Fara í efni
Umræðan

Gjaldfrjálsir leikskólar?

Þið gerðuð ykkur öll grein fyrir að gjaldfrjáls leikskóli á Akureyri þýðir allt að 21% hækkun á leikskólagjöldum 85,2% fjölskyldna í bænum. Er það ekki annars? Söguleg stund átti sér stað á þriðjudaginn síðastliðinn í bæjarstjórn Akureyrarbæjar. Meirihlutinn ákvað þar að gera leikskóla bæjarins „gjaldfrjálsa“ með framangreindum afleiðingum frá og með næstu mánaðamótum. Skoðum aðeins hvað þetta þýðir í raun og veru.

Í dag kostar átta og hálfs klukkustunda dvöl barns á leikskóla hér í bæ, með fæði, 43.558 kr. á mánuði. Í upphafi ársins 2024 mun þessi sama þjónusta kosta 52.637 kr. og því hækkar gjaldið fyrir þessa þjónustu um 21%. En þar með er ekki öll sagan sögð. Því á miðju þessu ári tók meirihlutinn upp svokallaða skráningardaga í skipulagi leikskólanna. Þá voru 20 dagar á ári felldir brott úr venjulegri gjaldskrá, og foreldrum gert að skrá börnin sín sérstaklega til leiks þessa 20 daga (með a.m.k. 4 vikna fyrirvara), og borga fyrir þá sérstaklega í þokkabót. Það er rétt að hafa í huga að 20 dagar jafngildir heilum mánuði af vinnudögum. Þannig hér er ekkert smáræði á ferð. Í dag kostar hver skráningardagur 1.569 kr. en hækkar í 2.696 kr. um næstu áramóti. Þar er fjölskyldum leikskólabarna á Akureyri færð önnur gjaldahækkun á silfurfati, sem nemur u.þ.b. 71%. Ofan á áðurnefnda 21% hækkun bætist þannig 2.696 kr. fyrir hvern þann dag sem foreldrar geta ekki hlaupið frá fullri vinnu, námi eða öðru því sem þau sinna og treysta á leikskólakerfi bæjarins með. Hækkun á leikskólagjöldum milli ára getur því numið allt að rúmlega 120.000 kr. á ári fyrir tiltekna hópa foreldra.

Þannig hvað þýðir „gjaldfrjáls leikskóli“ meirihlutans á Akureyri? Jú, hann þýðir hækkuð gjöld og skert þjónusta fyrir foreldra og börn sem tilheyra fjölskyldum sem hafa ekki tök á að gjörbylta því hvernig dagarnir, vikurnar og mánuðirnir eru skipulagðir. Svo einfalt er það. Þessu til viðbótar kynnir meirihlutinn þessa aðgerð sem tilraunaverkefni, þar sem ekkert mat hefur verið lagt á möguleg áhrif, og skoða á stöðuna jafnóðum og verkefnið er unnið. Fyrir liggur að meirihlutinn grípur til þessara aðgerða til að bregðast við rekstrarvanda og áskorunum á borð við styttingu vinnuvikunnar, vinnuálagi og vinnuaðstæðum á leikskólum bæjarins. Allt eru þetta raunverulegar áskoranir sem hvorki er hægt að skorast undan né gera lítið úr. En leiðir á borð við fjölgun starfsmanna, bætt launakjör og fjárfesting í nýju og eða endurbættu húsnæði eru allar færar. Meirihlutinn kýs hins vegar að fara aðrar og óljósar leiðir, án þess að hafa hugmynd um þætti á borð við áhrif á þátttöku foreldra á vinnumarkaði (ekki síst kvenna) og hversu stórt hlutfall fjölskyldna hafa raunverulega kost á að nýta sér þessa sex tíma eingöngu.

Nú þegar þessi ákvörðunin hefur verið tekin hafa verið boðaðir fundir með foreldrum til að kynna verkefnið. Með öðrum orðum, ekkert samráð var haft við foreldra leikskólabarna áður en ákvörðun um þessa kollsteypu í rekstri leikskóla bæjarins var tekin. Fundirnir munu fara fram með rafrænum hætti þannig að þeir sem að málinu standa komast hjá því að standa auglitis til auglitis við þá sem ákvörðunin varðar einna helst.

Stundum er sagt að best sé að fylgjast með hvað fólk gerir, ekki hvað það segir. Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar segir að við fjárhagsáætlunargerð næsta árs eigi að standa vörð um barnafjölskyldur. Það sem verið er að gera er að grípa með freklegum og óvönduðum hætti inn í líf fjölskyldna leikskólabarna, ýmist með gríðarlegum gjaldskrárhækkunum eða umbyltingu á því hvernig daglegu lífi fjölskyldna er háttað. Ég veit ekki með ykkur lesendur góðir, en ég sem foreldri leikskólabarns í bænum mótmæli því harðlega að mín fjölskylda sé gerð að viðfangi í pólítískri tilraun meirihlutans í bæjarstjórn Akureyrarbæjar sem innifelur að færa rekstrarvanda leikskólanna í bænum yfir á herðar foreldra.

Sindri Kristjánsson er varabæjarfulltrúi og foreldri leikskólabarns

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00