Fara í efni
Umræðan

Þórsarinn Eva Wium með A-landsliðinu í kvöld

Eva Wium Elíasdóttir í leik Þórs og Grindavíkur á dögunum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Eva Wium Elíasdóttir, leikstjórnandi körfuknattleiksliðs Þórs, mun í kvöld væntanlega spila sínar fyrstu mínútur í mótsleik með A-landsliði Íslands þegar liðið mætir Slóvakíu í undankeppni Evrópumótsins. Leikurinn fer fram í Ólafssal að Ásvöllum í Hafnarfirði og hefst kl. 19:30. Frítt er á leikinn í boði VÍS.

Ísland spilar tvo leiki í þessum landsleikjaglugga, en seinni leikurinn verður gegn Rúmeníu á sunnudag, einnig í Ólafssal.

Eva hefur áður verið í A-landsliðshópnum, en hún var valin í hópinn fyrir tvo æfingaleiki við Svía í ágúst í fyrra. Hún hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands í gegnum árin og yfirleitt dvalið langdvölum á höfuðborgarsvæðinu á sumrin við æfingar og farið á fjölmörg Norðurlandamót og Evrópumót með yngri landsliðunum.


Eva Wium Elíasdóttir í leik með U20 landsliði Íslands.

Akureyri.net hefur áður fjallað um stöðu landsliðsfólks utan af landi í hinum ýmsu íþróttagreinum sem hefur þurft að fórna tíma og tekjumöguleikum í heimabyggð til að taka þátt í landsliðsverkefnum. Þegar kallið kemur svo frá þjálfara A-landsliðsins má segja að þá hefjist uppskerutíminn eftir allt það sem viðkomandi leikmaður og fjölskyldumeðlimir hafa lagt á sig í gegnum árin.

Lykilleikmaður í Þórsliðinu

Eva hefur verið fastamaður og lykilleikmaður í liði Þórs undanfarin ár. Hún átti stóran þátt í að liðið fór upp í efstu deild og þeim árangri sem liðið hefur náð, meðal annars að komast í úrslit bikarkeppninnar og vinna titilinn meistarar meistaranna. Eva hefur í vetur skorað 15,4 stig að meðaltali í leik í efstu deild Íslandsmótsins, Bónusdeildinni, tekið 4,4 fráköst, gefið þrjár stoðsendingar og verið með 15,6 framlagsstig að meðaltali í leik. Hún skoraði átta stig, tók sex fráköst og átti tvær stoðsendingar þegar Þórsliðið vann þrefalt meistaralið Keflavíkur í lok september í leik um titilinn meistarar meistaranna.

Óhætt er að fullyrða að frammistaða Evu með Þórsliðinu undanfarin misseri hafi skilað henni sæti í landsliðinu og það fyllilega verðskulduðu. 

Leikmannahópur Íslands - félag og fjöldi landsleikja:

  • Agnes María Svansdóttir - Keflavík 2 leikir
  • Anna Ingunn Svansdóttir - Keflavík 10 leikir
  • Anna Lára Vignisdóttir - Keflavík nýliði
  • Dagbjört Dögg Karlsdóttir - Valur 20 leikir
  • Danielle Rodriquez - Fribourg nýliði
  • Diljá Ögn Lárusdóttir - Stjarnan 6 leikir
  • Eva Wium Elíasdóttir - Þór Akureyri 2 leikir
  • Hanna Þráinsdóttir - Aþena - Nýliði
  • Kolbrún María Ármannsdóttir - Stjarnan nýliði
  • Thelma Dís Ágústsdóttir - Keflavík 20 leikir
  • Þóra Kristín Jónsdóttir - Haukar 33 leikir
  • Tinna Guðrún Alexandersdóttir - Haukar 6 leiki

Þjálfari íslenska liðsins er Benedikt Rúnar Guðmundsson og aðstoðaþjálfarar þeir Halldór Karl Þórsson og Ólafur Jónas Sigurðsson. Til gamans má geta þess að Daníel Andri Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Þórs, hefur tekið að sér þjálfun U16 landsliðs kvenna og verður áhugavert að fylgjast með honum á þeim vettvangi.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00