Fara í efni
Umræðan

Sammála um að taka á neikvæðum áhrifum snjallsíma

Starfshópur um símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar hefur lagt fram nýjar samræmdar símareglur sem taka gildi næsta skólaár. Í þessu skrefi felst ákveðinn sáttmáli um símafrið og verða reglurnar kynntar starfsfólki og foreldrum á næstu dögum. Tilgangurinn með sáttmálanum er fyrst og fremst að skapa góðan starfsanda í skólum, stuðla að bættri einbeitingu, auknum félagslegum samskiptum og vellíðan nemenda og starfsfólks skóla. Starfshópurinn var samsettur af kjörnum fulltrúum, fulltrúum foreldra og ungmenna, starfsfólki skóla og starfsfólki af fræðslu- og lýðheilsusviði.

Foreldrar, nemendur og starfsfólk klár í samtalið

Hópurinn átti víðtækt samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk og óhætt að segja að þátttakan og áhuginn hafi verið meiri en starfshópurinn þorði að vona. Samhliða þessari vinnu kynnti hópurinn sér m.a. skýrslu UNESCO varðandi þessi mál og reynslu annarra skóla og sveitarfélaga sem hafa verið á svipaðri vegferð. Þá fengu allir nemendur á mið- og unglingastigi fræðslu frá Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd, en tilgangur fræðslunnar var að skapa aukinn skilning meðal nemenda um netöryggismál og áhrif símanotkunar.

Bara gleði og ánægja í frímínútum

Í öllum okkar samtölum við foreldra og kennara kom fram skýr vilji til breytinga. Í samtali okkar við nemendur kom sömuleiðis fram skýr vilji til að virkja þær stundir betur sem þau fá til að eiga frjáls samskipti, bæði í leik og í hvíld frá námi. Nemendur á unglingastigi skilja vel mögulega neikvæð áhrif snjallsímanna en lögðu mikla áherslu á að við yrðum þá að tryggja fjölbreytta afþreyingu í skólunum, til að leysa af hendi óumdeilt afþreyingargildi símanna. Við sem sitjum í Fræðslu- og lýðheilsuráði viljum sannarlega mæta þessu ákalli og vinna að því, í samstarfi við nemendur og starfsfólk skólanna, að auka gleði og rækta uppbyggjandi samskipti í frímínútum.

Vonandi erum við öll sammála um að taka á neikvæðum áhrifum snjallsíma og skapa símafrið í skólunum okkar.

Heimir Örn Árnason er formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar.

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00