Hinsegin bakslagið á Akureyri

Í gærkvöldi bauð félag foreldrafélaga grunnskóla á Akureyri til fræðslu og fundar með fulltrúum Samtakanna 78 til að fræðast um það efni sem þau kenna grunnskólabörnum í sveitarfélaginu í vetur. Fundurinn var fjölmennur og vægast sagt góður. Fyrirfram voru örugglega einhver með hnút í maganum enda hafa bæði ýmsum röngum og misvísandi upplýsingum verið dreift um fræðslu samtakanna og það stundum líklega í þeim tilgangi að valda skaða. Það hefur síðan óneitanlega haft áhrif að formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra (BKNE) hefur nánast daglega, opinberlega, viðrað ógeðfelld viðhorf sín og annarra um málefni hinsegin fólks, sem hafa sérstaklega beinst gegn transfólki. Þau gleðilegu tíðindi bárust hins vegar í gær að formannskipti hafa orðið hjá félaginu. Á þingi kennaranna var samþykkt lagabreyting sem fólst í því að framvegis skuli kjósa formann til eins árs í senn og tók breytingin gildi strax á þinginu. Þessi lagabreyting þýddi að hægt var að skipta um formann tafarlaust, var það gert og nýr formaður nú þegar tekin til starfa. Mikið var ég ánægð með kennara á svæðinu sem með samtakamætti brugðust við af fullum þunga og samþykktu þessa breytingu með 83 atkvæðum af 86. Það var ekki síður ánægjulegt að finna kraftinn í foreldrum á svæðinu á fræðslufundinum í gærkvöldi, sem ef eitthvað er vildu frekar gera meira og betur á Akureyri í því skyni að fagna fjölbreytileikanum og skapa litskrúðugt og öruggt samfélag fyrir okkur öll. Ef marka má þann anda sem var á þessum fjölmenna fundi þá mun okkar samfélag sem betur fer ekki sætta sig við bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks, heldur sporna við þróuninni af fullum krafti.
Hilda Jana Gísladóttir er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri
Frá fundi foreldrafélaga grunnskólanna á Akureyri í gærkvöldi. Mynd: Hilda Jana.


Verði stórveldi með eigin her

Yfirgripsmikið þekkingarleysi

Ferðasjóður ÍSÍ hefur rýrnað frá árinu 2019

Ósanngjörn byrði á landsbyggðarfólk
