Fara í efni
Orri Páll

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

ORRABLÓT - XXXI

Haustið 1977 er varða á þessari undarlegu vegferð sem kallað er líf en þá hóf ég skólagöngu mína. Það var í Lundarskóla sem þá var til þess að gera nýbúið að reisa. Ég kom fyrst í skólann með mömmu til að hitta kennarann sem hét Þórlaug og var afskaplega hlý og almennileg kona. Hún spjallaði aðeins við okkur mæðginin áður en hún sýndi mér mynd af gíraffa, apaketti og einhverjum fleiri kvikindum. Ég bar kennsl á þau öll með tölu og fyrir vikið þótti óhætt að hleypa mér í núll bekk.

Meira þurfti ekki til.

Svo rann fyrsti skóladagurinn upp. Mamma ætlaði að taka sér frí í vinnunni til að fara með mér en mér þótti það óþarfi; ég rataði vel enda Lundarskóli ekki í nema á að giska 100 metra fjarlægð frá heimili okkar í Heiðarlundinum og ég þess utan orðinn fullra sex ára. Foreldrafylgd væri ekki bara óþörf, heldur beinlínis vond fyrir ímyndina. Punktur, basta.

Mér brá því talsvert þegar ég kom á svæðið og allir hinir nemendurnir voru með mæðrum sínum, jafnvel feðrum líka. Ein og ein amma var þarna einnig á stjákli. Hópurinn starði á mig eins og naut á nývirki og hugsaði ábyggilega með sér: „Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“ Eða „er hann kannski munaðarlaus?“

Það var nú aldeilis öðru nær, mamma og pabbi hugsuðu afskaplega vel um mig, og ég fann strax til þungrar sektarkenndar. Þarna gerði ég mömmu og pabba óleik. Fyrir utan auðvitað að krakkarnir slógu því föstu að ég væri eitthvað skrýtinn. Höfðu þar reyndar sitthvað til síns máls enda þótt ég hafi áreiðanlega ekki áttað mig á því á þeim tímapunkti.

Þessi erfiða lífsreynsla sat enn í mér þegar ég byrjaði í fyrsta bekk árið eftir og fyrir vikið lagði ég þunga áherslu á það við mömmu að hún kæmi með mér fyrsta skóladaginn. Henni var það ljúft og skylt.

Og hvað gerðist þá? Jú, jú, þið eigið kollgátuna; ég var sá eini sem kom með mömmu sinni. Hin börnin voru öll ein síns liðs. Enda orðin alvön skólanum. Ég blóðroðnaði auðvitað niður á brjóst og óskaði þess að jörðin myndi gleypa mig. Það gerðist ekki og aftur var glápt á mig – og núna líka mömmu. Hafi bekkurinn verið í vafa gat hann verið nokkuð viss núna: „Hann er eitthvað skrýtinn þessi!“

En jæja. Skólinn var bara ljómandi skemmtilegur og núll bekkur þannig lagað ekkert mikið frábrugðinn öllum leikskólunum sem ég hafði verið á áður. Við lærðum að lesa, skrifa og reikna og temja okkur allskyns góða siði. Bekkurinn minn var í stofu í kjallara skólans og þar sem byggingin var alltaf læst þegar okkur bar að garði biðum við eins og sardínur í dós í litlu skoti fyrir framan kjallarahurðina. Hörð keppni stóð um að vera fremst og bar ég stundum sigur úr býtum. Þá varð ég afskaplega glaður.

Minnisstæðasta atvikið þennan fyrsta vetur var þegar bekkjarbróðir minn skreið inn um mjóan og láréttan glugga á stofunni í löngufrímínútum. Bara vegna þess að hann gat það. Þórlaug bjó að miklu jafnaðargeði en þetta þótti henni of langt gengið, þannig að nemandinn var umsvifalaust sendur á fund skólastjórans. Það þótti okkur hinum svakalegt og áttum alveg eins von á að sjá hann aldrei framar. Ég meina, það er ekkert grín að fara til „skóka“! En nemandinn sneri aftur, með alla útlimi jafnlanga og lærði ábyggilega sína lexíu. Alltént man ég ekki eftir að hann hafi reynt þetta aftur.

Í fyrsta bekk tók frábær kona við okkur, Regína Vernharðsdóttir, móðir Vernharðs Þorleifssonar júdókappa. Hún var eldhress og hvatti okkur óspart til góðra verka. Regína hikaði heldur ekki við að bregða út af námsskrá, þegar það átti við, og efna til spurningaleikja og annarra skemmtilegra leikja. Við lærðum ekki minna af því.

Gamla góða krítartaflan var ennþá við lýði á þessum árum og ég man hversu ofboðslega vel hún var alltaf skreytt fyrir jólin; manni leið hreinlega eins og maður væri kominn í sjálfa Sixtínsku kapelluna. Sjálfur bar ég enga ábyrgð á þeirri dýrð enda get ég ekki einu sinni teiknað Óla prik skammlaust. Hvað þá meira.

Leikfimistímarnir eru líka eftirminnilegir, ekki síst brenniboltinn. Súlur voru í salnum og huglaustustu nemendurnir földu sig gjarnan bak við þær – enda þótt það væri harðbannað. Jakahlaupið var líka verðug áskorun en til þess var einkum gripið til hátíðarbrigða, fyrir jólin og í seinasta tíma að vori.

Þriðja og seinasta veturinn minn í Lundarskóla flutti ég úr Heiðarlundinum; fyrst í Þórunnarstræti, þar sem Girish Hirlekar læknir var nágranni okkar, og síðan í gamla pakkhúsið á Grund, meðan við biðum eftir að nýtt heimili okkar í Þorpinu yrði tilbúið undir tréverk.

Úr Þórunnarstrætinu tók ég alltaf strætó, ásamt Villa bekkjarbróður mínum, sem bjó í Hamarstíg, en flaut með mömmu og pabba frá Grund og þá þurfti að taka daginn snemma, sérstaklega í ljósi þess að skólinn hjá mér byrjaði ekki fyrr en á hádegi. Fram að því dvaldist ég í góðu yfirlæti á mínu gamla heimili í Heiðarlundinum en amma á Grund var þá flutt þangað, ásamt Þórði Sturlusyni, sonarsyni sínum, sem hún ól upp. Það voru dýrmætar stundir með ömmu en hún átti ekki eftir að lifa lengi eftir þetta.

Einu sinni gleymdist skólataskan frammi á Grund og ég var gjöreyðilagður maður þegar við komum til ömmu og þetta uppgötvaðist. Mannskapurinn reyndi að stappa í mig stálinu en lítið gekk, mér leið eins og að heimurinn hefði hrunið yfir mig. Óhugsandi var að fara töskulaus í skólann! Eftir að pabbi hafði hringt í Regínu og gert henni grein fyrir þessari alvarlegu stöðu fékkst ég þó til að fara. En djöfull leið mér illa. Regína gerði hins vegar bara gott úr þessu, eins og öllu, og ég náði vopnum mínum fljótt aftur. Enda er taska bara taska.

Það er leikur að læra og mest var þetta leikur þarna í Lundarskólanum, eins og það á að vera í yngstu bekkjum grunnskólans. Einn daginn, þegar ég var í fyrsta bekk, knúðu þó alvaran og sorgin dyra, þegar strákur úr mínum árgangi varð fyrir bíl á leið í skólann og lést. Hann var ekki í minni stofu en með okkur í leikfimi, þannig að við könnuðumst vel við hann. Ég man eins og gerst hefði í gær þegar Hörður Ólafsson skólastjóri kom inn í bekkinn til að færa okkur þessi hræðilegu tíðindi. Mál hans var milt og huggandi.

Sem betur fer þurfa fæstir að hugsa um dauðann á þessum aldri en þarna vorum við þessar litlu saklausu sálir knúnar til þess og þetta hræðilega atvik hefur ábyggilega setið lengi í okkur flestum.

Og átt þátt í að móta okkur.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hvað er þetta budduský?

Orri Páll Ormarsson skrifar
15. nóvember 2024 | kl. 10:30

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Glæsilegri en Glæsibær

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. október 2024 | kl. 13:30