Fara í efni
Umræðan

Hættum að slá ryki í augun á fólki!

Undirrituð veiðifélög, samtök, stofnanir og fyrirtæki lýsa yfir miklum áhyggjum af áformum Kleifa um stórfellt sjókvíaeldi í Eyjafirði og vilja því koma eftirfarandi á framfæri.

Þann 24. október síðastliðinn birtist grein í Bændablaðinu þar sem fyrirtækið Kleifar fiskeldi kynna stórfelld fiskeldisáform á Norðurlandi. Þessi áform lofa fjölda starfa og nóg af peningum fyrir alla. Framgangur Kleifa er afar grímulaus, en fyrirtækið býður sveitarfélögum beinlínis hlut í starfseminni og ræður í vinnu þekktan hagsmunavörð til þess að keyra verkefnið áfram. Kleifar lofa því að fiskurinn verði ófrjór og „hafi ekki burði til þess að synda langt“. Þessi fullyrðing á sér enga stoð í raunveruleikanum, en það er jú einmitt það sem laxar gera ... þeir synda. Rétt er að rifja upp að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sögðu haustið 2023 að laxarnir sem sluppu úr kví í Patreksfirði myndu ekki synda langt og halda sig nálægt kvínni. Þetta var rétt áður en þeir fóru að sjást í ám í meira en 400 km fjarlægð, meðal annars í Fjallabyggð og Eyjafirði.

Allt hljómar þetta frekar kunnuglega og það verður að segjast eins og er að það er merkilegt hvað fyrirtæki halda að þau geti endalaust slegið ryki í augu fólks. Skoðum aðeins staðreyndir málsins og hvað svona starfsemi hefði í för með sér.

Ófrjór fiskur og genaþöggun

Kleifar fullyrða að fiskurinn sem notaður verði í starfseminni sé ófrjór og að fyrirtækið Benchmark Genetics sé að þróa nýja aðferð við að gera fisk ófrjóan sem kallast „genaþöggun“. Það er rétt að benda á að þetta er ekki nýtt af nálinni. Til að mynda birtist grein í Fiskifréttum í maí árið 2019, þar sem að þessi aðferð var einmitt kölluð ný og byltingarkennd, hér erum við rúmlega fimm árum síðar og enn er þetta eitthvað sem er stefnt að, og er „nýtt og byltingarkennt“. Samt sem áður eru Kleifar til í að lofa Fjallabyggð 20.000 tonnum og miklum fjármunum byggt á þessari aðferð sem ekki enn hefur tekist að fullkomna.

Leysir aðeins eitt vandamál

Jafnvel þó að fiskurinn yrði ófrjór, leysir það aðeins eitt vandamál og það er erfðablöndun við villta laxastofna. Lúsin, mengunin, eiturefnin, skaði á líffræðilegum fjölbreytileika og ímyndaráhrifin eru þó enn til staðar. Á Tröllaskaga og í Eyjafirði eru margar merkilegar ár, sem hýsa villta fiskistofna. Svæðið er eitt hinsta vígi sjóbleikju á Íslandi, en stofn hennar hefur því miður dalað mikið undanfarin ár. Lúsafaraldrar sem eru nær daglegt brauð í sjókvíaeldi herja ekki aðeins á laxinn heldur einnig á skylda fiska líkt og bleikju og sjóbirting. Bleikja og sjóbirtingur fara ekki eins langt og villti laxinn í fæðuleit sinni. Þessir fiskar halda sig nærri ósasvæðum sínum og eru þar á fæðuslóð. Sjókvíaeldi gæti því auðveldlega orðið þeirra banabiti. Það er ekki boðlegt að sýsla á þennan hátt með líffræðilegan fjölbreytileika. Þetta ættu Kleifar að vita.

Þó að laxinn sé ófrjór mun samt sem áður allur skítur falla til botns og hafa áhrif á sjávarlíf. Samkvæmt norsku umhverfisstofnuninni jafngildir mengun frá 20.000 tonna sjókvíaeldi mengun frá 320.000 manna byggð. Þá kemur mengun frá þungamálminum kopar sem notaður er sem ásætuvörn á sjókvíar. Til að berjast við lúsina þarf síðan að nota eiturefni, sem hefur einnig neikvæð áhrif á sjávarlíf. Allt þetta er óhjákvæmilegur fylgifiskur sjókvíaeldis.

Ferðaþjónusta, hlunnindi og sjálfbærni

Ef sveitarstjórnum á svæðinu er virkilega umhugað um fólkið sitt og uppbyggingu ættu þær að horfa til þeirra hlunninda sem hljótast af lax- og silungsveiðiám á svæðinu. Það eru einmitt þessi hlunnindi sem rýrna og á endanum glatast ef sjókvíaeldi fær að vaða uppi. Nýlega stefndi Veiðifélag Hrútafjarðarár- og Síkár íslenska ríkinu út af einmitt þessu. Verið er að æða áfram með mengandi stóriðju á kostnað náttúrunnar og þeirra fjölskyldna sem treysta á hlunnindi af ánum. Einnig ber að nefna alla þá ferðaþjónustu sem treystir á heilbrigðar ár. Leiðsögufólk, leigutakar, gistiheimili og fleiri treysta á villta fiskistofna og heilbrigðar ár.

Í Fjallabyggð, og í raun um allt Norðurland hefur ferðaþjónusta blómstrað undanfarin ár. Fólk kemur alls staðar að til að upplifa fallega náttúru og allt sem hún hefur uppá að bjóða. Veiði, skíði, brimbretti, fjallgöngur og fleira eru í hæsta gæðaflokki í Fjallabyggð og Eyjafirði. Á Tröllaskaganum og í Eyjafirði hafa byggst upp sterk ferðaþjónustufyrirtæki sem eru með fjölda fólks í vinnu. Forsenda þessara starfa er að á svæðinu sé hrein og falleg náttúra.

Megin áhrifin eru þó á lífsgæði íbúa í Eyjafirði. Hrein náttúra og möguleikar á að njóta hennar eru þau lífsgæði sem eru ómetanleg í Eyjafirði og stór hluti á ímynd svæðisins. Bleikjuárnar eru stór partur af þeim lífsgæðum, gæðum sem ungir sem aldnir hafa notið í áratugi. Þessari náttúru verður fórnað ef hugmyndir um 20.000 tonna laxeldi í Eyjafirði verður að veruleika.

Ætla Kleifar fiskeldi að fórna öllum þessum störfum í sínu eigin sveitarfélagi og lífsgæðum Eyfirðinga fyrir þá mengandi stóriðju sem sjókvíaeldi er?

Þjóðin á móti þessum iðnaði

Í júlí 2024 kom út könnun frá Gallup þar sem í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er á móti sjókvíaeldi, eða tæplega 70%. Í norð-austur kjördæmi eru aðeins 21% jákvæð í garð sjókvíaeldis. Samt á að vaða áfram og reyna enn eina ferðina að koma á laggir mengandi stóriðju, sem fólk vill ekki.

Allt það sem Kleifar fiskeldi heldur fram hljómar kunnuglega. „Treystið okkur, þetta verður allt í lagi“. Því miður er raunin sú að þetta er aldrei í lagi. Það er ekki til eitt dæmi í heiminum þar sem að fyrirtæki, sveitarfélög eða ríkisstjórnir hafa náð að koma í veg fyrir neikvæðu áhrifin af sjókvíaeldi. Af hverju ætti Kleifum fiskeldi að vera fyrsta fyrirtækinu sem tekst það?

Verndum Eyjafjörð!

Ef marka má reynslu erlendis frá þá getur fyrirhugað eldi í Eyjafirði haft mjög neikvæð áhrif á villta stofna af laxi, sjóbirtingi og sjóbleikju á svæðinu. Þessu er til dæms gert skil í myndinni „Árnar þagna“, sem frumsýnd var á Akureyri 6. nóvember 2024. Hún lýsir ástandinu sem hefur skapast í Noregi vegna sjókvíaeldis; á villta laxastofna og samfélagið þegar sú ákvörðun var tekin að loka um 33 laxveiðiám þar í landi.

Hér á landi eiga bleikjustofnar undir verulegu höggi að sækja vegna hlýnandi veðurfars og annarra þátta af mannavöldum og mega vart við frekari áföllum. Eyjafjörðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir stofna sjóbleikju, en þegar best lét veiddist þar allt að þriðjungur allrar sjóbleikju á Íslandi. Sjókvíaeldi myndi gera endanlega út um sjóbleikjustofna þar og einnig hafa neikvæð áhrif á aðra ferskvatns- fiska. Sjókvíaeldi í Eyjafirði ætti því að vera óheimilt með öllu!

Eftirfarandi veiðifélög, samtök, stofnanir og fyrirtæki fordæma allar áætlanir um sjókvíaeldi í Eyjafirði.

Stangaveiðifélag Akureyrar

Stangaveiðifélagið Flúðir

Veiðifélag Fnjóskár

Veiðifélag Eyjafjarðarár

Veiðifélag Hörgár

Fiskirannsóknir ehf

Félagsskapurinn Bleikjan - Styðjum stofninn

SUNN - Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi

Landssamband Veiðifélaga

NASF – Verndarsjóður villtra laxastofna

Verndarsjóður Villtra Laxastofna

Íslenski náttúruverndarsjóðurinn – IWF

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00