Lífsgæði

Nú ætlaði ég að velta fyrir mér af hverju fullorðið fólk hefur þörf fyrir að stunda nám, því um það efni skrifaði ég eitt sinn heila bók, en ég skipti um skoðun og ætla að tala um lífsgæði. Þannig er að Sameinuðu þjóðirnar mæla félags- og efnahagsstöðu þjóða: Mældar eru lífslíkur, meðal lengd skólagöngu, tekjur á einstakling og fleira. Ísland sat eitt sinn í efsta sæti á lista þjóða samkvæmt lífskjaravísitölu Sameinuðu þjóðanna (Human Development Index). Það var árið góða, 2007. Það sæti var fengið að láni.
Fyrir nokkru fékk ég bréf frá góðum vini mínum í Eritreu í Afríku sem sagði: „Ein dætranna minna á senn að ljúka grunnskólaprófi en núna þarf hún að gegna herþjónustu. Allir unglingar á hennar aldri þurfa að gegna herþjónustu. Ég hef áhyggjur af henni, hún er svo ung, bara 15 ára. Ég deili þessum áhyggjum mínum með þér.“
Áður hafði þessi sami vinur minn skrifað mér og sagt: „Varðandi spurningu þína um stöðu mála í Eritreu, þá var hún slæm en er núna enn verri. Enginn getur ímyndað sér hvernig hún er. Korn, sykur, sápa og annað er skammtað, brauð fæst ekki. Við höfum rafmagn þrjá tíma á dag, en við vitum aldrei hvenær það kemur. Þegar rafmagnið er á, þarf að elda, börnin að læra og gera allt sem krefst rafmagns. Mér þætti vænt um ef þú gætir sent okkur ljós með rafhlöðum, það myndi auðvelda heimalærdóm dætra okkar. Það er líka vandamál hve sjaldan internetið er virkt, oft aðeins einu sinni í mánuði eins og núna og tefur mjög alla vinnu og samskipti. Ég segi það satt að hér er engin von, hvorki fyrir þá sem eldri eru né þá yngri.“
Með berum augum sést munurinn á lífsgæðum Íslands og Eritreu á bílaeign, húsnæði, rafmagni, flatskjám, skólum, sjúkrahúsum, skófatnaði, tísku, ferðum til útlanda og ekki síst óánægju og röfli um eign hag. Við hikum ekki við að kaupa kaffibolla fyrir 800 krónur, sem geta verið fimm daga meðaltekjur fólks í Eritreu.
Eritrea er lítið ríki sem liggur við Rauðahafið, norðan Eþíópíu. Árið 1993 fékk landið sjálfstæði og forseti var kosinn (Isaias Afewerki). Árið 1997 áttu að vera forsetakosningar en þær urðu aldrei. Í dag er einungis einn flokkur leyfður í landinu og stjórnarskránni sem gerð var 1998 hefur aldrei verið komið á. Í landinu er hvorki málfrelsi né ferðafrelsi og nánast allt fólk á aldrinum 16-60 ára gegnir herþjónustu sem lamar allt efnahagslíf og er því í frjálsu falli. Ungt fólk flýr landið með skelfilegum áhrifum. Í þessu fátæka landi er rafmagnsleysi, lyfjaskortur, næringarskortur, þreyta, óhreint vatn, erfiðisvinna, lélegar skólabyggingar, engin eða aum hreinlætisaðstaða, biluð tæki, tómar hillum í búðum, eldiviðarskortur.
Sárafátækt fólk hefur ekki ráð á grundvallar nauðsynjum til að tryggja afkomu sína. Miðlungsfátækir geta rétt sem svo mætt grundvallarþörfum fjölskyldunnar en verða að neita sér um menntun barna sinna og heilsugæslu.
Í lokasenu Monty Python myndarinnar, The Meaning of Life er spurningunni um tilgang lífsins svarað þannig (Micheal Palin): „Reynum að vera almennileg við fólk, forðumst að éta fitu, lesum góða bók annað slagið, förum út að ganga og reynum að lifa í sátt og samlyndi við allt fólk, óháð þjóðerni og trúarskoðunum.“ Við hlæjum að svona hversdagslegum svörum, því við viljum heimspekileg svör um tilgang lífsins og skoðanir.
Hugtakið „lífsgæði“ hefur verið umhugsunarefni manna frá örófi alda, ekki síst heimspekinga og sálfræðinga á seinni árum. Þegar Alþjóða heilbrigðismálastofnunin setti fram skilgreiningu á heilbrigði árið 1948 var hugtakið lífsgæði tengt heilsu fólks. Heilsutengdum lífsgæðum er ætlað að fjalla um almenna heilsu, líkamlega og andlega þætti, tilfinningalíf, vitræna þætti, hlutverk og félagsfærni. Hugtakið „lífsgæði“ tengist hamingju, vellíðan og lífsfyllingu.
Það er þekkt að þegar framleiðsla eykst í fátækum ríkjum, þá aukast lífsgæði gríðarlega hratt. Með aukinni framleiðslu í fátækum ríkjum batnar húsnæði, sífellt færri skortir mat, heilbrigðis- og menntakerfi byggjast upp, samgöngur batna, samskipti aukast, hreinlæti eykst og ýmis konar þjónusta býðst sem áður var ekki aðgengileg. Enn einn mælikvarðinn er sá að meðalaldur hækkar mjög hratt, jafnvel úr 40 árum í 80 ár á mjög stuttum tíma. Þannig var þróunin á Vesturlöndum frá iðnbyltingu og fram undir seinni hluta 20. aldar. En þegar ákveðnu stigi í framleiðslu er náð dregur verulega úr áhrifum sífellt aukinnar framleiðslu, það er að segja hagvaxtar og aukins kaupmáttar á lífsgæði og hamingju. Rannsóknir hafa sýnt að aukinn hagvöxtur, framleiðsla, neysla og kaupmáttur eykur ekki lífsgæði almennings eða hamingju með sama móti og var á fyrri hluta 20. aldar. Þetta má hljóma undarlega í eyrum margra. Hins vegar sýna rannsóknir fram á mjög sterk tengsl á milli ójöfnuðar og ýmissa heilsufarsvandamála. Í löndum með meiri ójöfnuð, þar sem tekjubilið er breiðara, eru að jafnaði meiri félagsleg og heilsufarsleg vandamál. Ójöfnuður hefur sterk tengsl við þætti eins og: Meðalaldur, lestrar- og stærðfræðikunnáttu, barnadauða, tíðni morða, fangelsun, þunganir unglingsstúlkna, traust í samfélaginu, offitu, geðsjúkdóma, neyslu vímuefna, félagslegan hreyfanleika.
Allir þessir þættir hafa áhrif á lífsgæði og hamingju. Ójöfnuður snýr ekki bara að skiptingu efnislegra gæða og auðs, skipting félagslegra gæða skiptir miklu máli, þau hafa líkamleg, félagsleg og andleg áhrif á fólk.
Að lokum langar mig að segja frá því að eftir dvöl mína í Eritreu fyrir um tíu árum leitaði ég til vina minna og fjölskyldu um fjárstuðning fyrir skólann sem ég kenndi við um stund. Alls söfnuðust þá rúmar þrjár milljónir íslenskra króna sem notaðar voru m.a. til að koma upp klósettum fyrir drengi skólans en áður höfðu þeir ekki aðgang að slíku. Drengirnir þurftu að gera þarfir sínar úti í guðs grænni náttúrunni.
Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri


Fíkn og viðhorf

Hús dagsins: Aðalstræti 66; Indriðahús

Selur í eldhúsvaski

Erum við kjánar?
