Stúdentafélag Háskólans á Akureyri ætlar að gera sitt til þess að aðstoða nemendur og aðra áhugasama við að glöggva sig á komandi kosningum til Alþingis. Í samstarfi við LÍS (Landssamband íslenskra stúdenta) hefur SHA fengið fulltrúa af framboðslistum umdæmisins til þess að taka þátt í pallborðsumræðum í Hátíðarsal skólans á föstudaginn kemur, 15. nóv, á milli kl. 12.00 og 13.30. Viðburðurinn er opinn öllum.
Silja Rún Friðriksdóttir er forseti SHA og fundarstjóri pallborðsins, en hún segir að hluti ástæðu þess að SHA og LÍS standa fyrir pallborðinu er að þau séu smeyk fyrir framtíð stúdenta og vilja gefa sínu fólki færi á að kynna sér framboðin í persónu. „Fyrirkomulagið er þannig,“ segir Silja, „að fyrst fær hver frambjóðandi þrjár mínútur til þess að kynna sig. Síðan koma hraðaspurningar frá fulltrúum SHA og LÍS. Frambjóðendur geta bara svarað þessum spurningum með spjöldum merktum 'NEI' og 'JÁ'. Eftir þetta verður opnað fyrir spurningar úr sal.
Fulltrúar koma frá öllum flokkum sem eru í framboði í Norðausturkjördæmi:
- Flokkur fólksins: Sigurjón Þórðarsson, 1. sæti
- Framsóknarflokkurinn: Skúli Bragi Geirdal, 4. sæti
- Lýðræðisflokurinn: Gunnar Viðar Þórarinsson, 1. sæti
- Miðflokkurinn: Inga Dís Sigurðardóttir, 4. sæti
- Píratar: Theodór Ingi Ólafsson, 1. sæti
- Samfylkingin: Sæunn Gísladóttir, 3. sæti
- Sjálfstæðisflokkurinn: Jens Garðar Helgason, 1. sæti
- Sósíalistaflokkurinn: Ari Orrason, 2. sæti
- Viðreisn: Ingvar Þóroddsson, 1. sæti
- Vinstri grænir: Sindri Geir Óskarsson, 1. sæti
Viðburðurinn er öllum opinn, sama hvort fólk tengist skólanum eða ekki. Einnig verður beint streymi fyrir þau sem komast ekki á staðinn.