Fara í efni
Umræðan

Traust

Fræðsla til forvarna - XXXVII

Traust er dæmi um hvað tilfinningar hafa mikil áhrif á lífið á jörðunni. Tilfinningin að geta treyst eða finna að maður njóti trausts er sennilega ekki minna mikilvægt afl en ást eða hatur. Jafnvel álíka mikilvægt mannkyninu og aðdráttarafl jarðarinnar.

Til staðar þarf að vera bæði veitandi og viðtakandi. Við getum ekki reiknað með, pantað eða beðið um traust. Við þurfum að ávinna okkur traustið. Þú ávinnur þér traust mitt og ég treysti þér.
 
Og við þurfum að læra að treysta. Átta okkur á hvort tilfinning okkar sé rétt og hvort hann eða hún sé traustsins verð. Tilfinningin byggir á mati sem stundum er okkur meðvitað og stundum ekki. Grundvallað á fyrri reynslu eða eðlishvöt.
 
Flestir eru sammála um að það taki oftast nokkurn tíma að ávinna sér traust hvort sem það er í stjórnmálum eða samböndum en að maður geti glatað trausti með skjótum hætti.
 
Það er sársaukafullt að þurfa að horfast í augu við að maður getur ekki lengur treyst öðrum, að hann sé ekki traustsins verður eða að tilfinning okkar eða mat hafi verið rangt. Og það er líka til vandræða fyrir þann sem finnur að hann er rúinn trausti.
 
Í mannhafinu eru sumir fljótir að treysta, jafnvel um of fljótir. Eru viðkvæmir eða ósjálfstæðir og því í ríkari þörf fyrir að hafa einhvern til að treysta á. Jafnvel í blindni. En svo er annars konar manngerð sem líður betur með að treysta á sjálfan sig. Vita alltaf best. Ef við horfum í kringum okkur sjáum við að öfgarnar í þessu skapa vanda. Í sumum alvarlegri geðsjúkdómum og fíkn hverfur hæfileikinn til að treysta og því fylgir svo mikil skerðing að það er varla hægt að lifa við hana. Það sjúklega og sjaldgæfa ástand köllum við geðlæknar aðsóknarranghugmyndir (Paranoid Delusions).
 
Við erum í ríkri þörf fyrir að geta treyst. Það er grunnþörf í mennskunni. Það eykur nauðsynlega öryggiskennd okkar og gerir okkur fært að lifa áfram.
 
Við þurfum að geta treyst hvert öðru. Í vinahópnum, fjölskyldunni, í viðskiptum stjórnmálum og samfélaginu. Samningar, sáttmálar og stjórnmál byggja á trausti. Þeir sem ráða og stjórna þurfa að njóta trausts. Einræði og stríð er rof á trausti. Trúin er dýrmætt traust á æðri mátt þegar allt annað bregst.
 
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Uppbygging Akureyrarflugvallar hefur aukið lífsgæði íbúa

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:10

Heimur á villigötum

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 22:00

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
21. nóvember 2024 | kl. 10:00

Akureyrarbær stendur við sitt

Ásthildur Sturludóttir skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 15:45

Lægri fjármagnskostnaður, er krónan góð fyrir landsbyggðirnar?

Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 10:00

Örugg skref um allt land

Logi Einarsson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 06:00