Fara í efni
Umræðan

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Geðheilbrigðisþjónustan 1
 
SKIPULAG, SAMVINNA OG STJÓRNUN
 
Skipulag almennrar geðheilbrigðisþjónustu er veitt á þrenns konar starfsstöðvum: 
 
1. Heilsugæslustöðvar
Langflestir sjúklinga með algenga geðsjúkdóma eins og kvíðasjúkdóma, sjúklegt þunglyndi, kulnun, svefnraskanir, fíkn og einbeitingartruflanir fá þjónustu á heilsugæslustöðvunum hvort sem það er skimun, greining, meðferð, fræðsla eða eftirlit og eftirfylgni með lyfjameðferð. Þessir sjúkdómar eru allir algengir með áætlað algengi á milli 5-10% hver og mikla skörun á milli sjúkdómaflokka. Þetta er langstærsti hópurinn sem er í þjónustu.
 
Til þess að mögulegt sé að nýta tækifæri til forvarna geðsjúkdóma þarf að vera tími til tengslamyndunar við fólkið á svæðinu, skimana og fræðslu. Miklar breytingar hafa orðið á starfsskyldum heilsugæslustöðva á síðustu árum og álag aukist á lækna vegna fólksfjölgunar og nýrra sjúklingahópa og fjölgunar verkefna. Ekki hefur verið tekið nægilega mikið tillit til þessa við skipulag stöðvanna og mönnun og læknarnir hafa hreinlega ekki nægilegan tíma fyrir tímafrekustu vandamálin sem geðrænu kvillarnir jú oft eru. Nýjung er að bætt hefur verið við niðurgreiddri sálfræðiþjónustu og þó það sé mikilvægt framfaraskref er það aðeins í boði fyrir fáa og í of stuttan tíma fyrir hvern og einn til þess að það skili nægilega góðum árangri.
 
Fyrir nokkrum árum voru stofnuð geðteymi hjá Heilsugæslu höfuðborgarinnar og veita þau almenna þjónustu fyrir þá sem stríða við alvarlega geðsjúkdóma og tvö þeirra einnig sérhæfa þjónustu fyrir þá sem eru með ADHD og djúpstætt þunglyndi sem ekki hefur svarað hefðbundnum meðferðum.
 
2. Starfsstöðvar geðlækna
Geðlæknar sem starfa sjálfstætt sjá um greiningar, veita ráðgjöf og almenna geðlæknisþjónustu og eru oft með mjög sérhæfa einstaklingsmiðaða meðferð, eftirfylgni og endurhæfingu. Oft eru sjúklingar í langtímameðferð, jafnvel árum saman.
 
Sjálfstætt starfandi geðlæknar hafa verið um fjörutíu, þar af 10-15 í fullu starfi og viðtala- eða meðferðafjöldi hefur verið nokkuð stöðugur síðustu 25 árin eða rúmlega 30.000 komur á ári. Það er áhyggjuefni að nýliðun í þessum hópi er lítil og fækkar nú geðlæknum um 1-2 á ári og þar með fækkar viðtölum um 2-3.000 á hverju ári. Búast má við að þessi starfsemi leggist af að mestu leyti á innan við áratug.
 
3. Geðdeildir
Meðferð í innlögn er fátíðasta og dýrasta meðferðarúrræðið. Slík meðferð er nauðsynleg ef greining er mjög flókin, einkenni djúpstæð, hegðun truflandi eða hættuleg eða þegar sjálfsvígshætta er til staðar.
 
Einungis tvær geðdeildir eru reknar í landinu, á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ef horft er til baka í nokkra fáa áratugi þá hefur þróun innlagna verið sú að þeim hefur fækkað og innlagnartími hvers og eins hefur styst.
 
Ef við leyfum okkur að máta saman þá meðferðarþætti sem þekktir eru úr fræðunum fyrir að gefa bestan árangur og þau úrræði sem eru í boði á Íslandi núna þá lítur myndin nokkurn veginn svona út:
 
  • Við alla geðjúkdóma gildir að best er að greina sjúkdómana sem fyrst og hefja meðferð tafarlaust.
  • Um marga geðsjúkdóma má segja að markviss skimun og fræðsla gefur árangursríka forvörn og mælanlegan sparnað.
  • Margir þeirra sem þjást af geðröskunum eru ekki sérlega duglegir að sækja sér aðstoð í heilbrigðiskerfinu, vegna fordóma, eða letjandi einkenna sjúkdómsins eða vegna biðlista og slæms aðgengis.
  • Samfella í meðferð alvarlegustu og mest truflandi geðsjúkdómanna er talin mjög nauðsynleg.
Staðan er þessi:
 
  • Heimilislæknar hafa ekki þann tíma til fræðslu og skimana sem þeir hefðu óskað.
  • Á flestum eða öllum meðferðarstöðunum er bið eftir þjónustu og sums staðar hreinlega lokað því biðtími lengur en margir mánuðir eða jafnvel ár er jafngildi þess að engin þjónusta sé í boði.
  • Aðgengi er ekki sérlega opið. Fólk veit ekki hvert er best að leita. Margir lenda í því að þjónustuþráðurinn slitnar á milli meðferðastöðvanna og samfella rofnar.
  • Samvinna á milli starfsstöðvanna er ekki nægileg góð og getur oft valdið töfum eða rofi í meðferð.
  • Yfirsýn kaupanda þjónustunnar, Sjúkratrygginga Íslands eru nokkuð góð hvað varðar magn og kostnað þjónustunnar en ekki eins góð hvað varðar þörf á þjónustu eða forgangsröðun.
  • Engin ein eða samhæf yfirstjórn er yfir geðræna þjónustu í landinu. Stjórn geðdeildar Landspítala er sjálfstæð en í samvinnu við aðra starfsemi spítalans. Stjórnun geðdeildar á Akureyri er í höndum Lyflæknissviðs. Stjórnun á heilsugæslustöðvum er í höndum fagstjóra viðkomandi stöðvar. Sérstök yfirstjórn er yfir geðteymum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hvert teymi virðist hafa mikið sjálfræði um við hvaða málum þau taka og hve lengi þau sinna þeim og meðferðartíminn er takmarkaður, oftast 4-6 mánuðir. Engin yfirstjórn er yfir starfssemi sjálfstætt starfandi geðlækna en þeir hafa reynt á síðustu árum að mynda meiri samvinnu sín á milli og meðferðarkjarna og teymi.
  • Þó miklar úrbætur hafi verið gerðar um skráningu og tölulegar upplýsingar, sérstaklega í heilsugæslunni þá skortir enn mikið á heildaryfirsýn og erfitt er að nálgast tölulegar upplýsingar.
  • Skýr verkaskipting í þjónustunni á milli starfsstöðvanna er ekki til.
  • Markmið og áætlanir heilbrigðisyfirvalda eru vandlega unnar og vel hugsaðar en erfiðara er að láta þær raungerast.
  • Yfirlit og stjórnun nýsköpunar í geðrænum fræðum og þróun nýrrar og bættri þjónustu er ekki til staðar og hefur slíkt eiginlega aðeins gerst fyrir tilstilli einstakra áhugasamra lækna. Rannsóknir á geðheilsu og árangri meðferðar eru of fáar og lítil tengsl á milli Háskóla Íslands og geðheilbrigðisþjónustunnar ef frá er talin tengsl læknadeildar við Landspítalann.
  • Í grunninn er geðheilbrigðiskerfið ágætlega hannað og hluti af annarri heilbrigðisþjónustu sem er mikilvægt. Í kerfinu starfa fjölmargir velmenntaðir sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum heilbrigðisfræða sem oft hafa sótt menntun og reynslu til annarra landa og hafa löngun og metnað til að gæði meðferðarinnar séu með því besta sem gerist. Það sem helst hefur einkennt íslenskar heilbrigðisstéttir er vinnusemi, fagmennska og löngun til að stöðugt gera betur sjúklingunum til hagsbóta. En álag hefur verið mikið undanfarin misseri og mikilvægt er að efla varnir gegn álagsveikindum og fjarveru heilbrigðisstarfsfólks. Mörg augljós verkefni eru framundan sem snúa að betri yfirsýn, skipulagi, stjórnun og fjármögnun sem líkleg eru til að bæta þjónustu við sjúklinga og auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að veita bestu og hagkvæmustu þjónustuna og án þess að veikjast sjálft.
 
Tilgangur þessara skrifa er ekki að gagnrýna heldur til að upplýsa og hvetja til uppbyggilegrar umræðu og til að vekja bjartsýni og jákvæðni bæði hjá þeim sem starfa við að veita þjónustuna og þeirra sem þiggja hana.
 
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00