Fara í efni
Umræðan

Sjá, þannig skal vandað til þess, sem á lengi að standa

Ég tel að við getum verið sammála um það að börnin okkar séu dýrmætustu gjafirnar sem við hljótum á lífsins vegi og þar á eftir koma barnabörnin og svo koll af kolli. Það er á ábyrgð okkar fullorðinna að koma þeim yngri til vits og ára. Þessi orð skrifa ég sem fullorðin manneskja, foreldri og kennari til margra ára því sú ákvörðun foreldrahóps leiksskólabarna að kæra verkfallsaðgerðir KÍ, neyðaraðgerðir fólks til að ná fram betri lífskjörum, hefur verið mér umhugsunarefni síðustu daga. Hvað vakir fyrir fólki sem sér ástæðu til að kippa fótunum undan stéttum landsins sem sjá um að koma börnum, því dýrmætasta sem við eigum, til vits og ára?
 
Í þessu samhengi fór í gegnum huga minn ljóð Steins Steinarrs:
 
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil 
með spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði
er gjarnan sett að veði.)
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.
 
Við þurfum á kennurum að halda, á öllum skólastigum, og ekki síst vegna þess að í nútímanum er það svo að börn fá að mestu uppeldi á þeim vettvangi, einmitt þegar uppeldi ætti að fara fram á heimavelli en við vitum að fólk hefur margt hvert lítinn tíma fyrir börn. Við viljum öll að börnin okkar og barnabörn fái menntun til að ná fótfestu í lífinu og tækifæri til að láta framtíðardrauma rætast. Ég þarf ekki að fjölyrða um það að til þess að halda kennurum í tilheyrandi starfsstéttum þá þarf nauðsynlega að bæta kjörin því alllengi hefur verið „vitlaust gefið.“ Kennarar, eins og aðrir, vilja eiga þess kost að lifa sómasamlegu lífi, eiga til hnífs og skeiðar, svo þeir geti sinnt störfunum sem þeir hafa valið að mennta sig til og brenna fyrir. Hingað til hefur ekki nokkur manneskja á Íslandi valið að mennta sig til kennara vegna þess að launin hafi verið svo frábær. Fólk menntar sig til þessara starfa vegna þess að það sér samfélagið sem heild og brennur fyrir því að koma næstu kynslóðum til vits og ára. Þar hvílir mikil ábyrgð.
 
Það sem raunverulega hefur grafið undan íslensku skólakerfi er að menntaðir kennarar leita á önnur mið til að bæta afkomu sína vegna þess að samfélagið hefur skilið þá eftir og finnst alveg sjálfsagt að fólk leggi tíma, vinnu og fjármagn í langt nám til að sinna því sem dýrmætast er fyrir krónur tvær! Eitthvað hafa gildin brenglast! Við sem samfélag höfum áhyggjur af auknu ofbeldi og ólæsi barna! Gætu verið tengsl þarna á milli? Það er vitað að börn byrja strax að sýna tilburði til ofbeldis í leikskóla! Þannig koma þau, sum hver, inn í skólakerfið og svo læra þau hvert af öðru. Á hvaða grunni byggir þetta? Það má velta því fyrir sér! Skólar eru ekki geymslustaðir, þeir eru menntastofnanir. Þar læra börn t.d. að lesa og skrifa og byrjar það nám strax í leikskóla og er ætlað að vera samvinnuverkefni heimilis og skóla. Við þurfum sannarlega að vanda okkur við að leggja grunninn.
 
Helsta breytingin sem ég sé, komin á sjötugsaldur með 37 ára starfsreynslu í grunnskóla að baki, er að alltof margir foreldrar eru alls ekki tilbúnir til samstarfs um uppeldi og nám og það er stórtap fyrir alla!
 
Nú ætlar foreldrahópur að taka sig til og sigra heiminn með spekingslegum svip og allt er sett að veði með glöðu geði. Þar eru fyrst og fremst börnin sett að veði vegna þess að þessar aðgerðir verða fyrst og fremst til þess að enn fleiri flýja kennarastéttina og enn minni líkur á að fólk mennti sig til þessara starfa. Kennarastéttin hefði heldur þegið að fá stuðning frá foreldrum þ.e.a.s ef foreldrum er annt um framtíð barna sinna. Við getum ekki vandað til þess sem lengi á að standa nema með samstöðu. Við getum ekki gefið vitlaust í þessu spili því þá tapa allir!
 

Hlín Bolladóttir er grunnskólakennari til áratuga, nú í Stapaskóla í Reykjanesbæ

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00