Fara í efni
Orri Páll

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður

ORRABLÓT - XXII

Ég er fæddur Þórsari. Um það er engum blöðum að fletta. Ég get að vísu ekki borið nein vísindaleg gögn á borð fyrir ykkur því til staðfestingar en mér nægir tilfinningin og hjartað.

Það var því ámælisverð hótfyndni af hálfu almættisins að planta mér niður í Heiðarlundi, götu sem liggur að KA-vellinum, þegar ég flutti til Akureyrar frá Reykjavík ásamt foreldrum mínum fjögurra ára gamall. Ekki svo að skilja að þau væru mikið að velta þessu fyrir sér; mamma er Reykvíkingur og aldrei hefur komið fram með hvaða liði hún heldur, og pabbi frá Grund í Eyjafirði, þar sem menn binda sitt trúss við Árroðann, Framtíðina, UMSE-b og þá klúbba fremur en KA og Þór.

Einar Sveinbjörnsson í búningi Þórs, lengst til hægri, Anders Hansen, Bjarni Sveinbjörnson, KA-veifa (þó ekki sú sem Anders gaf Orra frænda sínum – hún finnst ekki!) og malbikið við Lundarskóla ...

Þarna var ég ekki, alltént ekki svo ég áttaði mig á, búinn að uppgötva minn innri Þórsara en fór samt, þvert á spár helstu veðbanka, að halda með Þór þarna í Heiðarlundinum. Þökk sé fyrsta leikfélaga mínum fyrir norðan, Heiðari Einarssyni, sem bjó í sömu raðhúsalengju, Heiðarlundi 1, en faðir hans, Einar Sveinbjörnsson, lék með þeim rauðhvítu á þessum tíma, eins og yngri bróðir hans, Bjarni, gerði síðar. Þeir voru úr Vestmannaeyjum en hafði skolað á land í gosinu.

Mér er ógleymanleg ferð með Heiðari og móður hans, Þóreyju Sveinsdóttur, í Þorpið að sjá Einar leika með Þór á malarvellinum sáluga. Ætli ég hafi ekki verið fimm ára. Aðra eins kappa hafði ég ekki í annan tíma augum litið, haugdrulluga upp fyrir haus að leik loknum, og hlakkaði til fleiri kappleikja þarna handan Glerárinnar. Gat satt best að segja ekki beðið.

Síðan byrjaði ég í núll bekk. Það var að sjálfsögðu í Lundarskóla og ég lenti í bekk með tómum KA-mönnum, skiljanlega. Þeirra á meðal voru Halldór Sveinn Kristinsson, Dóri stóri, sem síðar varð Íslandsmeistari með KA í knattspyrnu; Jóhannes Baldursson, síðar bankamaður og fjárfestir, og Viðar Einarsson, sonur Einars Pálssonar gleraugnasala. Þeir ráku upp stór augu þegar ég játaði fyrir þeim að ég væri Þórsari og efndu strax til neyðarfundar og settu í brýnnar. Ég gæti ekki haldið með Þór, búandi í Heiðarlundi og verandi í Lundarskóla. „Hér halda allir með KA, lagsi!“

Bekkjar- og boltafélagar Orra Páls í Lundarskóla: Atli Örvarsson, Halldór Sveinn Kristinsson, Sævar Hreiðarsson, Skafti Ingimarsson og Tómas Hermannsson. Stærsta myndin er fengin að láni af heimasíðu KA. Þarna er unnið að gerð malarvallar félagsins. Undir myndinni stendur, á vef KA: „Samúel Jóhannsson, markvörður í Þór stjórnar hér gröfu þar sem grafið er fyrir drenlögnum.

Gott ef þeir skerptu ekki á máli sínu með því að leika undir vel valda slagara með glysgoðunum í Kiss. Gríðarlegir Kiss-menn þarna á ferðinni.

Eftir þann fund var ég orðinn KA-maður.

Ég meina, pabbi hans Dóra var lögga og svo vissi maður aldrei hvenær maður þyrfti á gleraugum að halda, nú eða ráðgjöf varðandi bankamál eða fjárfestingar. Þess utan var ég auðvitað hálfsmeykur við þessa grímuklæddu menn í Kiss.

Hófst nú eyðimerkurgangan og mesta niðurlægingarskeið lífs míns!

Nei, nei, auðvitað var það ekki þannig. Broskall! Góður Þórsari brennir bara aldrei af dauðafæri til að hrekkja KA-menn!

Ég man ekki hvað Heiðar sagði við þessum sinnaskiptum en við lentum ekki í sömu stofu í skólanum. Ugglaust hefur honum ekki verið skemmt. Hann flutti síðar til Danmerkur og ólst þar upp að hluta. Veit samt ekki hvort það tengdist þessu máli.

Hins vegar man ég að Anders Hansen frændi minn fagnaði þessu ógurlega og gaf mér ægifagra útsaumaða KA-veifu sem mér var gert að hengja upp á vegg í herberginu mínu. Menn vönduðu til svona varnings á þessum árum.

Við strákarnir lékum knattspyrnu öllum stundum, á hinum og þessum grasbölum á sumrin en á malbikinu við Lundarskóla á veturna. Af einhverjum ástæðum byrjaði ég þó aldrei formlega að æfa með KA. Mig langar að segja ykkur að þar hafi samviskan stigið inn í atburðarásina en ætli aðalskýringin hafi ekki verið sú að ég var mikið hjá ömmu og afa í Reykjavík á sumrin á þessum árum.

Leikar standa sem hæst á malarvelli Þórs seint á áttunda áratugnum og við upphaf þess níunda. Á neðri myndinni eigast við Þórsarar og KA-menn, Elmar Geirsson, fyrirliði KA, liggur í valnum i vítateig Þórs.

Níu ára gamall flutti ég svo í Þorpið, með stuttri viðkomu í Þórunnarstræti og frammi á Grund, nánar tiltekið í Smárahlíðina, sem er beint á ská fyrir ofan Þórsvöllinn. Mætti þá ætla að ég hefði verið læknaður.

En, nei. Ég var áfram KA-maður. Um stund.

Aðalskýringin er líklega sú að ég fór ekki í Glerárskóla, heldur Þelamerkurskóla, en pabbi fór að kenna þar haustið 1980 og vildi hafi strákinn með sér. Í þeim góða skóla voru menn hvorki uppteknir af KA né Þór, heldur hverfðist allt um ensku knattspyrnuna og ástríðan mikil. Satt best að segja gríðarleg.

Meira um það í næsta blóti.

Sumarið 1982, þegar ég varð 11 ára, sá ég fram á að verða að mestu heima á Akureyri og þá kom ekki annað til greina en að hefja formlegar æfingar, dagurinn fór hvort eð er allur í fótbolta. Og í stað þess að rúlla mér niður stallana á Þórsvöllinn hjólaði ég eða tók strætó upp á Brekku til að æfa með KA, ýmist á KA-vellinum eða Menntaskólavellinum sem þá var og hét.

Hitti þar fyrir ágæta menn. Dóri stóri og Jói Bald voru þarna en einnig Tómas Hermannsson, sem síðar varð útgefandi minn, Skafti Ingimarsson, nú doktor í sagnfræði, Atli Örvarsson tónskáld og Sævar Hreiðarsson, holdi klætt alfræðirit um knattspyrnu og um tíma höfundur og útgefandi sparkmiðilsins Tólf réttir (sem gárungarnir kölluðu raunar Tólfréttir), svo einhverjir séu nefndir. Þarna var líka slatti af tvíburum; Bjössi og Stebbi og Kikkó og Rúnar. Frjósamt lið þarna á Brekkunni.

Þjálfari var Tómas Lárus Vilbergsson sem síðar varð leikfimiskennari minn í Glerárskóla.

Þórssvæðið í Glerárhverfi um þær mundir sem Orri Páll fjallar um í pistli dagsins. Rauður hringur dreginn um malarvöllinn.

Ég byrjaði í C-liðinu en vann mig upp í B-liðið sem var mikill áfangasigur. Annars voru leikirnir ekki margir á þessum árum, nær eingöngu glímt við Þórsara, á vor-, sumar- og haustmóti. Á heildina litið var þetta bara skemmtilegt sumar.

Sumarið eftir varð á hinn bóginn endasleppt enda fór ég þá til mánaðarlangrar dvalar hjá Stínu móðursystur minni í Smálöndunum í Svíþjóð, steinsnar frá Kattholti. Lítið varð því um æfingar hjá KA.

Þá um haustið byrjaði ég í Glerárskóla enda pabbi hættur að kenna á Þelamörk. Þar var ekki nokkurn KA-mann að sjá, nema mig, og ég aftur orðinn skrýtni strákurinn í bekknum. Það var auðvitað tóm þvæla. Ekki leið því á löngu þar til ég sneri heim á ný, fyrir fullt og fast, hóf æfingar með Þór, fleygði veifunni frá Anders og sleit með lögformlegum hætti á öll tengsl við KA. Eftir sex ár í myrkrinu.

Enda er ég fæddur Þórsari. Og mun deyja sem slíkur.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Hljóp á eftir fiskinum

Orri Páll Ormarsson skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hvað er þetta budduský?

Orri Páll Ormarsson skrifar
15. nóvember 2024 | kl. 10:30

Kenndi fyrir framan annan kennara

Orri Páll Ormarsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 12:30