Fara í efni
Kristín Aðalsteinsdóttir

Ólík erum við

Ég hef lofað honum Skapta Hallgrímssyni að setjast niður tvisvar í mánuði og segja frá hugsunum mínum. Ég er nokkuð ánægð með þessa ósk hans, það er nefnilega ágætt að þurfa að setjast niður og hugsa, jafnvel þó það sé um eitthvað nauða ómerkilegt. Ég ætlaði að setjast niður fyrr í dag en húsið hefur verið fullt af fólki og ekki næði. En núna er stund milli stríða og gott að setjast niður og velta einhverju fyrir sér.

Alla mína tíð sem kennari, bæði í grunnskólum og í háskólum, var ég bæði leynt og ljóst upptekin af námi barna og unglinga sem minna mega sín námslega. Ég lít svo á að ég hafi unnið að því markmiði af heilum hug. Ég kenndi börnum og kennurum, skrifaði greinar í tímarit og bækur og kenndi um hugmyndir sem vinna gegn flokkun nemenda eftir getu. Ég reyndi að vinna að því að nemendur fengju að njóta hæfileika sinna, hver á sinn hátt. Hver og einn getur svo sannanlega verið sterkur á einhverju sviði/sviðum og er hollast að fá að njóta getu sinnar. Það er ástæða til að muna það. Sem dæmi um slíkt nám í grunnskóla man ég eftir sjö ára dreng sem ekkert vildi gera í skólanum nema skoða kort af Íslandi. Blessunarlega fékk hann, dögum, vikum og mánuðum saman, að liggja yfir slíku korti. Hann lærði að lesa af kortinu (almennan lestur), hann lærði stærðfræði með því að leggja saman fjarlægðir, hæð fjalla og þess háttar. Hann lærði íslensku, landafræði, jarðfræði og sögu lands og sjávar. Hann bjó að lokum yfir afburða þekkingu um Ísland auk þess sem hann lærði að skrifa og reikna. Þessum dreng var kennt í samræmi við áhuga hans og getu og hann náði reyndar að yfirfæra þennan áhuga á önnur svið. Margir þekkja þennan mann sem eitt sinn var drengur. Ætli hann sé ekki bara samferða einhverjum sem þetta les, samferða um fjöll og firnindi yfir sumartímann. Þótt þetta sé óvenjulegt dæmi þá minnir það okkur á að hver og einn býr yfir getu sem mikilvægt er að þroska og hlúa að.

Ég þekki því miður alltof mörg dæmi þess að börn og fullorðnir hafi ekki fengið að njóta hæfni sinnar. Það hefur leitt til óhamingju af ýmsum toga, fólk sem ekki fær að njóta sín getur búið við mikla vanlíðan. Ég skýt því að svona í leiðinni, að ég held að meginástæða þess að ýmsir hafa lítið sjálfstraust liggi í því að fólk hefur ekki fengið að njóta hæfni sinnar, ekki í skóla, ekki í starfi, ekki heima fyrir og því verður það margt hvert bælt, biturt og vansælt. Aðrir búa hins vegar yfir margvíslegum hæfileikum og ná árangri á mörgum sviðum. Þú sem þetta lest ert hugsanlega einn/ein slíkra einstaklinga þótt þú viljir ekki láta kalla þig afburðamanneskju vegna þess að þú býrð yfir þroska og hógværð. Orðið afburðamanneskja er misvísandi því notkun þess getur leitt til aðdáunar sem er engum holl á hvorn veginn sem verða vill. Orðið hógværð lýsir hins vegar einum fallegasta eiginleika fólks.

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég bók um nám á fullorðinsárum en þar velti ég fyrir mér vilja fullorðins fólks til náms og verka og í því sambandi hugtakinu áhugahvöt (sem ég finn ekki í orðabók). Fræðimenn tala um að með hugtakinu áhugahvöt sé átt við þau viðhorf, þarfir, örvun, tilfinningar, hæfni og styrk sem drífa okkur áfram. Þessi vilji er þannig afleiðing hugsana okkar; við veltum fyrir okkur ákveðnu verki eða markmiði, sjáum kosti þess og galla. Þetta ferli er svipað hjá flestu fólki en mikill munur er á því hvernig áhugahvötin birtist; hve mikill kraftur eða tími er gefinn til að leggja mat á eigin hugsun og átta sig á sjónarmiðum. Ég þekki marga sem búa yfir þessum krafti sem birtist með ólíku móti.

Ég ætla að halda áfram að velta þessari hugsun fyrir mér. Hugtakið áhugahvöt er háð löngun fólks til að ná settu marki eða ljúka ákveðnu verki. Krafturinn að baki áhugahvötinni vaknar vegna þess að fólk finnur ákveðinn tilgang eða sér ástæðu til að stefna að ákveðnu markmiði eða verki, þ.e. áhugahvötin þróast eftir því sem ætlunarverkið mótast. Krafturinn leysist úr læðingi og beinist í ákveðnar áttir. Hann getur legið í dvala en hann getur líka fært fjöll. Þú sem þetta lest sérð margt fólk sem virðist finna þennan tilgang og setur þér markmið.

Áhugahvöt er ekki tilfinning í sjálfu sér heldur vitrænt ferli sem leiðir til rökhugsunar, vekur tilfinningar og getur leyst kraft úr læðingi. Áhugahvöt er vitrænt ferli, persónuleg skynjun, skilningur og mat sem háð er innsæi fólks en þó einnig tilfinningum að vissu marki. Fólk getur verið mjög berskjaldað gagnvart þessari hvöt; auðvelt getur verið að brjóta hana niður eða vanvirða en hún getur vaknað aftur, eflst og endurnýjast.

Víða í sálfræðirannsóknum er greint á milli innri og ytri ástæðna þess að áhugi vaknar. Þessi áhugi getur vaknað vegna eðlislægrar þarfar fyrir að eflast, þroskast eða læra. Hann getur líka vaknað vegna einhverrar umbunar sem er í sjónmáli, s.s. að vilja gera einhverjum til geðs, komast hjá refsingu, ná hærri einkunn eða fá hærri laun. Það virðist liggja í augum uppi að fólk nær betri árangri þegar innri áhugi er til staðar. Löngunin þjónar þá fólkinu sjálfu. Hún getur verið sterk þessi áhugahvöt.

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

Amma Kristín

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
25. apríl 2025 | kl. 06:00

Lífsgæði

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
28. mars 2025 | kl. 06:00

Tilviljanir

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
14. mars 2025 | kl. 06:00

Síðbuxur

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
28. febrúar 2025 | kl. 06:00

Borð og stólar upp kirkjutröppurnar

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 06:00

Vinnukona á Akureyri

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
31. janúar 2025 | kl. 06:00