Fara í efni
Kristín Aðalsteinsdóttir

Amma Kristín

Það er ný staða í lífi mínu að þurfa að setjast niður tvisvar í mánuði og hugleiða fyrir hann Skapta Hallgrímsson. Ég neyðist einfaldlega til að hugsa, helst eitthvað af viti, ég get ekki boðið honum tómt rugl. En það er vandinn. Nú sé ég til hvað gerist og byrja. Ég finn að hugurinn leitar fyrst og fremst til bernskunnar, sem var að miklu leyti góð en líka mjög erfið. Í dag ætla ég að leita í góðu minningarnar og hvað gerist þá. Jú, ég fer að hugsa til hennar Kristínar ömmu minnar.

Hún amma Kristín var ein tólf systkina. Ekkert sagði hún mér oftar en hve erfitt henni fannst að vera send níu ára gömul á bæ í Öxarfirði og vinna þar allan daginn. Hún var svo þreytt, hún saknaði svo mömmu sinnar og systranna. Ég minnist ömmu fyrst og fremst sem sterkrar og merkilegrar konu, sem mér þótti mjög vænt um, okkur þótti öllum mjög vænt um hana ömmu. Af hverju? Ég held að það hafi kannski verið vegna þess að þegar við komum til ömmu þá sinnti hún okkur á þann veg að okkur fannst að enginn skipti hana máli nema við sem hjá henni vorum hverju sinni. Þannig kom hún fram við hvert og eitt okkar og hún sinnti okkur öllum. Hún hafði alltaf tíma fyrir okkur. Hún hafði líka tíma fyrir aðra en okkur, barnabörnin, jafnvel líka vini okkar. Einn vinur minn heimsótti ömmu þegar hún bjó á Húsavík. Þau gátu ekki talað saman, því hann talaði ekki íslensku og hún gat ekki talað hans tungumál. Amma gaf honum íslenska kjötsúpu og honum fannst hann vera að borða mat sem mamma hans var vön að elda og amma leysti hann út með heimaprjónuðum sokkum. Honum fannst hann vera hjá sinni eigin ömmu og sagði að þau hefðu skilið hvert annað.

Hún amma fæddist á Gilsbakka í Öxarfirði árið 1906, sjöunda í röð tólf barna þeirra Sigurlaugar og Sigvalda. Skólaganga hennar stóð í nokkrar vikur. Hún sagði mér oft frá því hvað hún þráði að fá að vera lengur í skóla, því hún sagðist hafa notið þess að læra. Hún var átta ára þegar hún var send í vist, hún var „lánuð á bæ,“ eins og það var kallað, eingöngu til að vinna, ekki til að skoppa um tún og engi í leik við önnur börn, nei til að vinna. Hún sagði mér oft frá því hvað vinnan var erfið, hakkavélin þung og skilvindan stór þegar hún var að berjast við að hreinsa þessi tæki. Hún var lítið heima hjá sér á Gilsbakka eftir átta ára aldur, hún var send á bæi til að vinna. Hún var í vist hjá góðum hjónum á Akureyri þegar hún var 16 ára og fannst hún læra þar margt. En 18 ára gerðist hún vinnukona hjá bóndanum í Svínadal, Páli Jónssyni. Þorbjörg konan hans, Hallgrímsdóttir hafði nokkrum árum áður látist frá 10 börnum, þremur nýfæddum. Ég hugsa mjög oft til þessara aðstæðna og til forfeðra minna, Páls og Þorbjargar í Svínadal.

Amma giftist tvítug, elsta syni Páls 20. júlí 1926, honum afa Jóni og þau bjuggu í Svínadal í tíu ár. Við eigum erfitt með að skilja lífsbaráttuna á heiðarbýlinu Svínadal og höldum að átökin við náttúruna hafi verið hörð. Eitt sinn þegar gríðarleg stórhríð var hér á Akureyri hringdi ég í ömmu og sagði. „Amma, það er í svona vitlausu veðri sem mér verður hugsað til þess hvernig þið lifðuð af á Svínadal.“ Það er eins og heyri rödd ömmu enn í dag þegar hún svaraði: „Það voru yndislegir tímar.“ Það var bjart yfir minningum ömmu frá Svínadal. Þótt lífið þar væri áreiðanlega ekki leikur einn voru afi og amma í raun ekki fátæk. Þau höfðu nægan mat, áreiðanlega mikið vegna þess að allt varð mikið í höndum ömmu. Amma naut þess að fást við mat, bjó til besta matinn fannst mér og var einstaklega útsjónarsöm.

Hún amma sagði mér stundum söguna af því hvað hún var stolt eitt vorið þegar ellefu erlendir ferðamenn komu í Svínadal ríðandi frá Mývatnssveit. Þetta var sennilega upp úr 1930 þegar aðeins var farið í kaupstað til að versla tvisvar á ári. Þegar þessi fjöldi ferðamanna reið í hlað á Svínadal, hafði síðast verið farið í búðarferð haustið áður. Þarna stóð amma á hlaðinu (sjáið hana ekki fyrir ykkur, hún var ekki orðin þrítug) og fyrir framan hana voru 10 enskir ferðamenn og íslenskur farastjóri sem spurðu hvort hægt væri að fá mat. Hún sagðist hafa verið svo stolt þegar hún sagði, „jú það er velkomið; hvort má bjóða ykkur heitan eða kaldan mat.“

Í Svínadal fæddust fjögur elstu börn afa og ömmu, Áslaug mamma mín, Sigvaldi, Páll og Eysteinn en Jóhann yngsti sonur þeirra fæddist eftir að þau fluttu í Þórunnarsel. Amma sagði mér að hún hefði ekki treyst sér til að búa svo langt frá byggð eftir að eitt barnið þeirra, Páll varð fyrir alvarlegu slysi í Svínadal.

Ég fæddist sjálf í Þórunnarseli og var þar öll sumar fram á unglingsár. Minningar mínar þaðan eru aðeins góðar. Það var raunverulega alltaf sól og sumar í Þórunnarseli, amma að baka eða elda eða að þvo þvott og afi úti við, honum féll aldrei verk úr hendi. Einstaka sinnum voru engir gestir. Þá var friðsælt í Þórunnarseli, Jóhann, yngsta barnið var fyrir austan veg í bílaleik með Tryggva bróður mínum eða við eldhúsborðið að teikna á hvert einasta blaðsnifsi sem fannst og ég vaskaði upp, þvoði gólf, dustaði mottur og straujaði þvott. Þetta voru góðir dagar. Jóhann slapp við þetta amstur minnir mig. Hann fékk að teikna. Afi var afar tónelskur og söng oft, hann var mikið snyrtimenni, listaskrifari, og sendi frá sér góð og skemmtileg sendibréf. Hann kenndi mér að bursta skó án þess að reimarnar yrðu svartar. Afi og amma bjuggu í Þórunnarseli fram yfir árið 1960 en þá fluttu þau til Reykjavíkur. Afi dó 1966. Amma bjó lengi í Reykjavík og vann ýmis störf. Hún var matráðskona á Flókadeildinni, deild frá Landspítala. Steikti kleinur og flatkökur og seldi kaupmanninum á horninu. Þegar amma var 73 ára fékk ég bréf frá henni þar sem hún segir: „Þú ert líklega búin að frétta að ég er farin að bera út blöð, byrjaði 3. nóvember, mér finnst leiðinlegt að þurfa að rukka fólk en mér finnst hressandi og gott að koma út klukkan 7 á morgnana, oft hefur verið logn og gott veður en hálkan er ógurleg.“

Á Reykjavíkurárunum fór amma að fara til útlanda, en ég man að hún sagði að það hefði hún nú aldrei getað ímyndað sér þegar hún bjó í Þórunnarseli að ætti eftir að henda hana. Amma flutti til Húsavíkur 1987 og bjó hjá Sigvalda syni sínum og Ástu konunni hans, sem önnuðust hana af mikilli umhyggju þegar hún þurfti á því að halda. Hún var ákveðin í að verða níræð, og það tókst henni. Hún amma lést skömmu eftir níræðis afmælið sitt.

Hvað var það í fari ömmu minnar sem gerði það að verkum að okkur leið vel hjá henni og af hverju hafði hún alltaf tíma, líka þegar hún var komin til Reykjavíkur og steikti kleinur alla daga og bakaði flatkökur, prjónaði, saumaði, fór á fundi og málaði? Getum við svarað því? Ég ætla ekki að svara því en legg til að við veltum því fyrir okkur.

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

Ólík erum við

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
11. apríl 2025 | kl. 08:00

Lífsgæði

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
28. mars 2025 | kl. 06:00

Tilviljanir

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
14. mars 2025 | kl. 06:00

Síðbuxur

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
28. febrúar 2025 | kl. 06:00

Borð og stólar upp kirkjutröppurnar

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 06:00

Vinnukona á Akureyri

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
31. janúar 2025 | kl. 06:00