Fara í efni
Kristín Aðalsteinsdóttir

Einmana

Ég held að það sé rétt skilið að í gegnum árin hafi ég verið trúnaðarvinkona nokkurra vina minna, ekki síst karla sem hér líta við annað slagið. Þeir hafa sagt frá einu og öðru og verið skemmtilegir en stundum daprir. Já, einstaka sinnum bjátar á, þá er gott að geta leyst frá skjóðunni eins og við vitum flest og ég hef gefið ráð sem er auðvitað vita gagnslaust. Hef lagt þann sið nánast á hilluna. Svo gerðist það hér fyrir stuttu að einn vina minna leit hér við. Hann fékk kaffi og eitthvað nýbakað. Og viti menn, hann var varla sestur þegar hann trúði mér fyrir því að hann væri ósáttur við tilveruna, aðallega þó hve leiðinlegt það er að búa einn á þessum efri árum. Hann vantar einhvern til að tala við, deila hugsunum, gleði líðandi dags og hann spurði hvað hann gæti gert. Þetta kom mér svolítið á óvart, því maðurinn er ræðinn, vel lesinn og skemmtilegur, en auðvitað byrjaði ég á að spyrja hann hvað honum fyndist hann geta gert sjálfur. Honum datt ekki margt í hug en mér fannst margt koma til greina.

Ég spurði hann hvort hann treysti sér til tala minna um sig sjálfan og hvort hann treysti sér til að setja sig í spor annarra, sem hann ætti samskipti við. Mér fyndist líka ástæða til að hann hressti aðeins upp á íbúðina sína. Hún þyrfti að vera hlýlegri. Hann rauk ekki á dyr, heldur horfði á mig og spurði. Tala ég mikið um mig sjálfan? Já, þú gerir það, og það gera mjög margir, sem getur verið mjög leiðigjarnt til lengdar.

Ég segi ykkur síðar hvort ráð mín hafi dugað.

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00