldrar kvörtuðu undan þessum ósköpum við skólayfirvöld og strax árið eftir var busavígslan tónuð hressilega niður. Þegar kom svo að mínum árgangi að böðla sig upp þá fólst busavígslan í því að við fórum í heilsubótargöngu um miðbæinn með busana og sýndum þeim Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Sjallann og aðrar helstu menningarstofnanir. Ósköp huggulegt allt saman og allir lyktuðu vel á eftir. Nema kannski Baddi súri. En það var krónískt vandamál. Nei, nú er ég að djóka. Það var enginn Baddi súri í MA.

Norðurslóðablað Morgunblaðsins og Ragnar Axelsson - RAX - eitt mesta séní íslenskrar fjölmiðlasögu; hann var viðstaddur skemmtilega  „kveðju“ utanríkisráðherra lýðveldisins, böðulsins frá því í MA forðum, í tilefni „helvítis ævisögunnar“ sem Orri Páll skrifaði árið áður um umdeildan og fyrirferðarmikinn stjórnmálamann úr Kópavogi! Sá var Gunnar Birgisson, alþingismaður og bæjarstjóri í Kópavogi. Neðst til hægri annar gamall MA-böðull, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi og alþingismaður. 

Guðlaugur Þór og Ármann Kr. urðu löngu síðar aftur á vegi mínum þegar ég tók að mér að skrifa ævisögu umdeilds og fyrirferðarmikils stjórnmálamanns úr Kópavogi. Synd væri að segja að hann hafi verið í hópi æstustu aðdáenda þeirra félaga og fengu þeir fyrir vikið ískaldar kveðjur í bókinni.

Um ári síðar óskaði ég eftir viðtali við Gulla, sem þá var utanríkistáðherra, fyrir blaðauka Morgunblaðsins um norðurslóðir. Ég fékk þar að fljóta með einu mesta séníi íslenskrar fjölmiðlasögu, Ragnari Axelssyni, RAX. Gulli tók afar vel á móti okkur og ég velti fyrir mér hvort bókin hefði hreinlega farið framhjá honum. Bunan stóð upp úr honum um málefni norðurslóða í 30 til 40 mínútur, sjálfbærni og sitthvað fleira bar á góma, en að því búnu leit Gulli á mig og mælti: „Ég held að þetta hafi bara verið í góðu lagi en ef ekki þá lagar þú það bara til fyrir mig. Þú skuldar mér eftir þessa helvítis ævisögu sem þú skrifaðir í fyrra!“

Orðunum fylgdi hann úr hlaði með sveru glotti.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hvað er þetta budduský?

Orri Páll Ormarsson skrifar
15. nóvember 2024 | kl. 10:30

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Glæsilegri en Glæsibær

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. október 2024 | kl. 13:30

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00