Fara í efni
Kristín Aðalsteinsdóttir

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Í janúar, eitt árið, vék ég mér að ungum manni í mötuneyti Háskólans á Akureyri. Mér virtist hann vera frá Afríku eða öðrum suðrænum ströndum og mig langaði að heyra eitthvað af lífi hans. Við spjölluðum saman og ég bauð honum næsta dag hingað heim til okkar í mat. Hann var svolítið hissa en sagði að enginn hefði yrt á hann að fyrra bragði (nema nokkrir kennarar skólans), síðan hann kom til landsins í ágúst árið á undan. Í nærri fimm mánuði hafði enginn Íslendingur aðrir en örfáir kennarar yrt á þennan elskulega pilt að fyrra bragði.

Árið 1987 flutti ég til námsdvalar til Bristol í Bretlandi með börnin mín þrjú. Það var ákveðið átak og að mörgu að hyggja; að koma okkur fyrir í húsnæðinu, fylgja sonum mínum í skóla, læra á strætisvagna, sækja um alls konar leyfi og umsóknir, hefja strangt nám og fleira og fleira.

Þegar ég hafði verið í borginni í tvær vikur var bankað. Fyrir utan stóð elskuleg kona sem sagðist heita Hazel Perry. Hún sagðist hafa tekið eftir því að ég væri ein með börnunum. Hún sagðist hafa búið erlendis og vita hvað það gæti verið erfitt, sérstaklega í byrjun og sagði: „Ef það er eitthvað sem ég get gert fyrir þig, þá er það velkomið, ég fer t.d. alltaf í verslunina á miðvikudögum á bíl en ég sé að þú hefur ekki bíl.“ Nokkrum dögum síðar kom hún til mín með litla bók með ýmsum handhægum upplýsingum um læknaþjónustu, leikhús, opnunartíma á ýmsum stöðum og fleira.

Viðmót, umhyggja og elskulegheit Hazel skiptu mig gríðarlega miklu máli og hafa ekki síst orðið til þess að ég velti því stundum fyrir mér hvernig við komum fram við fólk sem flytur hingað og hvernig því líður.

Kristín Aðalsteinsdóttir var prófessor við Háskólann á Akureyri

„Pabbi lestu fyrir mig“ – „Mamma lestu með mér“

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
01. desember 2024 | kl. 10:00