Borð og stólar upp kirkjutröppurnar

Ég útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands þegar ég var tvítug en hins vegar var það í skátastarfinu, sem ég lærði að kenna. Það er önnur saga. Hvað sem öðru líður þá stefndi ég strax á að gerast kennari á Akureyri, þar sem ég hafði unnið sumarið 1964. Ég sá Akureyri í ljósrauðum bjarma. Við Sigrún vinkona mín pökkuðum dótinu okkar og pöntuðum far norður með flutningabíl. Ég átti nefnilega skrifborð, rúm, borðstofuborð og sex stóla.
Búslóðinni var hlaðið í flutningabílinn og við Sigrún settumst fram í hjá bílstjóranum. Þegar komið var á Blönduós hitti bílstjórinn vini sína, aðra bílstjóra og þeir fóru á fyllerí. Við Sigrún vorum sannarlega eins og illa gerðir hlutir, þarna á gömlu hóteli. Við sváfum um nóttina í óhreinu herbergi með úlpurnar okkar yfir okkur, engan mat að fá eða önnur þægindi. En næsta dag komum við til Akureyrar.
Á Akureyri tók Tryggvi skólastjóri Barnaskóla Akureyrar og dásamlega Rakel konan hans á móti okkur. Hjá þeim bjó ég fyrstu tvær vikurnar en Sigrún hjá frænku sinni, eða þangað til við fengum íbúð í Holtagötu 4. En þá var komið að því að sækja innbúið mitt á flutningamiðstöðina. Hvernig færi ég að því?
Í Barnaskóla Akureyrar hafði ég tekið við tveimur bekkjum, 11 ára bekk með 32 nemendum sem ég kenndi fyrir hádegi og 7 ára bekk með 29 nemendum sem ég kenndi eftir hádegi. Samtals voru börnin þá 61 og ég smávaxin tvítug stelpa sem átti að kenna þessum fjölda barna.
Í 11 ára bekknum voru einir fjórir strákar sem voru tilbúnir til að hleypa einhverju fjöri af stað í bekknum, þeir voru í viðbragðstöðu en ég sá við þeim. Þeirra fyrsta verkefni skyldi verða að bera heimilisbúnaðinn minn frá flutningamiðstöðinni, upp kirkjutröppurnar og alla leið upp í Holtagötu 4. Þetta var dágóður spölur en þeir réðu við verkefnið. Þarna klöngruðust þessir 11 ára strákar upp allar kirkjutröppurnar og enn lengra, með borðstofuborð, sex stóla og grind af rúmi og enn fleira og þeir réðu við verkefnið. Hetjulega gert.
Þeir fengu heitt kakó og kringlur að launum, þeim var vel hælt, þeir stoppuðu lengi hjá okkur Sigrúnu og við skemmtum okkur vel. Eftir þetta erfiða verkefni og þessa stund okkar í Holtagötunni bar aldrei á því að einhver réði ekki við sjálfan sig þegar í bekkinn var komið.
Ég sé fyrstu árin mín í kennslu í dýrðarljóma. Ég hafði ekki um annað að hugsa en nemendur mína. Það trúa því fáir en sannleikurinn er sá, en ég varð aldrei vör við hegðunarvandamál á þessum árum. Aldrei. Eftir fyrsta foreldradaginn, þegar ég hafði rætt við fleiri en fimmtíu foreldra, var ég þreyttari en ég hafði áður orðið í lífinu. Allt var svo nýtt og framandi og ég bara stelpuskjáta og sennilega varla kennari í augum foreldranna. Hver veit?
Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri


Dýrtíð

Kári og Skúli

Formlegar og óformlegar núvitundaræfingar

Lúsaryksugan glókollur
