Fara í efni
Umræðan

Útvistun kjarasamninga

Sveitarfélög tóku yfir rekstur grunnskóla af ríkinu árið 1996, fyrir rétt tæpum þrjátíu árum. Skiptar skoðanir voru með yfirfærsluna á sínum tíma bæði meðal sveitarstjórnarfólks og innan kennarastéttarinnar og skiptar skoðanir eru í dag á því hvort og þá hver árangur af því varð.

Ein megin röksemd sveitarstjórnarfólks fyrir yfirfærslunni var að auðveldara yrði fyrir sveitarstjórnir að halda uppi metnaðarfullu skólastarfi en hægt væri að gera undir hatti ríkisins, nálægð þeirra yrði meiri við skólastarfið, samstarf við skólafólk auðveldara og boðleiðir styttri.

Of mikil nálægð?

Það er ahyglisvert að skoða þessa röksemdarfærslu í ljósi þeirrar stöðu sem er í skólum landsins þess dagana, þegar hörð kjaradeila á sér stað milli kennara og sveitarfélaga eða réttara sagt kennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nýlega sá Akureyrarbær ástæðu til að vekja athygli á því á heimasíðu bæjarins að Akureyrarbæ, bæjarfulltrúum og stjórnendum, væri óheimilt að hlutast með nokkrum hætti til um kjarasamninga við kennara, sem þó er að öllum líkindum einn stærsti launaþegahópur Akureyrarbæjar. Var í því sambandi vísað til samnings milli bæjarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem skýrt kemur fram að Akureyrarbæ er „... ekki heimilt að hafa afskipti af kjarasamningsgerð“ og að bærinn „... skuldbindur sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum ...“

Með öðrum orðum; Akureyrarbær útvistaði með þessum samningi gerð kjarasamninga við einn stærsta launþegahóp sveitarfélagsins og skuldbatt sig að auki til að hafa ekki afskipti af gerð kjarasamninga, heldur mun Samband íslenskra sveitarfélaga sjá um þau mál frá upphafi til loka. Þetta þýðir sömuleiðis að Akureyrarbær tekur ekki sem slíkur afstöðu til gerðra kjarasamninga, heldur skuldbinda bæjarfulltrúar sig til að hlíta ákvörðunum Sambands íslenskra sveitarfélaga í þeim efnum.

Þessi samningur nær að sjálfsögðu til kjarasaminga við allt starfsfólk bæjarins, kennara sem og aðra, Samband íslenskra sveitarfélag sér um alla samningagerð og bænum ber að hlíta niðurstöðunni. Flest sveitarfélög á landinu hafa sömuleiðis gert sambærilega samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Hlutverk sveitarstjórna

Í sveitarstjórnarlögum er fjallað ítarlega um hlutverk sveitarstjórna og sömuleiðis kveðið á um að Samband íslenskra sveitarfélaga sé sameiginlegur málsvari sveitarfélaga í landinu sem þeim er frjálst að eiga aðild að. Það kemur sömuleiðis skýrt fram í lögunum að sambandið teljist ekki vera stjórnvald.

Það má skilja þau rök sem liggja að baki því að sveitarfélög vilji ekki semja beint við starfsfólk sitt og að þau kjósi að vera í samfloti með öðrum sveitarfélögum á þeim vettvangi. En það má líka setja spurningarmerki við það hvort of langt sé gengið hjá stóru sveitarfélagi eins og Akureyrarbæ að afsala sér allri ákvarðanatöku í svo stóru máli og víkja sér þannig beinlínis undan afskiptum um svo mikilvægan þátt í skólastarfi sem kjör og starfsumhverfi kennara og nemenda eru hverju sinni.

Það getur auðvitað verið erfitt fyrir bæjarfulltrúa að semja beint við starfsfólk bæjarins, augliti til auglitis, en það á líka við um margt annað sem þeir hafa boðið sig fram til að gera. Það má sömuleiðis færa fyrir því rök að þá sé mikill undansláttur af hálfu bæjarfulltrúa að vísa gerð kjarasamninga algjörlega frá sér og þá þannig að þeir skuldbindi sig til að hafa engin afskipti af gerð kjarasamninga við starfsfólk bæjarins og hlíta frekar skilyrðislaust niðurstöðu þriðja aðila.

Tækifæri til að gera betur

Ég efast ekki um að bænum sé heimilt að útvista gerð kjarasamninga til Sambands íslenskra sveitarfélaga en slík ákvörðunartaka þarf að mínu mati að vera gagnsæ, vel rökstudd og tekin fyrst og síðast með hagsmuni starfsfólks bæjarins í huga, kennara í þessu tilfelli og velferð nemenda sömuleiðis. Það færi vel á því að bæjarfulltrúar ræddu það í alvöru að létta á skuldbindingum sínum við Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi gerð kjarasamninga og opnuðu þannig fyrir að geta gert betur við starfsfólk sitt en önnur sveitarfélög gera. Það er örugglega svigrúm til þess á ýmsum sviðum.

Björn Valur Gíslason er skipstjóri

Töfrar tónlistar

Þórarinn Stefánsson skrifar
21. febrúar 2025 | kl. 10:30

Verði stórveldi með eigin her

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
20. febrúar 2025 | kl. 10:00

Yfirgripsmikið þekkingarleysi

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar
18. febrúar 2025 | kl. 22:00

Ferðasjóður ÍSÍ hefur rýrnað frá árinu 2019

Heimir Örn Árnason skrifar
18. febrúar 2025 | kl. 13:30

Ó­sann­gjörn byrði á lands­byggðar­fólk

Ingibjörg Isaksen skrifar
17. febrúar 2025 | kl. 10:00

Takk Þór! Áfram fótboltaforeldrar

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir skrifar
14. febrúar 2025 | kl. 07:00