Fara í efni
Orri Páll

Þjálfarinn tæklaður upp í stalla

ORRABLÓT - XXXVIII

Annar flokkur Þórs í knattspyrnu fékk áhugaverða sendingu veturinn 1989-90 – Lárus Orra Sigurðsson. Orðsporið reið raunar í hlað á undan kappanum enda var hann þegar búinn að láta til sín taka í yngri landsliðum Íslands og heyrði til landsfrægum sparkárgangi á Akranesi, ásamt ekki minni mönnum en Arnari og Bjarka Gunnlaugssonum og Þórði Guðjónssyni. Gott ef Sturlaugur Haraldsson, afkomandi Fritz gamla Peppermüllers, var ekki samferða þeim líka. Ekki skemmdi heldur fyrir að Lárus Orri var sonur gamals Þórsara og ÍBA-manns, varnarjaxlsins Sigurðar Lárussonar, sem einmitt var að snúa heim í Þorpið.

Sigurður Lárusson – fyrir leik með Þór 1975, fyrir landsleik 1983 og fyrirliði ÍA 1987.

3. flokkur ÍA, bikarmeistari 1989. Lárus Orri Sigurðsson, fyrirliði liðsins, í fremri röð á milli markvarðanna.

Við, dauðlegir menn, sáum strax á fyrstu æfingunum, sem fram fóru inni á dúk (þetta var löngu fyrir daga teppalagðra sparkhúsa), að Orri, eins og hann var kallaður (enda miklu betra nafn en Lárus!), væri að fara miklu lengra en við í greininni. Þrátt fyrir að vera á yngsta ári af þremur í öðrum flokki var hann bæði stærri og sterkari en við flestir og krafturinn minnti einna helst á vatnsaflsvirkjun. Mönnum var hreinlega hollast að færa sig frá þegar Orri kom aðvífandi. Svo var gæinn alltaf fantavel mótíveraður, hvort sem um var að ræða mótsleik eða bara reitabolta, og reif mannskapinn með sér. Þrælfínn félagi í þokkabót.

Orri byrjaði að spila með öðrum flokki og varð að sætta sig við að vera kallaður Lalli í leikjum til að forðast misskilning enda var ykkar einlægur þarna fyrir, eldri maður og reyndari. Hinn kosturinn hefði verið að kalla mig Palla en það hefði aldrei gert sig. Það sá hver nafnvís maður. Þegar ég hugsa um það var Lárus Orri líklega fyrsti Orrinn sem ég kynntist á lífsleiðinni. Lítið var um slíka fugla á Akureyri í denn. Eiginlega ekki neitt. Nú heitir þriðji hver maður Orri og meira að segja hundur hérna í hverfinu mínu fyrir sunnan. Ekkert gaman að þessu lengur.

Í miðjunni, Sigurður Lárusson og Luka Kostić á „gamla, góða“ Sanavellinum vorið 1990 og lengst til hægri er Gunnar Gunnarsson, Gassi, þjálfari Orra Páls og félaga í 2. flokki Þórs.

En alltént. Þegar sumarið var að skríða af stað 1990 og tvær eða þrjár umferðir búnar af Íslandsmótinu blés nýr þjálfari meistaraflokks Þórs, Luka Kostić, til æfingaleiks milli meistaraflokks og annars flokks á grasvelli Þórs. Það hefur árað vel þarna, oft fengum við ekki að stíga inn á grasið fyrr en langt var liðið á júní. Kostić, eða Kóle eins og hann var kallaður, ætlaði þarna að skerpa á einhverjum áhersluatriðum og koma með sparkdæmi fyrir Nóa Björnsson og aðra fróðleiksfúsa miðvellinga liðsins. „Strákúr, ég spilar sjálfúr á miðjúnni í dag,“ sagði kappinn sem alla jafna lék í öftustu vörn.

Þjálfari okkar, Gunnar Gunnarsson, Gassi, sá sóknarfæri í þessu og stillti Orra, það er Lárusi Orra, upp á miðjunni, á móti Kóle. Ekki þurfti að peppa okkar mann fyrir þá glímu; varla var búið að flauta til leiks þegar Orri var búinn að tækla gamla manninn upp í hné, bringspalir og hársvörð. Eftir fimm mínútur hefur Kóle ábyggilega liðið eins og að hann hefði orðið undir steypubíl – fullum af hlassi. Karlanginn sá aldrei til sólar. Gott ef hann endaði ekki uppi í grasstöllunum, þar sem vallarvörðurinn kom og skóf hann upp með spaða. Orri blés á hinn bóginn ekki úr nös. Í leikhléi skipti Kóle sjálfum sér með hraði af velli og setti engan inn á í staðinn. Nei, það er ofmælt. Einhver kom inn á og hafði ábyggilega svipaðar trakteringar í seinni hálfleiknum.

Sigurður Lárusson og Lárus Orri Sigurðsson eftir leik Þórs og KR á Akureyrarvelli 6. júní 1990. Þetta var fyrsti leikur Lárusar Orra með meistaraflokki Þórs og þeir urðu þarna fyrstu feðgarnir til þess að leika saman í efstu deild hérlendis. Með þeim er sonurinn og bróðirinn Kristján Örn, síðar atvinnumaður og landsliðsmaður í knattspyrnu.

Kóle var ekki einn um að vera í vandræðum í þessum eftirminnilega leik; ég var líka í tómu basli. Bæði lið stilltu upp þremur miðvörðum og svo vængvörðum beggja vegna. Ég var á vinstra vængnum í liði annars flokks og á móti mér í liði meistaraflokks Hlynur Birgisson sem á þeim tíma var leikmaður á landsmælikvarða og þindarlaus eftir því. Þegar hann var búinn að hlaupa eins og híena upp og niður kantinn í tuttugu mínútur leið mér eins og að ég væri að deyja. Og ég er ekki að grínast – eins og að ég væri að deyja! Ég var gjörsamlega búinn á því og eina ástæðan fyrir því að ég var ekki tekinn af velli var sú að ég átti ekki snefil af orku eftir til að kalla á Gassa og biðja um skiptingu.

Þarna í fjörbrotinu varð mér litið yfir á hinn vænginn og sá að minn kæri vinur Arnaldur Skúli Baldursson var líka orðinn vel móður en hans hlutverk var að elta annan tófuspreng, Þorstein Jónsson. Sá gæi bjó á Grenivík og sagan segir að hann hafi hlaupið á milli bæjarfélaga, fyrir og eftir æfingar.

Fróðlegt væri að vita hversu marga kílómetra Hlynur og Steini hlupu samtals þetta sumar. En þeirri tölfræði var víst ekki til að dreifa á þessum tíma.

Grenvíkingurinn Þorsteinn Jónsson, Hlynur Birgisson (þarna 1994), Júlíus Tryggvason og Lúka Kostic.

Tveimur dögum eða svo síðar lék meistaraflokkur Þórs sinn næsta leik á Íslandsmótinu, gegn KR nyrðra, og Orri var í byrjunarliðinu, það er Lárus Orri en ekki Orri Páll. Sá síðarnefndi kom hvergi nærri hópnum. Það er eins og mig minni að Orri hafi leikið á miðjunni í þessum fyrsta leik en síðar um sumarið stillti hann sér upp í vörninni ásamt föður sínum, Júlíus Tryggvason á milli þeirra. Mun þetta hafa verið í fyrsta sinn sem feðgar léku saman í efstu deild á Íslandi. Það var magnað að sjá þá saman þarna í vörninni enda líkindin afgerandi og vaxtarlagið alveg það sama. Kassinn þaninn og kjarkurinn beint frá Ása-Þór.

Við í öðrum flokki sáum lítið af Orra sem eftir lifði sumars; hann var mest með meistaraflokki. Seinna varð hann auðvitað landsliðsmaður og atvinnumaður á Englandi, með Stoke City og West Bromwich Albion. Nokkuð sem kom okkur liðsfélögum hans fyrir norðan hreint ekki á óvart. Hvað hann var kallaður þar, Orri eða Lalli, hef ég hins vegar aldrei fengið staðfest.

Lárus Orri Sigurðsson á hér þrumuskalla að marki Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, þegar hann lék með West Bromwich Albion. Hann tók þátt í 116 leikjum með liðinu frá 1999 til 2004.

Lárus Orri var ekki eina undrið í yngri flokkum Þórs þetta vor. Það fengum við í öðrum flokki að reyna um svipað leyti. Gassi vildi þá skerpa á einhverjum áherslum og skoraði þriðja flokk á hólm, sumsé yngri pilta. Glímt var á malarvellinum sáluga og þetta átti auðvitað að vera eins og að drekka vatn fyrir okkur í öðrum flokki.

Nema hvað. Flautað var til leiks og smávaxinn og grannholda leikmaður þriðja flokks tók miðjuna og sendi boltann á annan smávaxinn og grannholda leikmann. Sá rauk af stað, lék á einn mann, svo annan og þann þriðja, líklega þann fjórða og jafnvel fimmta líka. Þá var hann kominn að vítateig okkar, leit snöggvast upp og smurði tuðruna í vinkilinn framhjá bjarglausum og gáttuðum Atla Má Rúnarssyni í markinu, 1:0. Og leikurinn varla byrjaður.

Það mergjaðasta við þessa sögu er að hér er engu orði ofaukið. Þetta gerðist nákvæmlega svona. Og hvað hét þetta snaggarlega og fótafima ungmenni?

Jú, Guðmundur Benediktsson.

„Strákar!“ var Gassi vanur að segja og fórna höndum þegar hann varð fyrir vonbrigðum með okkur. En nú kom hann einfaldlega ekki upp orði. Trúði ekki sínum eigin augum. Okkur hinum brá ekki eins mikið enda höfðum við flestir, líklega allir, reynslu af því að kljást við Gumma á hinum ýmsu túnum og grasbölum í Þorpinu. Það endaði alltaf illa – fyrir okkur. Gummi bjó strax sem barn að snilligáfu sem vont var að hemja. Svo illa sólaði hann okkur stundum að við rötuðum ekki heim til okkar. Einu sinni man ég eftir að hafa verið að ráfa um í sameigninni í blokk í Borgarhlíðinni seint um kvöld þegar gömul kona gekk fram á mig og vísaði mér veginn heim. „Æ, æ, Orri minn. Var hann Gummi litli Ben nú að leika þig grátt? Þú átt heima handan túnsins, í Smárahlíðinni!“

Guðmundur Benediktsson – Gummi Ben. Á myndinni lengst til vinstri kemur hann inná í leik Þórs og Vals á Akureyrarvelli 19. júní 1990, þá yngsti leikmaður sem tekið hafði þátt í leik í efstu deild Íslandsmótsins, 15 ára og 290 daga. Gummi var 13 dögum yngri en Skagamaðurinn Sigurður Jónsson sem var 15 ára og 303 daga þegar hann lék með ÍA gegn KA sumarið 1982.

Miðjumyndin: Gummi Ben íþróttamaður Þórs 1990, sá fyrsti eftir að kjörið var endurvakið eftir margra ára hlé. Lengst til hægri: Guðmundur eftir að hann sneri heim úr atvinnumennsku vegna meiðsla 1994 og gekk til liðs við Þór á ný.

Í næsta leik annars flokks var Gummi í byrjunarliðinu, 15 ára, og í flestum leikjum eftir það. Það er þegar hann var ekki að leika með meistaraflokki. Kóle var ekki viðstaddur þarna á mölinni en Gassi hefur pottþétt rifið upp símann að leik loknum og upplýst hann. „Hér er maður sem þú þarft að skoða!“

Árið eftir var Gummi orðinn atvinnumaður en ferill hans á erlendri grundu varð endasleppur vegna tíðra meiðsla, eins og við öll þekkjum. En hann var um árabil einn besti leikmaður Íslandsmótsins og varð meistari með bæði KR og Val.

Hann er þó og verður alltaf Þórsari í hjarta. Annað er óhugsandi.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Tók stigann í ólöglega fáum stökkum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. apríl 2025 | kl. 07:00

Hvað ertu með um hálsinn, drengur?

Orri Páll Ormarsson skrifar
21. mars 2025 | kl. 18:00

Kobbi er greinilega kona!

Orri Páll Ormarsson skrifar
07. mars 2025 | kl. 11:30

Féll af kústhestbaki

Orri Páll Ormarsson skrifar
21. febrúar 2025 | kl. 20:00

„Mamma, á ég að borga kallinum?“

Orri Páll Ormarsson skrifar
07. febrúar 2025 | kl. 10:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00