Fara í efni
Orri Páll

Uppstoppaðir vinnufélagar

ORRABLÓT - IX

Sumurin 1991 og 1992 vann ég sem safnvörður á Náttúrugripasafninu á Akureyri. Það er án nokkurs vafa rólegasta starf sem ég hef gegnt um dagana enda vinnufélagarnir upp til hópa uppstoppaðir og til lítils ama.

Mest voru það fuglar sem var smá vesen fyrir mig enda hef ég aldrei haft sérstakan áhuga á þeim ágæta fénaði, nema þá helst furðufuglum, og þekkti á þessum tíma varla hrafn frá spóa. Eitthvað mjatlaðist þó inn í kvörnina á mér á safninu. Ég reyndi eftir fremsta megni að setja upp gáfulegan svip yrtu safngestir, sem aðallega voru þýskir og bandarískir ferðamenn, á mig og þóttist ausa úr skálum þekkingar minnar. Það gekk svona og svona. Það var til dæmis ekki fyrr en seinna sumarið að ég áttaði mig á því að geirfugl safnsins væri ekki ekta, heldur svikinn.

Mick Jagger, til vinstri, og Páll Óskar Hjálmtýsson hafa báðir fengist við músík. Aðeins annar þeirra skoðaði Náttúrugripasafnið við Hafnarstræti á Akureyri meðan það var og hét svo vitað sé. Myndin af Jagger er skjáskot af RÚV þegar hann heimsótti Ísafjörð á sínum tíma.

Náttúrugripasafnið var á þessum tíma í Hafnarstræti, í sama húsi og Tónlistarskólinn, og þar var einnig að finna prýðilegt steinasafn. Aldrei fékk ég þó eins fróðan gest í heimsókn og Jón kollegi minn Sigurpálsson á Ísafirði. Sá var breskur og spurði svo gáfulega meðan þeir félagar gengu um safnið að Jón heitinn spurði hann þegar þeir kvöddust hvort hann væri jarðfræðingur.

„Nei,“ svaraði gesturinn af hógværð. „Ég fæst svolítið við músík.“

Einmitt það. Jón roðnaði hins vegar talsvert í vöngum yfir kvöldfréttum sjónvarps, þar sem þessi ágæti gestur ræddi við fréttamenn á bryggjunni í bænum. Þar kom fram að hann héti Mick Jagger.

Goðið hafði, eins og menn muna, laumast á land úr snekkju vinar síns, einhvers auðkýfings, svo lítið bar á og að sjálfsögðu tekið strauið beint á steinasafnið.

Frægasti gesturinn sem ég tók á móti var Páll Óskar Hjálmtýsson, sem kom þangað raunar fyrstur manna sumarið 1991, ásamt félögum sínum en þeir höfðu verið að skemmta í bænum. Páll var kurteisin uppmáluð en virtist ekki vita mikið um jarðfræði eða fugla. Nema að hann hafi bókstaflega vitað allt og ekki þurft að spyrja.

Óvíst er hvort ferfætlingurinn til vinstri var íbúi á Náttúrugripasafninu á Akureyri. Fuglarnir áttu þar hins vegar sannarlega heimili, en örlög þeirra og fjölda annarra gripa var að lenda ofan í pappakassa þegar safninu var lokað vegna húsnæðisskorts fyrir aldarfjórðungi eða þar um bil. 

Náttúrugripasafnið var hluti af Náttúrufræðistofnun Norðurlands og þar vann mikið eðalfólk, á skrifstofu á efri hæðum hússins. Forstöðumaðurinn, Hörður Kristinsson grasafræðingur, var annálað ljúfmenni og fyrirtaks yfirmaður. Hann var afkastamikill fræðimaður og vissi allt sem dauðlegur maður getur vitað um plöntur og fléttur. Safnið var bara opið eftir hádegi í júní og þá morgna hafði ég það hlutverk að skrá fléttusafn Harðar inn í tölvu. Það var mikið nákvæmnisverk. Ég man að ein fléttan hét Kristinssonea að seinna nafni (man ekki það fyrra) eftir höfðingjanum sjálfum. Það var ruddalega smart!

Okkur Herði kom vel saman en vorum þó ekki á sömu blaðsíðu þegar kom að húmor; ég gerði stundum tilraunir með það. Seinna sumarið hóf störf hjá stofnuninni Starri Heiðmarsson, sem einnig er elskur að fléttufungu Íslands. Við könnuðumst hvor við annan úr MA og heilsuðumst kumpánlega.

„Jæja, svo þið þekkist?“ spurði Hörður.

Ég var á þessum tíma með skósítt hár en Starri burstaklipptur, eins og að hann væri á þráðbeinni leið í sveitina. Þess vegna grillaði ég aðeins í Herði.

„Já, við erum hjá sama rakaranum!“

„Einmitt það,“ sagði Hörður og stökk ekki bros. „Hvaða rakari er það?“

Starri glotti. Og við báðir.

Orri Páll talar fallega um samstarfsmenn sína á Náttúrugripasafninu: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir var sveppafræðingur hússins; dásamleg kona, geðgóð og skilningsrík – Hörður Kristinsson grasafræðingur, var annálað ljúfmenni og fyrirtaks yfirmaður. 

Eins og allir alvöru vísindamenn þá var Hörður dálítið utan við sig. Hann bjó frammi í firði og einu sinni heyrði ég þá sögu að hann hefði ætlað að skutla frúnni í búðir á Akureyri. Á leið niður á veg þurfti að fara gegnum hlið og brá frúin sér út til að opna hliðið. Hörður ók hins vegar beint áfram sem leið lá inn á Akureyri. Og mun hafa verið kominn í búðirnar þegar hann áttaði sig á því að frúin var hvurgi.

Blessuð sé minning Harðar Kristinssonar.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir var sveppafræðingur hússins; dásamleg kona, geðgóð og skilningsrík. Ég svaf einu sinni yfir mig en Guðríður Gyða hringdi ekki fyrr en undir hádegi.

Hvers vegna hringdirðu ekki fyrr? spurði ég hvumsa. Með móral upp fyrir haus.

„Æ, ég vildi ekki vera að ónáða þig.“

Guðríður Gyða hjólaði alltaf í vinnuna, með hjálm, sem var fátítt á þeim tíma. Hún var hins vegar svo ástríðufull og niðursokkin í verkefni sín að hún mundi stundum ekki eftir að taka hjálminn niður fyrr en í hádeginu.

Eftir það hef ég verið sannfærður um að allir hjólreiðamenn sem taka hjálminn af sér um leið og þeir setjast við skrifborðið hafi ekki nægilega ástríðu fyrir vinnunni sinni.

Kristján Ingimarsson löngu eftir að hann stofnaði (ekki) hljómsveitina Fragúel; hér í stóru hlutverki á vígsluhátíð menningarhússins Hofs á Akureyri sumarið 2010. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Síðast en ekki síst var þarna Halldór G. Pétursson jarðfræðingur. Tápmikill og bráðskemmtilegur náungi og djókarinn á staðnum. Man að hann kallaði Hörð aldrei annað en leiðtogann.

Þegar Halldór var ekki að bera saman grjót sín þá var hann á kafi í músík og gott ef hann var ekki rótari hjá Kristjáni Ingimarssyni, síðar látbragðsleikara, og félögum hans í Svörtu köggunum. Þeirri framsæknu sveit.

Ég hitti Kristján einu sinni á förnum vegi. Hann var þá að stofna hljómsveitina og spurði hvort ég ætti gott nafn handa honum. Mér datt ekkert annað í hug en Fragúel en Kristján afþakkaði það á þeim forsendum að það minnti hann um of á bjór sem hann hafði kynnst á Spáni, San Miguel.

Nær hef ég ekki komist því um dagana að nefna hljómsveit og eftir því sem ég best veit er Fragúel ennþá laust.

Einhver?

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega.

Hvað er þetta budduský?

Orri Páll Ormarsson skrifar
15. nóvember 2024 | kl. 10:30

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Glæsilegri en Glæsibær

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. október 2024 | kl. 13:30

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

Orri Páll Ormarsson skrifar
20. september 2024 | kl. 06:00

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

Orri Páll Ormarsson skrifar
06. september 2024 | kl. 08:30