Alvöru byggðastefnu takk!
Um aldamótin 1900 bjuggu í Reykjavík ríflega 6000 manns, um 8% landsmanna en 11% á höfuðborgarsvæðinu. Nú 124 árum síðar býr 37% þjóðarinnar í Reykjavík og 65% á höfuðborgarsvæðinu. Og ef allt áhrifasvæði höfuðborgarinnar er tekið með, búa þar 80% landsmanna. Við hin 20% landsmanna búum svo utan þess.
Ef ekki verður spornað við þessari þróun með kröftugri byggðastefnu mun höfuðborgarsvæðið halda áfram að soga til sín sífellt hærra hlutfall íbúanna. Krafan um að allt skuli staðsett í Reykjavík, því þar sé fólkið, mun bara ágerast og ójafnvægið verður að endingu svo mikið að ekkert verður við ráðið.
Vissulega njóta landsbyggðirnar þess að eiga höfuðborg sem er samkeppnishæf við borgir nágrannalandanna, en höfuðborgin og Ísland allt, þarf líka á sterkum landsbyggðum að halda. Ef eingöngu er horft á Norðausturkjördæmi, sem telur rúma 11% íbúa landsins, sést vel að hlutfall framleiðslu og útflutningstekna Íslands, sem á rætur að rekja til Norðausturkjördæmis, er langt, langt, umfram það hlutfall. Þó sýna tölur að aðeins brot af þeirri upphæð, sem rennur í sameiginlega sjóði landsmanna, úr kjördæminu, er varið í innviði og þjónustu svæðisins.
Lykill að áframhaldandi og vaxandi velsæld Íslands er kraftmikil verðmætasköpun og kjördæmið er sannarlega í færum til að leggja sitt af mörkum til hennar, og vel það, en til þess þarf að ráðast í viðamikla innviðauppbyggingu. Það er bæði réttlátt og efnahagslega skynsamlegt. Nærtækast er að styrkja þjónustu í heimabyggð.
Í fyrsta lagi þarf að styrkja heilbrigðisþjónustu í öllu kjördæminu, ekki síst heilsugæslurnar sem reknar eru af HSN og HSA. Rannsóknir sýna að innlagnir á sjúkrahús eru 30% algengari hjá þeim sem hafa ekki fastan heimilislækni. Að auki hefur fólk með heimilislækni bæði lægri dánartíðni og meiri lífsgæði. Nú eru aðeins um 50% Íslendinga með fastan heimilislækni. Því hefur Samfylkingin sett 10 ára markmið um að allir Íslendingar fái heimilislækni og heimilisteymi.
Í öðru lagi þarf að standa vörð um vöxt framhaldsskóla kjördæmisins auk þess sem hlúa þarf að Háskólanum á Akureyri. Um leið verður að greiða fyrir uppbyggingu Háskólaseturs Austurlands. Þetta er sjálfsagt lífsgæðamál, eykur jöfnuð og styrkir atvinnulífið.
Í þriðja lagi bitnar óburðugt flutningskerfi harðast á landsbyggðunum. Þetta á ekki síst við um mikilvæg fyrirtæki sem þurfa að knýja starfsemi sína til lengri og skemmri tíma á jarðefnaeldsneyti. Þetta vinnur gegn loftlagsmarkmiðum Íslands auk þess að skerða samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Samfylkingin telur því nauðsynlegt að afla meiri orku, ráðstafa henni skynsamlega og ráðast í stórátak til að efla flutningskerfið.
Í fjórða lagi þarf byggðastefnan að verða miklu markvissari. Styrkja þarf tengsl byggðakjarnanna á Austurlandi annars vegar en Norðurlandi hins vegar. Þetta verður ekki gert öðruvísi en með grettistaki í samgöngum milli byggðakjarna. Það mun bæta þjónustu, glæða menningu og íþróttastarf en er einnig forsenda öryggis og öflugs atvinnulífs. Í dag eru fjárfestingar í samgöngum á Íslandi aðeins 0,5% af vergri landsframleiðslu. Í öðrum ríkjum OECD er meðaltalið um 1%. Samfylkingin vill að fjárfestingar í samgöngum fari aftur upp í meðaltal OECD-ríkja fyrir árið 2030.
Í litlu en risastóru landi með svo óhagstæðri íbúadreifingu er óhjákvæmilegt að íbúar muni áfram þurfa að sækja umtalsvert til höfuðborgarinnar. Því þarf að bæta þjóðvegakerfið heilmikið. Þá er það ófrávíkjanleg krafa af hálfu Samfylkingarinnar að flugvöllurinn verði áfram í Reykjavík, a.m.k. þangað til annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar: Kostur sem allir landsmenn eru sáttir við. Hann er hins vegar ekki í sjónmáli.
Samfylkingin hefur lagt fram plan um aðgerðir til að mæta þessu og ýmsu fleiru og hægt er að lesa ýtarlegar á eftirfarandi slóð: https://xs.is/vid-erum-med-plan
Það er mikilvægt að stjórnvöld komandi ára hafi kjark til þess að setja fram trúverðuga byggðastefnu og þor til þess að fylgja henni eftir. Samfylkingin bíður uppá skýran valkost um breytingar í kosningunum til Alþingis, þann 30. nóvember, og verðum tilbúin til verka frá fyrsta degi í nýrri ríkisstjórn fáum við til þess traust í kosningunum.
Logi Einarsson er þingflokksformaður Samfylkingarinnar og oddviti listans í Norðausturkjördæmi