Fara í efni
Umræðan

Ótrúlegt ólán og KA fékk bara annað stigið

Rekistefna við borð ritara og tímavarðar undir lok leiksins eftir að KA-menn tóku leikhléið sem reyndist dýrkeypt. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA og Stjarnan gerðu jafntefli, 27:27,  í Olís deildinni í handbolta í KA-heimilinu í kvöld eftir mikla dramatík á lokamínútunni. KA-menn voru með pálmann í höndunum þegar skammt var til leiksloka, þeir virtust á góðri leið með að vinna þriðja sigur vetrarins, en mistök þegar beðið var um leikhlé hálfri mínútu fyrir leikslok reyndust dýrkeypt.

Leikurinn var spennandi frá upphafi til enda. Stjarnan var einu marki yfir í hálfleik, 12:11, og munurinn í seinni hálfleik varð aldrei meiri en tvö mörk á annan hvorn veginn.

Staðan var 25:25 þegar þrjár mínútur voru eftir og þá gerði KA tvö mörk í röð: fyrst skoraði Patrekur Stefánsson og Ott Varik kom KA tveimur mörkum yfir þegar hann skoraði úr víti þegar tæpar tvær mínútu voru eftir.

Þegar rúmlega ein og hálf mín. var eftir skoraði Tandri Már Konráðsson úr víti fyrir Stjörnuna. Staðan þá 27:26.

Þegar 32 sekúndur voru eftir gerði Magnús Dagur Jónatansson tilraun til þess að brjótast í gegnum vörn Stjörnunnar en þjálfari KA óskaði á sama augnabliki eftir því að taka leikhlé. Við því var orðið en þegar leikurinn hófst á ný kom það mörgum áhorfandanum á óvart að Stjörnumenn byrjuðu með boltann.

Skýringin á því er þessi, skv. upplýsingum sem Akureyri.net fékk í KA-heimilinu:

  • KA bað ekki um leikhléið á réttan hátt. Þegar starfsmaður liðs biður um leikhlé ber honum samtímis að leggja þar til gert spjald á borð tímavarðar en láðist að gera það í þetta sinn.
  • Það að óska eftir leikhléi en leggja ekki umrætt spjald á borð tímavarðar telst ódrengileg hegðun skv. lagabókstafnum. Refsing við því að er að einum leikmanni viðkomandi liðs er vikið af velli í tvær mínútur og andstæðingurinn fær boltann. 

Eftir langa sókn jafnaði Ísak Logi Einarsson fyrir Stjörnuna þegar fáeinar sekúndur voru til leiksloka. KA-menn brunuðu fram, Patrekur Stefánsson freistaði þess að komast í skotfæri en var stöðvaður býsna harkalega. KA fékk aukakast, stillt var upp fyrir Bjarna Ófeig Valdimarsson sem náði að skjóta yfir varnarvegg Stjörnunnar en þrumaði framhjá markinu.

Ótrúlegt ólán eða klaufaskapur í lokin og því fór sem fór. KA, HK og ÍR eru nú öll með fimm stig en KA telst í 10. sæti. HK, sem tapaði með eins marks mun (26:25) fyrir Fram á útivelli í kvöld er þar fyrir neðan og ÍR, sem steinlá (31:41) í kvöld á heimavelli fyrir ÍBV, er í neðst sæti. 

LOKAMÍNÚTAN

Magnús Dagur Jónatansson reynir að komast í gegnum vörn Stjörnunnar þegar 32 sekúndur voru eftir – á sama augnabliki og KA-menn báðu um leikhlé og fengu.

Rekistefna við borð tímavarðar og ritara, eftir að KA-mönnum var tilkynnt að þeir hefðu gert mistök og hverjar afleiðingarnar yrðu.

Eftir að Stjarnan jafnaði sækir Patrekur Stefánsson hér að vörn Stjörnunnar í síðustu sókn KA ...

... einn gestanna náði að stöðva hann og KA-fékk aukakast rétt utan við punktalínu.

Lokasekúndan! Bjarni Ófeigur Valdimarsson þrumar yfir varnarvegg Stjörnumanna eftir aukakastið sem dæmt var vegna brots á Patreki en boltinn fór framhjá markinu um leið og leiktíminn rann út.

 

Mörk KA: Bjarni Ófeig­ur Valdi­mars­son 6 (4 víti), Jens Bragi Bergþórs­son 5, Ott Varik 5 (2 víti), Pat­rek­ur Stef­áns­son 4, Logi Gauta­son 2, Dag­ur Árni Heim­is­son 2, Daði Jóns­son 1, Kamil Pedryc 1, Magnús Dag­ur Jónatans­son 1.

Var­in skot: Nicolai Horntvedt Kristen­sen 11 (30,6%)

Mörk Stjörn­unn­ar: Hans Jörgen Ólafs­son 10, Tandri Már Kon­ráðsson 6, Jóel Bern­burg 2, Ryt­is Kaza­kevicius 2, Ísak Logi Ein­ars­son 2, Starri Friðriks­son 1, Jón Ásgeir Eyj­ólfs­son 1, Pét­ur Árni Hauks­son 1, Daní­el Karl Gunn­ars­son 1.

Var­in skot: Adam Thor­sten­sen 7 (28%), Sig­urður Dan Óskars­son 4 (30,8%)

Öll tölfræði í leiknum

Staðan í deildinni

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00