Fara í efni
Umræðan

Orð eru kvik

Í leit minni að eldhúsborði komst ég að því að fyrirbærið eldhúsborð er ekki lengur til, allavega ekki orðið sjálft. Á vefsíðum húsgagnaverslana er bara talað um borðstofuborð. Skýringin er einföld; nú er varla byggt hús þar sem eldhús er sér rými. Ég hafði samt ekki gert mér grein fyrir að búið væri að úthýsa eldhúsborðinu. Ég hóf því leit að borðstofuborði sem mætti nota sem eldhúsborð. Ég gætti þess líka að spyrja ekki um eldhúsborð í verslunum, var viss um að mér yrði mætt með spurnarsvip eða jafnvel hneykslun. Til að gera langa sögu stutta þá fann ég eldhúsborð á 6 þúsund kall í Fjölsmiðjunni og er í skýjunum.

Síðustu daga er ég búinn að vera með orð á heilanum; orð sem hafa breyst eða horfið (maður er oft lengi að fatta að eitthvað er horfið á braut). Svo verður maður samdauna orðum og gerir sér ekki ljóst að þau fanga ekki lengur veruleikann eða bjaga hann jafnvel.

Versta orð íslenskrar tungu er orðið „lán“ og það er því að kenna að Íslendingar kunna ekkert með peninga að fara. Fyrr á tíð var erfitt að fá lán en tækist það þá var það mikið lán og gæfa. Og við höfum ekki náð að uppfæra hugmyndir okkar. Lán ætti að heita „verkfæri andskotans“. Það er reyndar annað orð sem er verra en „lán“ og það er „myntkörfulán“. „Mynt“ er traust orð: „peningur úr málmi“, „karfa“ er bastkarfa með víni og bagettu og lautarferð. Og svo „lán“ eins og fyrr segir með alla sína gæfu. En viti menn, eitthvað hafa menn lært, bankarnir vilja ekkert kannast við myntkörfulán. Þegar ég leitaði að orðinu á vef Íslandsbanka svaraði leitarvélin allt að því glaðlega, allavega án beiskju, „Úpps! Því miður fundum við engar niðurstöður sem passa við leitarorðið Myntkörfulán“. Annað var uppi á teningnum hjá Landsbankanum; þar svaraði leitarvélin þurrlega (á því gætu verið sögulegar skýringar): „Ekkert fannst“.

Merkilegt er þegar menn skipta út orðum sem hafa yfir sér neikvæðan blæ. Þetta gerist oft í skjóli nætur og það er sem gamla orðið hafi aldrei verið til. George W. Bush þótti orðið „pyntingar“ (torture) alltof leiðinlegt og neikvætt (og uppátækið sem það stendur fyrir eiginlega bannað) og amerísk málnefnd kom með orðið „þróuð yfirheyrslutækni“ (enhanced interrogation technique). Öllu saklausara dæmi, en dálítið ósvífið engu að síður eru endurbætur á fyrirbærinu plastparket. Þegar plastparket kom á markað var almenningur enn jákvæður gagnvart plasti. Með ofnotkun á plasti og neikvæðum umhverfisáhrifum tóku menn sig til og gáfu plastparketinu andlitslyftingu og nú heitir það harðparket.

Það eru orð sem hafa alla tíð truflað mig og þá sérstaklega þegar ég hef verið að kenna útlendingum íslensku. Við förum í útilegu; kannski með tjald og prímus. En sá sem fer í útilegu er samt ekki útilegumaður (No, he‘s like, you know, an outlaw). Og orðið dýralæknir (The One who cures Animals)… einhvern veginn grunar mig að starf dýralækna felist frekar í að aflífa dýr. Ég sé þetta fyrir mér:

Sláturhús að hausti – margir erlendir starfsmenn. Dýralæknir frá MAST sér um eftirlit.

-Erlendur starfsmaður: Who is that man in the white rope, I haven‘t seen him before?

-Verkstjórinn: Hm? (Enska heitið yfir dýralækni er stolið úr honum). Yes, uuhh, this is The Man who… cures Animals.

-Erlendur starfsmaður: Excuse me?

-Yes, „Dýra-Læknir“ in Icelandic.

Arnar Már Arngrímsson er rithöfundur á Akureyri

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00