Fara í efni
Kristín Aðalsteinsdóttir

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Ég er að velta fyrir mér af hverju við heyrum hvað eftir annað vísbendingar um að börn og unglingar lesi lítið. Ástæðnanna getur verið að leita í hegðun okkar fullorðna fólksins en einnig er augljóst að barnabókum er ekki gert eins hátt undir höfði og bókum fyrir fullorðna, hvorki í auglýsingum né í verslunum. Það virðist ekki vera fullur skilningur á mikilvægi bóka fyrir börn og unglinga. Ef þetta er rétt er það grafalvarlegt mál, lestur er mikilvæg undirstaða alls náms.

Lítil börn sýna fljótt mikinn áhuga á bókum. Lestrarstundir með pabba, mömmu, systkinum, afa eða ömmu geta því hafist snemma. Slíkar stundir hafa gríðarlegt gildi fyrir þroska barna. Því þarf að ákveða að eiga fastar stundir til lesturs og ekki síst að lesa upphátt saman. Þessar stundir geta haft mikil áhrif á viðhorf barna til bóka og lestrar og aukið líkurnar á að þau njóti þess að lesa síðar í lífinu.

Það hefur margvíslegt annað gildi að lesa upphátt. Sá sem les getur sagt frá, útskýrt og kennt, spurt, borið saman og tekið saman aðalatriði. Pabbi, mamma eða annar sem les með barni getur hvatt það til að segja frá því sem lesið er, spurt og hlustað. Í slíkum samskiptum eykst skilningur barnsins, það fær tilfinningu fyrir málinu og getur átt auðveldara með ritun. Við erum einfaldlega að búa barnið undir betra líf.

Það skiptir líka máli að lifa sig inn í söguþráðinn eða frásögnina. Við það fá börn tækifæri til að setja sig í spor annarra, virkja ímyndunaraflið og þroska skilning sinn á samfélaginu. Ef ein bók er lesin á viku verða bækurnar 52 á einu ári. Það sjá flestir í hendi sér öll tækifærin, námið, gleðina og samveruna sem stund með bók og barni getur gefið eða hvað?

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00