Fara í efni
Orri Páll

Hvað er þetta budduský?

ORRABLÓT - XXVII

Vídjóið er ein merkasta uppfinning 20. aldarinnar – og voru þær þó margar merkilegar. Það þýddi að maður var ekki lengur bundinn á klafa línulegrar dagskrár Ríkissjónvarpsins (öðrum stöðvum var ekki til að dreifa á þessum tíma) heldur gat gerst sinn eigin dagskrárstjóri, sumsé horft á hvað sem var og þegar manni sýndist.

Þannig lagað.

Vandinn var sá að græjan kostaði pening og kom því ekki strax inn á ósköp venjulegt alþýðuheimili, eins og mitt eigið. Sama máli gegndi um heimili flestra vina minna. Magnús móðurbróðir eignaðist að vísu snemma sitt eigið tæki en hann bjó fyrir sunnan og aðgengi að því fyrir vikið takmarkað. Þess utan veðjaði Maggi á Betamax sem snemma varð undir í baráttunni við VHS, þannig að spóluframboðið var margfalt minna.

Doddi frændi fyrir norðan, Þórarinn Sveinn Thorlacius málari, átti líka vídjótæki, meira að segja af gerðinni VHS, sem hann í örlæti sínu lánaði okkur fjölskyldunni stundum, einkum þegar hann brá sér af bæ, enda þeim pabba vel til vina. Þóttist maður þá hafa himin höndum tekið.

Ég man að við félagar, Hjalti S. Hjaltason og Ingólfur Jónsson og stundum fleiri menn, sátum flötum beinum heima í Smárahlíðinni yfir vídjóinu hans Dodda svo tímum og dögum skipti. Dolfallnir. Vídjótæki þetta hlaut snemma nafnið pásuvídjóið enda hafði það þann undarlega ósið að nauðhemla annað slagið og skyrpa spólunni út úr sér – jafnvel alla leið niður á gólf. Ég gleymi aldrei svipnum á Hjalta og Ingó þegar þeir urðu vitni að þessu í fyrsta sinn. „Hvurr djöfullinn,“ mæltu þeir einum rómi.

Við vöndumst þessu fljótt og þegar á leið var eftirvæntingin ekki síst nákvæmlega fólgin í þessu, það er hvenær tækið tæki upp á því að skyrpa spólunni út úr sér og hvort að hún þá drifi alla leið niður á gólf. Þetta spurðist hratt út í hverfinu og allskyns menn freistuðu þess að fá inngöngu heima til að berja gjörninginn augum. Sumum var hleypt að, öðrum ekki. Eins og gengur.

En hvernig í ósköpunum stóð á þessu? Var tækið hans Dodda orðið svona gamalt og lúið? Það meikar engan veginn sens enda var þetta eldsnemma í áttunni, þegar uppfinningin var til þess að gera ný. Tækið gat því fræðilega ekki verið gamalt. En mögulega var Doddi bara svo almennilegur að lána tækið út um hvippinn og hvappinn og þess vegna slitnaði það kannski fyrr en ella. Eða kannski var tækið bara svona sérlundað frá fyrstu tíð?

Við þessari áleitnu spurningu fæst líklega aldrei svar.

Tækinu hans Dodda fylgdi alltaf sama spólan; með upptöku frá popphátíð í Montreux í Sviss. Þar er sagt fallegt og eitt sinn rauk úr vatninu. Fram komu bönd á borð við Spandau Ballet og Duran Duran og Roger gamli Daltrey sem eitthvað var að sólóast á þessum tíma, alveg Wholaus.

Svo var auðvitað hægt að leigja tæki, eins og þið munið. Á vídjóleigunum, sem spruttu að vonum upp eins og gorkúlur á Akureyri og víðar. Eins og mig minni að venjan hafi verið tveir sólarhringar og maður gekk þá sjaldan út með færri en fimm til sex ræmur. Og gerði ekkert annað alla helgina en að horfa á vídjó.

Oft sátum við saman fjölskyldan, mamma, pabbi og ég, og horfðum saman. Þau höfðu sérstakt dálæti á smáseríum, það er myndum í tveimur, þremur eða fjórum hlutum, sem þýddi þá auðvitað tvær, þrjár eða fjórar spólur. Hófst svo glápið. Pabbi fylgdi þræðinum mátulega vel enda fannst honum fátt betra en að fá sér kríu yfir þessum maraþonsýningum, nú eða bara skreppa stundarkorn inn í dagdraumalandið. Ógleymanlegt var þegar hann spurði er nokkuð var liðið á spólu númer þrjú af einum þættinum: „Hvaða maður er þetta? Hefur hann verið áður.“

Það var þá aðalsöguhetjan í myndinni.

Einu sinni rumskaði pabbi í miðri vídjómynd og sá þá að ekki var þverfótað í íslenska textanum sem fylgdi ensku talinu fyrir orðinu „budduský“. Hann kom fyrirbrigðinu ómögulega fyrir sér og spurði meðhorfendur sína undrandi: „Hvað er þetta budduský?“

Kom þá í ljós að það var nafn á einni persónunni, sem hét sumsé Buddusky að seinna nafni. Man ekki skírnarnafnið, en segjum bara William Buddusky. Allar götur síðan hefur þetta verið eitt af mínum uppáhaldsorðum á íslenskri tungu, budduský. Þau verða ekki mikið fallegri, orðin!

Ég man enn eftir sumum af þessum smáseríum, ekki síst hinni bandarísku Celebrity. Þar var hermt af þremur piltum sem frömdu hræðilegan glæp í fjallakofa og sammæltust um að hylma yfir hann. Sú ákvörðun fór misjafnlega með þá, árin liðu og á yfirborðinu nutu þeir velgengni í lífinu en undir niðri kraumaði sektin. Undan uppgjörinu varð ekki vikist. Svo djúpt situr þessi saga í mér að ég man meira að segja nöfnin á aðalpersónunum: Kleber Cantrell, Mackenzie Crawford og Thomas Jeremiah Luther. Bíð þá hér með velkomna inn á Akureyri.net, öllum þessum árum síðar. Hver hefði búist við því?

Margar minningar tengjast vídjóinu. Einu sinni sem oftar vorum við félagarnir á rúntinum í miðbænum þegar upp úr krafsinu kom að ég hafði aldrei séð þá gagnmerku söng- og gleðimynd Grease. Höfðu menn þá hraðar hendur, brunuðu beina leið á vídjóleigu í Skipagötunni og sóttu Grease – sem til allrar hamingju var inni. Þaðan hélt hersingin sem leið lá heim til að berja dýrðina augum, Travolta, Newton-John og allt gengið. En sú veisla!

Vinsælasta sjónvarpsefnið á þessum árum var sápuópera allra sápuópera, Dallas. Eftir að hafa staðið blygðunarlaust fyrir því að Íslendingar ánetjuðust efninu ákvað Ríkissjónvarpið óvænt og skyndilega að hætta að sýna það enda var það víst allt í einu bókaþjóðinni ekki samboðið.

Nú voru góð ráð dýr. En þegar neyðin er stærst er Olís næst, nánar tiltekið Olís í Tryggvabraut. Þar tæmdu menn með hraði allar hillur af frostlegi, rúðuvökva, vélarolíu og tvisti til að rýma til fyrir flunkunýjum Dallasþáttum á VHS. Viðskiptin á bensínstöðinni hljóta að hafa aukist um mörghundruð prósent. Sumum var þó hleypt inn bakdyramegin til að leigja spólurnar enda fengust ekki allir til að viðurkenna að þeir horfðu á Dallas. Það var auðvitað tóm þvæla enda er leitun að persónu í sjónvarpssögunni sem hefur smeygt sér jafnrækilega undir skinnið á þjóðinni – og raunar heimsbyggðinni – og Joð Err Ewing.

Það var á aðventunni 1985 að við fjölskyldan eignuðumst loksins okkar eigið vídjótæki. Þá var glatt á hjalla. Man ekki fyrir mitt litla líf hvert merkið var, hef aldrei verið nægilega mikill græjukall. Þetta var rétt tímanlega svo að ég gæti tekið upp fyrsta fótboltaleikinn minn í sjónvarpinu, viðureign Manchester United og minna manna í Arsenal í ausandi rigningunni á Old Trafford. Einhver skjálfti var í tækinu til að byrja með og fyrri hálfleikurinn á spólunni var af einhverjum ástæðum svarthvítur. Það kom ekki að sök því sigurmarkið kom ekki fyrr en seint í leiknum. Eftir mikinn flumbrugang í uppspili heimamanna barst tuðran óvænt til Njáls Quinn sem skaut að marki. Gary Bailey varði en Charlie Nicholas tók frákastið og skoraði. Raunar bara rétt svo, drullusvaðið í markteignum var með þeim hætti að tuðran rétt skreið yfir línuna. Ykkur er óhætt að trúa mér, ég sá þetta svona fimmtíu sinnum á sínum tíma.

Eftir þetta voru allir Arsenal-leikir í sjónvarpinu teknir upp árum saman; safnið hleypur á tugum ef ekki hundruðum spóla.

Það voru ekki bara kappleikir; ég myndritaði líka haug af bíómyndum, helst eldgömlum svarthvítum með dúddum á borð við Marlon Brando, Paul Newman og Montgomery Clift. Sumum þótti það skrýtið. Að ekki sé talað um öll myndböndin úr hinum ágæta þungarokksþætti Bylmingi á Stöð 2.

Svo keypti maður annað eins í útlöndum. Spark, músík og bíó.

Allt er þetta ennþá til, uppi á háalofti. Með svo ótalmörgu öðru (drasli).

Eða eins og konan mín segir: „Þetta er ekki hægt með þig, maður. Þú hendir aldrei neinu.“

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30

Glæsilegri en Glæsibær

Orri Páll Ormarsson skrifar
18. október 2024 | kl. 13:30

Niðurlægðir af reykingamönnum

Orri Páll Ormarsson skrifar
04. október 2024 | kl. 17:00

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

Orri Páll Ormarsson skrifar
20. september 2024 | kl. 06:00