Fara í efni
KA/Þór

Safna fyrir nýjum troðara í Kjarnaskóg

Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga og „Gamli rauður“.

Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur lagt mikinn metnað í að þjóna útivistarfólki sem sækir Kjarnaskóg, eins og mörgum er kunnugt, ekki síst þeim sem njóta þess að ganga eða skokka um skóginn og gönguskíðagörpum sem feta í spor Gamla rauðs.

Nú er svo komið að snjótroðari Skógræktarfélagsins, Gamli rauður, nálgast eftirlaunaaldur og forráðamenn félagsins hafa hrundið af stað söfnun til þess að geta keypt nýjan. Sá gamli annar orðið illa hlutverki sínu, segja þeir.

„Við finnum að fólk er ánægt með vetrarþjónustuna og sístækkandi hópur notar göngustíga og skíðaspor í skóginum. Snjótroðarinn, ríflega 40 ára gamall, hefur þjónað okkur vel en er nú kominn á lokametrana og er aðeins tímaspursmál hvenær hann setur sitt síðasta spor í Kjarnaskóg,“ segir á Facebook síðu félagsins í dag.

Nýr troðari kostar 35 milljónir og forkólfar Skógræktarfélagsins gefa sér eitt ár í verkefnið.

Sérstakur söfnunarreikningur hefur verið stofnaður í nafni félagsins. Nánari upplýsingar hér