KA-menn töpuðu illa fyrir KR-ingum
KA-menn voru langt frá sínu besta þegar KR-ingar sóttu þá heim í neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu í dag. Gestirnir skoruðu tvívegis snemma leiks og unnu mjög sanngjarnan sigur, 4:0. KR vann Fram 7:1 í síðasta leik og er nú svo gott sem sloppið úr fallhættu.
KA hefur í sjálfu sér ekki að neinu að keppa nema að ná efsta sæti í neðri hlutanum en KR-ingar voru ekki lausir við falldrauginn. Í byrjun var hreinlega eins og KA-menn væru ekki vaknaðir, sumir þeirra virtust að minnsta kosti með hugann annars staðar en við leikinn. Birgir Steinn Styrmisson skoraði fyrir KR á áttundu mínútu og Luka Rae bætti öðru marki við á 14. mín. Í bæði skipti eftir mikla værukærð í varnarleik heimamanna.
Líf færðist í KA-menn þegar leið á fyrri hálfleikinn; boltinn smaug rétt framhjá markinu þegar Jakob Snær átti gott skot utan teigs en besta færið fékk Viðar Örn Kjartansson þegar hann tók vítaspyrnu eftir að brotið var á honum.
Þegar Viðar Örn tók vítið hugðist hann plata Guy Smit markvörð KR en vopnin snérust í höndunum á honum. Laflaust skot efst í mitt markið, eins og Viðar bauð uppá, er sniðug vítaspyrna og flott þegar markvörðurinn fleygir sér í annað hvort hornið. Viðar var hins vegar svo óheppinn, eða Smit svo snjall, að sá hollenski hreyfði hvorki legg né lið, stóð kyrr á marklínunni, og greip boltann sem kom beint á hann.
Hallgrímur Jónasson þjálfari KA var augljóslega og eðlilega óánægður með frammistöðu sinna manna í fyrri hálfleik og gerði þrjár breytingar fyrir þann seinni. Kári Gautason, Harley Willard og Valdimar Logi Sævarsson leystu af hólmi þá Darko Bulatovic, Daníel Hafsteinsson og Bjarna Aðalsteinsson og sú breyting virkaði að því leyti að KA-menn voru mjög ákveðnir framan af seinni hálfleik en náðu hins vegar aldrei að ógna marki KR að neinu ráði.
KR gerði þriðja markið þegar 15 mín. voru eftir og þar með fuku vonir heimamanna um stig endanlega út í veður og vind; Eyþór Aron Wöhler skoraði, enn einu sinni eftir slakan varnarleik KA-manna, og Benóný Breki Andrésson gerði fjórða mark KR skömmu fyrir leikslok eftir að KR-ingar spiluðu sig afar auðveldlega í gegnum vörn KA.
Hvorki Hallgrímur Mar Steingrímsson né Rodrigo Gomes voru í hópnum hjá KA í dag, líklega vegna meiðsla, og munar að sjálfsögðu um minna. Þá var Dagur Ingi Valsson fjarri góðu gamni vegna leikbanns.