Kobbi er greinilega kona!

ORRABLÓT - XXXV
Þegar ég var snáði dreymdi mig, eins og svo marga, um að eiga hund. Sá draumur rættist – í einn sólarhring. Ætli ég hafi ekki verið svona sex ára.
Við erum að tala um hvolp sem kom frá Höskuldsstöðum í Eyjafjarðarsveit, þar sem hjónin Sigurður Snæbjörnsson, föðurbróðir minn, og Rósa Árnadóttir réðu húsum – og dýrum. Algjört eðalfólk, bæði tvö. Ekki man ég hverrar tegundar hvolpurinn var, fyrir mér var þetta bara hvolpur. Líklegast er þó að um íslenskan fjárhund hafi verið að ræða. Voru þeir ekki vinsælastir í sveitunum í gamla daga?
Ég man það ekki svo ofboðslega gjörla en eflaust hef ég verið búinn að suða í dágóðan tíma og að því kom að mamma og pabbi létu undan. Við bjuggum á þessum tíma á annarri hæð í raðhúsi í Heiðarlundi en með sérinngang á jarðhæðinni, þannig að þetta átti alveg að ganga upp.
En gerði það ekki.
Eftir að ég hafði kysst og kjassað hvolpinn daglangt lögðumst við tvífætlingarnir á heimilinu til hvílu. Hvolpurinn var á hinn bóginn alls ekki á þeim buxunum, heldur grét og gnísti tönnum alla nóttina og hélt fyrir okkur vöku. Sem er að ég held bara býsna eðlilegt þegar nýbúið er að slíta ungviði frá móður sinni. Svo skeit hann auðvitað og meig allt út, í þokkabót.
Þetta var meira en mamma og pabbi þoldu og hvolpinum var skilað daginn eftir með þeim rökum að hann myndi eiga miklu betra líf í sveitinni. Auðvitað hárrétt hjá fullorðna fólkinu en ég átti vont með að skilja það á þeirri stundu. Litla hjartað fylltist af sorg og söknuði.
Eftir að við fluttum á þriðju hæð í blokk í Smárahlíðinni gaf ég þennan draum um hund alveg upp á bátinn og ekki kom heldur til tals að halda kött; enda hefði hann þá verið fastur inni allt sitt líf. Það gat ég ekki hugsað mér.
Fljótlega eftir að við fluttum í Þorpið fékk ég hins vegar gæludýr af allt öðru tagi – páfagauk, nánar tiltekið gára. Magnús móðurbróðir minn, sem bjó í foreldrahúsum fyrir sunnan, átti á þeim tíma og hafði lengi átt páfagauk sem hét Kobbi og ekki kom annað til greina en að minn fugl hlyti sama nafn.
Það er eins og að mig minni að gæludýrabúðin hafi verið í sama húsi og leikfangaverslun Sigga Gúmm í Hafnarstrætinu. Mér gæti þó skjöplast.
Kobbi var blár að lit, eins og nafni hans fyrir sunnan, og varð mér strax hlýtt til kappans. Við ræddum um alla heima og geima á einhverju heimatilbúnu blístursmáli, milli þess sem Kobbi söng og hjalaði, eins og gárum er tamt. Á nóttunni var klæði breitt yfir búrið hans og þá steinþagði hann til morguns, að klæðið var fjarlægt. Kunni sig.
Ég verð að viðurkenna að mér brá í brún þegar Kobbi byrjaði einn daginn að verpa eggjum í gríð og erg. Gera karlkyns páfagaukar þetta? spurði ég mömmu, hissa. Hún varð að vonum nokkuð kindarleg, áður en hún upplýsti mig um það sem ég svo sem var búinn að átta mig á sjálfur: Kobbi er greinilega kona!
Jæja, það er þá bara þannig. Kyn er bara kyn. Ég gat á hinn bóginn ekki hugsað mér að breyta nafninu, þannig að hún hét bara áfram Kobbi.
Nokkrum mánuðum eftir að hún gekk til liðs við fjölskylduna tók Kobbi sótt og dó á til þess að gera skömmum tíma, án þess að við fengjum rönd við reist. Ekkert bendir þó til þess að það hafi á neinn hátt haft með þetta óvænta kynjaflökt hennar að gera. Ég stakk upp á krufningu en var fullvissaður um að það væri ekki venjan með páfagauka. Þar við sat.
Ég syrgði að vonum Kobba, vinkonu mína, og foreldrar mínir sáu sæng sína upp reidda, ég yrði að fá nýjan fugl. Nýjan Kobba.
Sá var grænn á litinn og hljóp þannig lagað bara beint í skarðið fyrir forvera sinn. Fátt benti til annars en að hann væri karlkyns. Eigi ég að vera alveg heiðarlegur þá man ég ekki mikið eftir Kobba II enda bar hann beinin eftir aðeins örfáar vikur. Það var slys.
Forsaga málsins er sú að veggfóðrarar voru fengnir heim í Smárahlíðina til að veggfóðra holið, með alveg hreint mergjuðu, yrjóttu og mökkpoppuðu veggfóðri, sem var í tísku á þeim tíma. Kobbi II fylgdist spenntur með verkinu en það sem hvorki hann né veggfóðrararnir sáu fyrir var að hann þoldi illa lyktina af líminu sem þeir notuðu; þannig að þegar við heimilismenn komum heim síðdegis lá Kobbi II örendur á búrgólfinu.
Allt er, þá þrennt er og fljótlega var Kobbi III kominn á kreik. Sá var gulur og varð mun lengri lífdaga auðið en forvera hans. Sem betur fer, Kobbi III var stórmerkileg og bráðskemmtileg skepna. Við urðum miklir félagar.
Fyrir það fyrsta var Kobbi III afar sérlundaður og ágerðist það með árunum. Hann hafði lítið flugþol og brotlenti stundum illa á veggjum, blómapottum eða gólfum þegar hann reyndi að fljúga. Það hefur ábyggilega tekið sinn toll.
Kobbi III var líka ákafur og einlægur aðdáandi bandaríska rokkhljómlistarmannsins Bruce Springsteens. Alla jafna lét gauksi sér tónlist í léttu rúmi liggja en hann þurfti um dagana að hlýða gríðarlega mikið á þungarokk, án þess að sýna minnsta merki um áhuga, hvað þá aðdáun. En um leið og hann heyrði í The Boss í útvarpinu umturnaðist hann, söng, gólaði og gaggaði, eins og óður væri. Og hristist þessi lifandis ósköp. Sérstakt dálæti hafði hann á laginu Dancing in the Dark af metsöluplötunni Born in the USA. Um leið og Springsteen sleppti síðasta tóninum steinþagnaði Kobbi III aftur, eins og ekkert hefði í skorist. Og haggaðist ekki enda þótt Iron Maiden eða Metallica færu næst undir nálina. Ég gerði margar tilraunir með þetta.
Kobbi III varð undarlegri með hverju árinu sem leið og seinustu mánuðina hékk hann svo að segja daglangt utan á búrinu sínu, á hvolfi. Það var engu líkara en að hann væri að stunda hugleiðslu af einhverju tagi. Mögulega uppgötaði hann núvitund á undan okkur mönnunum. Í öllu falli var maður ekkert að trufla hann. Ég ýtti svo bara við Kobba III áður en ég fór í háttinn og hann staulaðist inn í búrið og svaf á prikinu sínu.
Kobbi III lést átta ára að aldri og var sárt saknað. Blessuð sé minning hans og þeirra Kobbanna allra.
Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.


„Mamma, á ég að borga kallinum?“

Seldi upp án þessa að missa úr skref

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Liðið sem aldrei lék heimaleik
