Fara í efni
Umræðan

Tjaldsvæðið fórnarlamb öfga?

Nú skal byggt á tjaldsvæðinu okkar við Þingvallastræti og er þá vafasamt hvort verður skemmra í sundlaugina og miðbæinn fyrir tjaldbúðargesti á Hömrum eða Lónsá. Verður þetta gott innlegg í ferðabransann hér í bæ? Af hverju skyldi ekki flögra að jafnvel mestu þéttingarsinnum í Reykjavík að byggja á tjaldsvæðinu í Laugardal.

Ég velti líka fyrir mér skyldum okkar við komandi kynslóðir. Ætlum við ekki að eftirláta þeim nein stór óbyggð svæði í hjarta bæjarins? Hvaða útivistarkosti eiga bæjarbúar í framtíðinni, kannski orðnir hundrað þúsund talsins, og við búin að leggja tjaldsvæðið og íþróttavöllinn við Hólabraut undir malbik og steinsteypu (og jafnvel Hamarkotstún líka eins og heyrst hefur)? Ganga sér til skemmtunar og heilbrigðis í bílaumferðinni? Eða ef til vill auka á traffíkina til að koma sér inn í Kjarna þar sem er þó enn friður fyrir bílnum?

Og talandi um þéttingu byggðar sem er hið heilaga orð í skipulagsfræðum nú um stundir – sem af einhverjum ástæðum hefur haldist í hendur við tálmanir bílaumferðar – halda menn að barnabörnum okkar (eða þeirra barnabörnum) takist að fá ríkið í lið með sér til að leysa umferðarhnúta sem við höfum búið til? Að þeim lánist að fá ríkissjóð til að kaupa miða í milljarða-hraðstrætó-lottói líkt og er að gerast í Reykjavík?

Enn er tækifæri til að sporna gegn þessari óheillaþróun. En til þess þurfum við að láta af hinni öfgakenndu þéttingar-byggingar-stefnu sem vaðið hefur uppi allt of lengi, studd fjárhagsrökum. Stórt skref á þeirri vegferð væri að skila afkomendum okkar tjaldsvæðinu óáreittu og að skipuleggja íþróttavöllinn við Hólabraut sem útivistarsvæði. Hugsið ykkur möguleikana. Að vetrinum: Skíðasvæði í brekkunni, tjörn og skautar á flatanum, troðnar skíðagöngubrautir, snjókastalar (hráefnið kæmi af himni og götum bæjarins það sem nú fer í sjóinn) og allt í kring stiklandi foreldrar.

Á sumrin; nei, ég skal ekki þreyta ykkur á frekari upptalningu en allir hljóta að sjá að möguleikarnir eru óteljandi. Og hvers virði verða ekki slík svæði þegar bærinn okkar er orðinn margfaldur að stærð við það sem hann er í dag?

Jón Hjaltason er sagnfræðingur.

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00